Múrmansk afhjúpaði getuleysi sovétkommúnismans.

Síðuhafi hefur komið bæði til Moskvu, Demyansk, Murmansk og Kolaskaga og orðið þess áskynja, að það kynnist enginn Norðurlandabúi hinu raunverulega Rússlandi nema að fara til héraða, sem eru á svipaðri breiddargráðu og Norðurlöndin eru. 

Að segjast hafa kynnst Rússlandi með því að koma til Moskvu er bæði að sögn ferðamanna og heimamanna sjálfra  mikil blekking. Þessi stórkostlega borg sé í raun aðeins nokkurs konar sýningargluggi en ekki dæmi fyrir raunveruleg kjör almennings í víðfeðmasta ríki heims. 

Rússi, sem hafði verið á Íslandi um nokkurra ára skeið, fór með mér sem aðstoðarmaður í kvikmyndaleiðangur frá Moskvu veturinn 2006 um 350 kílómetra vegalengd í norðvestur til bæjarins Demyansk við Valdaihæðir, nokkurn veginn miðja vegu milli Moskvu og St. Pétursborgar. 

Eftir ferðina sagðist hann vera mér afar þakklátur fyrir að hafa farið í ferð til að kynnast hinu raunverulega Rússlandi, því að hann hefði aldrei áður farið að neinu gagni út fyrir heimaborg sína. 

1978 gafst tækifæri til að fara í hópi norrænna bílablaðamanna í ökuferð frá Ivalo í Finnlandi um Kolaskaga til Murmansk og var ekið á endurbættum Volvobílum, sem voru á þeim tíma með ellilegri bílum sem framleiddir voru á Vesturlöndum. 

Að koma til Murmansk var líkt og að vera kippt aftur til ársins 1948 á Íslandi. Göturnar malargötur, sem um skröltu gamlir og þreytulegir vörubílar með verkakalla standandi aftur á eins og í Reykjavík í den.

Biðraðir í búðum eins og var heima 1948. Húsin, jafnvel hótelið sjálft,  illa frágengin og lóðirnar líka. 

3000 manna biðlisti eftir því að fá að fara sem háseti á risavöxnum verksmiðjutogurinn til þess eins að vera mánuðum saman á sjó án þess að komast í land, en geta samt sloppið út úr því þjóðarfangelsi, sem Sovétríkin voru fyrir flesta. 

Hásetar í þröngum klefum en yfirmennirnir í hálfgerðum svítum, stéttaskiptingin mikil um borð í þessu landi svokallaðs jafnréttis. 

Því haldið fram að búið væri að útrýma vændi í krafti kommúnismans en nokkrir bílablaðamannanna voru ungir ógiftir menn og fyrstu kynnin við innfædda voru vændiskonur!Umferðarmerki á Kolaskaga

Leiðsögummenn dásömuðu útrýmingu spillingarinnar í sæluríkinu, en þegar röðin af Volvo bílunum, sem blaðamennirnir óku, og voru með ellilegustu vestrænum bílum í útliti, kom að hótelinu, varð að forða þeim öllum í lokaðan garð á bak við hótelið, því að strax voru komnir menn, sem buðu stórfé í bílana og sögðust vera með sambönd til að geta það léttilega, auk þess sem íbúar Murmansk máttu helst ekki sjá þessa vestrænu bíla. 

Í nokkrum atriðum stóðu kommarnir þó framar okkur vesturlandabúum. Söfnin þeirra voru afar góð og hver íbúi norðan heimskautsbaugs fékk eina fría ferð og dvöl á Krím til að bæta upp kuldann og vetrarmyrkrið. 

Ekki furða þótt Pútín léti kippa Krím inn í Rússland á ný.

Og þar sem vegir eða brýr voru einbreiðir voru merkingar, sem fyrir löngu hefðu átt að vera komnar heima á Fróni.  

 

 


mbl.is Túristar frá Pétursborg til Múrmansk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband