29.5.2019 | 07:10
Langflestir ættu að geta fundið lausn fyrir sig.
Mótbárurnar gegn því að allur almenningur geti tekið þátt í því að minnka útblástur farartækja á Íslandi hafa augljóslega hamlandi áhrif á því að orkuskiptin gangi nógu greiðlega í gegn.
Ein mótbáran er í fullu gildi, en hún beinist gegn því að búa til sveigjaleika í kerfinu til þess að kalla fram sanngjarna skattheimtu og rekstrargrundvöll mismunandi farartækja.
Meðan gjaldakerfið er eins og það er stuðlar það að því að krafa hvers og eins snúist um eitt aðalfarartæki, sem geti leyst allar þarfir.
Það leiðir til þess hve margir kaupa tengiltvinnbíla, en þeir eru flestir ekki minna en 1600-1900 kíló að þyngd og kosta minnst fimm milljónir króna.
Fjárfesting í slíkum bíl og rekstrarkostnaður er óhjákvæmilega miklu meiri að vöxtum en það að eiga mun smærri bensín- eða dísilknúinn bíl, og ódýrari og einfaldari lausnin verður því miklu oftar niðurstaðan en æskilegt væri, því að með hún leiðir til sáralítils árangurs í minnkun á eldsneytisnotkun og útblæstri.
Í Noregi skipuðust mál þannig, að í fyrstu var rafbíll keyptur sem bíll númer tvö á heimilinu, en varð fljótt bíll númer eitt, því að að meðaltali er meira en 80-90 prósent af akstrinum á heimilinu innan þéttbýlis.
Sveigjanleiki í opinbera kerfinu gæti falist í þeim möguleika að bílaeigendur eigi kost á að setja innsiglaða vegalengdarmæla í bílana og borga gjöld í hlutfalli við eknar vegalengdir.
Svona kerfi var við lýði meðan dísilolía var undanþegin stórum hluta opinberra gjalda og þótti nokkuð flókin og stirðleg í framkvæmd.
En með stórbættri tölvutækni hlýtur að vera að ráða bót á þessu, og ef talað er um að eftirlitskerfið sem þessu fylgi sé of dýrt má benda á að jákvæðu heildaráhrifin af skynsamlegri samsetningu samgöngutækjaflotans vega margfalt þyngra.
Hér á síðunni hefur niðurstöðu af rannsóknum og rekstri samgöngutækjaflota heimilis síðuhafa og konu hans í fjögur ár verið lýst, en þeim verður kannski nánar lýst enn á ný eftir að boðað viðtal við Kára Arnórsson verður birt í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Reynsla Norðmanna með tilkomu rafbíla varð sú í upphafi, að hjá flestum heimilum með rafbíl voru bílarnir tveir, hefðbundinn meðalstór bensín- eða dísilknúinn bíll varð í fyrstu bíll númer eitt en rafbíll bíll númer tvö.
En fljótlega snerist þetta við, rafbíllinn varð númer eitt en bensínbíllinn númer tvö.
Vegna þess að yfir 80-90 prósent heildaraksturs heimilisins er í þéttbýlisumferð, verður lagning opinberra gjalda á bensín/dísilbílinn ósanngjarnlega há miðað við akstur hans við slíkar aðstæður.
Þessvegna má spyrja hvort ekki sé hægt að útbúa þann möguleika að akstur á bílnum, sem aðallega er notaður í utanbæjarakstri, verð skattlagður í hlutfalli við ekna vegalengd.
Tileinkar sér tæknina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.