Ásókn í hámarks áhættu.

Tvennt liggur fyrir varðandi notkun hjálma á vespum og reiðhjólum. 

1. 70-75 prósent banaslysa og alvarlega slysa eru alvarlegir höfuðáverkar, sem hægt er að koma að mestu leyti í veg fyrir ef notaðir eru hlífðarhjálmar. 

2. Með því lýsa yfir velþóknun á því að nota ekki hjálma er beinlínis verið að mæla með því að sækjast eftir sem allra mestri hættu í notkun reiðhjóla, rafreiðhjóla og vélhjóla. Hjálmar, opin og lokaður

Furðulegt er að Samtök um bíllausan lífsstíl og Samtök hjólreiðamanna skuli vera svo þröngsýn og einsýn, að taka hámarks áhættu við hjólreiðarnar fram yfir það að þær séu stundaðar af eins mikilli ábyrgð og lágmörkun áhættu og unnt er. 

Eyða þarf fordómum gegn hjálmunum, sem eiga einmitt sérstaklega vel við í okkar svala veðurfari. 

Síðuhafi hefur notað bæði létta hjálma, opna að framan og neðan og lokaðan hjálm á fimm ára hjólaferli.Hjálmur,opin loftloka.

Og þvert ofan í fyrirfram fordóma um það að lokaði hjálmurinn væri of óþægilegur og að maður svitnaði í honum kom í ljós, að það var miklu erfiðara að halda þægilegum hita á andliti og höfði með opna hjálminum en þeim lokaða. 

Með notkun lokaða hjálmsins hverfur öll þörf fyrir sérstakan umbúnað um eyru og andlit, og á lokaða hjálminum er bæði hægt að opna gegnsæja hlutann og líka sérstaka stillanlega loftlúgu yfir enninu til þess að fá svalara loft til að leika um höfuðið. 

Sjá myndirnar. 

Það lýsir algerri uppgjöf fyrir því verkefni að útskýra gildi hjálmanna að krefjast þess að engin skylda sé um notkun þeirra. Hjálmur lokuð loftloka

Það minnir óþyrmilega á andófið gegn bílbeltunum á sínum tíma. 


mbl.is Hjálmlaus að reiða 2-3 farþega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Auðvitað á að skylda notkun hjálma á öllum hjólum, hvort heldur þau eru fótstigin eða með mótor. Þar eiga engin aldursmörk að vera, einfaldlega skylda.

Auðveldlega má ná miklum hraða á fótstignu reiðhjóli og það er hraðinn sem skiptir máli, ekki ökutækið sem notað er. Maður á 30 km hraða slasast jafn mikið, hvort heldur hann er á léttu reiðhjóli eða þungu bifhjóli. Þá er það höfuðið sem oftast verður stefni líkamans og tekur fyrsta höggið.

Sára sjaldan sjást hestamenn á ferð án hjálms. Þar var þó ekki löggjafinn að verki, heldur hestamenn sjálfir. Eftir nokkur alvarleg slys í hestamennsku, var farið í mikið áróðursstarf um notkun hjálma og stóðu hestamenn og þeirra félög að þeirri vinnu. Árangurinn hefur orðið hreint út sagt magnaður.

Skemmtilegra hefði verið að sjá og heyra fulltrúa um bíllausan lífsstíl og samtökum reiðhjólamanna fagna því að aldursmörk um notkun hjálma ætti að hækka og enn betra hefði verið ef þeir hefðu nefnt við sama tækifæri að skylda ætti allt hjólafólk til að nota hjálm.

Gunnar Heiðarsson, 6.6.2019 kl. 08:48

2 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Mér sýnist þú heldur betur vera að kasta steini úr glerhúsi þegar þú ert hér að væna Landsamtök hjólreiðamanna og Samtök um bíllausan lífsstíl um fordóma. Afstaða þessara samtaka er samhljóða afstöðu flestra ef ekki allra systursamtaka þeirra í heiminum í þessu máli og er sú afstaða byggð á mörgum ítarlegum rannsóknum á gagnsemi hjálmaskyldu á reiðhjólum sem í stuttu máli er almennt slæm og oft á tíðum mjög slæm. Þú byggir þitt álit hins vegar á gagnsemi þess að nota reiðhjólahjálm sem allir með þekkingu á málinu vita að er allt annar hlutur.

Munurinn á þessu og skyldunotkun bílbelta er sá að rannsóknir hafa sýnt að reynslan af skyldunotkun bílbelta er almenn góð á meðan reynslan af skyldunotkun reiðhjólahjálma er almennt slæm. Til dæmis var það helsta niðurstaða norsku umferðaöryggisstofnunarinnar eftir ítarlega rannsókna á reynslu þeirra þjóða sem höfðu sett á slíka skyldu að „þó sannanlegs auki einstakir hjólreiðamenn öryggi sitt með því að nota hjálm þá er ekkert sem bendir til þess að skyldunotkun hjálma fækki slysum  heldur fækkar hún fyrst og fremst hjólreiðamönnum“. Ég endurtek. Þetta var niðurstaða þeirra eftir ýtarlegar of faglegar rannsóknir enda nýtur stofnunin virðingar fyrir fagleg vinnubrögð sem er ein af ástæðum þess að slysatíðni í umferðinni í Noregi er með því lægsta sem gerist í heiminum. Danir voru líka að skoða þetta fyrir nokkru en eftir ítarlegar rannsóknir komust þeir að sömu niðurstöðu og Norðmenn að þetta væri slæm hugmynd. Í báðum löndum var fallið frá hugmyndum um skyldunotkun reiðhjólahjálma að vel athuguðu máli. Hér á landi stendur hins vegar til að hækka aldursmörk hjálmaskyldu án þess að farið hafi fram nokkur rannsókn á því hver sé væntanlega afleiðing af slíkri lagasetningu. Þetta geta ekki talist fagleg vinnubrögð.

Reynslan af hjálmaskyldu er misjöfn og fer það fyrst og fremst eftir því hversu hart henni er fylgt eftir. Til dæmis hefur hjálmaskyldu í Finnlandi ekkert verið fylgt eftir og niðurstaðna er að hjálmanotkun hefur ekkert breyst og hefur þessi lagasetning því hvorki haft áhrif á tíðni hjólreiða eða hjólreiðaslysa. Þetta er líka reynslan hjá okkur með hjálmaskyldu hjólreiðamanna yngri en 15 ára. Henni hefur ekkert verið fylgt eftir. Hjálmaskylda jókst á sínum tíma eftir að Kiwanis menn fóru að gefa börnum í 1. bekk í grunnskóla hjálma en þegar það var gert að skyldu þá hættu Kiwanis menn því og í kjölfarið minnkaði hjálmanotkun barna þangað til Kiwanis menn fóru aftur að gefa hjálma en síðan þá hefur hjálmanotkunin aukist aftur.

Þar sem hjálmskyldu hefur verið fylgt fast eftir hefur reynslan alls staðar orðið sú að hjólreiðar hafa dregist mikið saman jafnvel yfir 50% en algengast er að samdrátturinn sé á bilinu 25-35%. Ekkert bendir til að í neinu þessara landa hafi tíðni alvarlegra slysa þar með talið banaslysa hjá reiðhjólamönnum  lækkað. Í það minnsta 3 lönd það er Ísrael, Bosnía og Malta hafa afnumið hjálmaskyldu að hluta eða öllu leyti og er ástæðan mjög slæm reynsla af slíkri lagasetningu.

Af hverju ættum við að taka upp það sem aðrir hafa slæma reynslu af og sumir eru að bakka út úr af þeim sökum? Ef reynslan yrði góð hér þá yrði það séríslenskt fyrirbrigði.

Sigurður M Grétarsson, 6.6.2019 kl. 11:20

3 identicon

Góð og þörf skrif, Ómar.

Aldrei of oft minnt á áhættuna af því, að nota ekki hjálm á vissum farartækjum og ferðaskjótum.

Er sjáfur hjólreiðamaður, og var lengi vel virkur innan hjolreiðafélags í grasrótinni.

Hætti öllum afskiptum af öllum reiðhjólafélögum, þegar þau fóru að ræða um að hjálmanotkun væri ekki nauðsynleg.

Gat einfaldega ekki tekið undir slíkan málflutning, eða verið mögulega óbeinlínis valdur að óbætanlegum skaða annara.

En ég hjóla samt ennþá, og nota hjálm, alltaf.

Kveðja,

Heimir H. Karlsson.

Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 6.6.2019 kl. 11:43

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Hér má heyra viðtal við bráðalækni á Landspítalanum sam jarðar þessa hugmynd um hækkun þess aldurs sem hjálmaskylda nær til og bendir á hversu fáránleg hún er.

https://www.visir.is/k/3b2b4274-2c95-4ec7-b15c-03c0bc00d48c-1559754959899?fbclid=IwAR2-UvhaQJEWxsBBOsc7FxbFOEOwgI8zZWLetp8bBRMvj3pZUyuqO7av-3g

Sigurður M Grétarsson, 6.6.2019 kl. 12:30

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef mönnum finnst það sjálfhverf skoðun að nota hlífðarhjálm á hjóli, þá það.

Úr því að svo vildi til að ekið var á bíl af öllu afli á mig þar sem ég var á gangbraut á móti grænu ljósi, vegna þess að bílstjórinn hugðist þrykkja sér af Grensásvegi inn á Miklubraut, þótt hann væri blindaður af lágri kvöldsól, hef ég dálítið sjálfhverfa reynslu. 

Ég braut framrúðu bílins með höfðinu og það fær enginn mig til að trúa því að ég hefði sloppið betur frá hjálmlaus en með hjálm. 

Hjólreiðamaðurinn getur ekki ákveðið fyrirfram hver sé stærð og hraði bíls, sem er ekið á hann af fullu afli.  

Bílstjórinn, sem í hlut á, getur allt eins verið á þvernhníptum flutningabíl eins og lágum fólksbíl. 

Ómar Ragnarsson, 6.6.2019 kl. 15:31

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ómar. Þarna ert þú enn og aftur að rugla saman spurningunni um það hvort öruggara sé að hjóla með eða án hjálms og því hvort lagaskylda til hjálmanotkunar sé líkleg til að fækka slysum. Það er engan veginn sami hluturinn. Það er ekkert sem bendir til þess að það hafi nokkurs staðar gerst þar sem slík lagaskylda hefur verið tekin upp að það hafi leitt til fækkunar alvarlegra slysa á hjólreiðamönnum. Og það er ástæða fyrir því að í það minnsta þrjú þeirra landa sem hafa sett á slíka skyldu hafa tekið hana til baka að hluta eða öllu leyti. Það var í öllum tilfellum gert vegna þess að reynslan af hjálmaskyldunni var mjög slæm. Þetta leiddi í öllum tilfellum til mikils samdráttar í  hjólreiðum en engrar lækkunar á tíðni alvarlegra slysa  hjá hjólreiðamönnum. 

Ein aðal ástæða þess að hjálmaskylda hefur ekki leitt til lækkaðrar slysatíðni hjá hjólreiðamönnum er sú að eitt af því sem mest lækkar slysatíðni hjá hjólreiðamönnum er að þeim fjölgi. Það eru mjög sterk tölfræðileg tengsl milli hlutfalls hjólreiða í umfeðinni og slysatíðni við hjólreiðar þar sem slysatíðni er þeim mun lægri þeim mun hærra hlutfall sem hjólreiðar eru í umferðinni. Lækkun hlutfalls hjólreiðamanna í  umferðinni hefur öfug áhrif. Þetta er oft kallað "öryggi fjöldans". Og af því að hjálmaskylda sem fylgt hefur verið eftir með viðurlögum hefur undantekningarlaust leitt til mikils samdráttar í hjólreiðum þá leiðir það til minna öryggis fjöldans. Hjálmaskylda sem ekki er fylgt eftir með viðurlögum hefur almenn ekki haft nein áhrif á hjálmanotkun og þar með ekki heldur reiðhjólanotkun.

Það er vert að minna aftur á niðurstöðu norsku umferðaöryggisstofnunarinnar. Hún tæklar þetta mál mjög vel "Þó það að einstakir hjólreiðamenn auki öryggi sitt með því að nota reiðhjólahjálm þá er ekkert sem bendir til þess að skyldunotkun hjálma fækki slysum heldur fækki aðeins hjólreiðamönnum".

Svo má benda á það að slysatíðni við hjólreiar er það lág að það getur ekki á nokkurn hátt talist til áhættuhefðunar að hjóla hjálmlaus. Er það ekki lágmarkskrafa til að réttlætanlegt sé að banna einhverja yðju án sérstaks öryggisbúnaðar að það geti talist áhættuhegðun að gera það án hans?

Sigurður M Grétarsson, 6.6.2019 kl. 15:52

7 identicon

Ættingi minn slasaðist á höfði ungur maður og hann er ekki búinn að eiga auðvelt líf í þessu dæmandi samfélagi.Fólk áttar sig ekki sjálft á persónuleikabreytingunni,minnistapinu og hvatvísinni.Allir verða þreyttir í kring um persónuna til lengdar og einmanaleikinn er ekki langt undan,NOTIÐ HJÁLMA

Anna (IP-tala skráð) 6.6.2019 kl. 19:54

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hér er verið að reyna að telja mér trú um að hjálmurinn hefði ekki gert neitt gagn þegar framrúða bíls var brotin með honum. 

Ómar Ragnarsson, 6.6.2019 kl. 19:58

9 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ómar. Hver hefur verið að halda því fram að hjálmurinn hafi ekki gert gagn í þessu tilfelli hjá þér? Ég sé það hvergi í neinni athugasemd hér að ofan.

Sigurður M Grétarsson, 6.6.2019 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband