31.5.2019 | 08:40
Ófullkominn fréttaflutningur.
Ágæt frétt um sauðburð á Ströndum og áhrif kulda, sem nú ríkir, og þessi pistill er tengdur við, er ein af mörgum fréttum í fjölmiðlum þessa dagana, sem hver um sig er vel gerð, en geta samt í heildina gefið misvísandi mynd af atriðum eins og færð á vegum.
Síðuhafi hefur í hyggju að fara landleiðina til Akureyrar síðdegis í dag til þess að skemmta í Norðurslóðasafninu annað kvöld í tilefni af því að sextíú ár eru liðin síðan linnulausar ferðir hans um landið hófust 1959, fyrst eingöngu til að koma fram á skemmtunum, en síðar vegna fréttamennsku og dagskrárgerðar.
Í Norðurslóðasafninu stendur einnig til að afhenda myndefni frá íslenskum leiðangri jeppamanna fram og til baka yfir Grænlandsjökul fyrir réttum 20 árum.
Fyrsta héraðsmótahelgin 1959 hófst á Ólafsfirði, en síðan þurfti að sigla þaðan til Akureyrar, því að vegur fyrir Ólafsfjarðarmúla var þá aðeins draumur.
Fyrir átján ára menntaskólapilt varð árið 1959 tímamótaár, því að það var ómetanlegt fyrir landafræðinörd að fá allt í einu um áramótin að "harka" í skemmtibransanum fyrstu mánuði ársins á 40 stöðum og hafa síðan komið á héraðsmótin um allt land aðeins átta mánuðum síðar.
Þá hófust gagnger og gefandi kynni við land og þjóð.
Til að átta sig á færðinni norður á bíl á sumardekkjum renndi ég yfir veðurspár og veðurlýsingar á vedur.is og skoðaði vefmyndavélar í vegakerfinu allt frá Holtavörðuheiði og norður og austur um til Berufjarðar.
Þá kom í ljós að sá fréttaflutningur í fjölmiðlum um veðurskilyrði, sem hafa áhrif á færð á vegum, gat valdið misskilningi um heildarmyndina, því að enda þótt það væri snjór á Fjarðarheiði og svæðinu frá Borgarfirði eystra til Mjóafjarðar, og rétt og satt sagt frá því, gátu þeir, sem ekki kynntu sér heildarmyndina haldið, að svona væri ástandið fyrir norðan og austan . En þegar nánar var að gætti voru allir aðalvegir auðir á nær öllu landinu.
Að sjálfsögðu hafði slæm færð á Fjarðarheiði og nyrðri hluta Austfjarða tekið mikið rými í fjolmiðlum, en með því að sleppa því að fjalla um aðra vegi, var gefið í skyn að eindæma snjóþyngsli ríktu á vegum á norðan- og austanverðu landinu.
En þegar skoðað er kort af vegakerfinu nú í dag, 31.maí, eru allar helstu leiðir greiðfærar, þar með talinn hringvegurinn allur og Fjarðarheiðin eins og sést á meðfylgjandi myndum.
Í spám á vedur.is eru yfirleitt tölurnar núll sýndar um áætlaða úrkomu víða um byggðir landsins, og þegar rakatölur eru skoðaðar, sést vel að heimskautaloftið, sem leikur um landið, er afar þurrt og sólin nær að hita landið á daginn.
Afar kalt en þurrt á Ströndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.