20.5.2019 | 00:50
Þegar Vestur-Íslendingurinn hló sig máttlausan yfir kertunum.
Prýðis Vestur-Íslendingur, alltaf kallaður Steini, kom til Íslands sumarið 1976. Dóttir okkar hafði verið send vestur til Kanada til þess að dvelja hjá kanadískum hjónum.
Hún fór þangað með tveimur öðrum unglingum um fermingu sem til stóð að yrðu þar um skóla um veturinn.
Þegar vestur kom brá þeim í brún, því að lífið hjá hjónunum var í meira lagi brogað vegna þess að konan var hálf rugluð og stundaði þvílíkt meinlætalíf, að krökkunum féll allur ketill í eld.
Fór svo að þau struku frá hjónunum og leituðu ásjár hjá Steina og konu hans, prýðisfólki.
Í þakklætisskyni fyrir þessa björgun voru þau boð send Steina, að ef hann kæmi til Íslands, fengju þau hjónin inni hjá okkur.
Svo fór að það voru tvenn vestur-íslensk hjón, sem komu til landsins, og gistu á tveimur heimilum.
Steini og frú gátu bjargað sér á íslensku, eða réttara sagt vestur-íslensku og var Steini hrifinn af fjölskyldu"karinu" okkar sem var Bronkó, og gat á þessum árum rúmað alla okkar níu manna fjölskyldu því engin skylda var þá um bílbeltanotkun og hrúgað ansi frjálslega í bíla.
Bæði hjónin ætluðu norður í land síðari hluta Íslandsdvalar sinnar og bauðst ég til að fara með þau norður og leyfa þeim að sjá Mývatnssveit og Dettifoss.
Þess má geta að þegar Vestur-Íslendingar tala um "karið" er það út af fyrir sig ekkert verra orð en ef talað væri um bílinn, bæði eru tökuorð, annað úr ensku og hitt úr dönsku.
Tvö stálpuð börn mín fóru í þessa ferð, Ninna og Þorfinnur, og sat Þorfinnur þversum fyrir aftan aftursætið því að Bronkó var álíka langur og Yaris er nú.
Þegar hjónin bar að garði til að hefja ferðina, var ég með opið vélarrýmið að dytta að vélinni og stóð þannig á, að ég var að tékka á kertunum og var að skrúfa eitt þeirra úr.
"Hvað ertu að gera?" spurði Steini á sinni ágætu íslensku.
"Ég er að tékka á kertunum", svaraði ég.
"Ha?"
"Já, kertunum," svaraði ég þar sem ég bograði við að byrja að losa eitt kertið.
Steini rak upp svo dillandi skellihlátur að glumdi um götuna.
"Kertunum! Haha! Ætlarðu virkilega að segja mér að þið notið kerti í bílana ykkar? Ég hef nú aldrei heyrt annað eins!"
Ég benti Steina á staðinn þar sem kertið var, sem ég var að byrja að losa.
"Þetta er alveg galið." sagði Steini. "Ég trúi þessu ekki."
"Nú?" svaraði ég. "Notið þið enska heitið fyrir vestan?"
"Að sjálfsögðu ekki," svaraði Steini. Við þýddum enska heitið yfir á íslensku.
"Og hvað kallið þið þá kertin?" spurði ég.
"Nú, auðvitað neistatappa", svaraði Steini. "Það bein þýðing á "spark plugs" og sú eina rétta."
Svo skellti hann sér á lær og hló enn hærra. "Kerti!" "Ha! Ha! Ha! Ha! Það er eins gott að karið þitt sé ekki með torfþak."
Guðni kvartar ekki yfir Hatara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góður. Man ég líka hvað var troðið í þetta bíla og muninn a´Bronkó og Willis bronkóinn var kadilak miðað við willisinn gamla.Já svo kom skátin hann var enn stærri. Neistatappi er flott orð.
Valdimar Samúelsson, 20.5.2019 kl. 15:25
Ég hef stundum á jólum sett smá fimmaurabrandara inná facebook síðu Svifflugfélags Akureyrar. Það er samsett mynd með af annars vegar dráttarpsili svifflugfélagsins og svo nokkrum kertum úr auglýsingu. Myndinni fylgir síðan jólakveðja með greni og jólabjöllum. Innvígðir svifflugmenn skilja fimmaurabrandarann og orðaleikinn "Kerti og spil".
Jón Magnússon (IP-tala skráð) 20.5.2019 kl. 22:53
Her er tengill:
Jón Magnússon (IP-tala skráð) 20.5.2019 kl. 23:06
Prófa aftur að setja inn mynd.
Jón Magnússon (IP-tala skráð) 20.5.2019 kl. 23:09
Slóðin er: "https://photos.app.goo.gl/hoWt7WSvJShPzcMK7" get ekki sett hlekinn inn í athugasemdina, þ.a. áhugasamir verða að afrita slóðina og paste-a inn í vafrann.
Jón Magnússon (IP-tala skráð) 20.5.2019 kl. 23:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.