14.6.2019 | 09:55
Einn anginn af íslenskri umferðar(ó)menningu.
Ævinlega þegar komið er heim til Íslands úr ferð til útlanda fylgir því ákveðið sjokk við að upplifa breytinguna, sem því fylgir í umferðinni. Maður fær móral yfir því að vera þátttakandi í íslenskri umferðarmenningu.
Í Barcelona, þar sem dvalið var í nokkra daga, blasti við hvernig hin gróna umferðarmenning sá til þess að flókin og mjög mikil umferð þar gengi sem áfallalausast fyrir sig.
Allir virtust á tánum varðandi það að leggja sig fram um aksturinn með hagsmuni allra fyrir augum og vera meðvitaðir um stöðu og gerðir allra allar stundir.
Á leið eftir aðal umferðaæðinni inn í borgina úr norðaustri rann þétt blanda af bílum, vélhjólum, sem eru vespulaga mestanpart, reiðhjólum, bílum og gangandi fólki snurðulaust og hratt á þann hátt, að það var hægt að ímynda sér að ef tómir Íslendingar yrðu settir á einu andartaki til að stýra þessum farartækjum öllum, yrði fljót úr því stærsti fjöldaárekstur álfunnar.
Á tímabili var næstum helmingur ökutækjanna í þessari þéttu umferð litlu vélhjólin, sem þutu vandræðalaust í gegnum langa og margfalda röð af hægfara bílum.
Þennan morgun var ausandi rigning í borginni, en það hafði ekki minnstu áhrif á samsetningu umferðarinnar.
Á sama tíma er búinn að vera margra vikna samfelld blíðutíð heima þar sem menn tala samt hver upp í annan um það að allir verði að fara um á stórum einkabíl vegna þess að veðurlagið hamli alveg notkun neins annars farartækis.
Fjögurra ára reynsla síðuhafa af hjólanotkun hefur leitt í ljós, að hann var smám saman í gegnum tíðina búinn að mikla veðurlagið fyrir sér langt umfram raunveruleikann.
Og nú eru starfsmenn í óða önn að rífa niður teinagirðingar af miðeyjum vega í Reykjavík.
Og hvers vegna voru þær settar upp?
Jú, vegna þess að annars var straumur fólks að ganga á ólöglegan hátt yfir þessar breiðu umferðargötur þvers og kruss með tilheyrandi truflunum og slysahættu.
En hvers vegna er þá verið að taka girðingarnar niður núna?
Jú, vegna þess að fólk kastast út úr bílum og bíður bana í umferðaróhöppum, af því að það notar ekki bílbelti, og þá eru teinagirðingarnar orðnar að drápstækjum.
Umferðin í Barcelona og ótal öðrum borgum erlendis litast af því að menn líta ekki á sig sem einráða og eina á ferð, upptekna við eitthvað annað en aksturinn, eins og hefur verið lenska hjá okkur, heldur á þá staðreynd, að umferðin er spurningin um heildarútkomuna fyrir alla, að allir fylgist vel með öllum og virði þá meginreglu skynsamlegrar umferðar að haga ferðum sínum og gjörðum þannig að það geri umferðina í heild sem greiðasta og hættuminnsta.
Það er langbest fyrir mann sjálfan.
Eitt frumskilyrðið er að vanda ákvarðanir um staðsetningu og hraða og gefa stefnuljós sem auðvelda öðrum að haga sínum akstri á sama hátt.
En hér á landi virðist þorri ökumanna líta á það sem hluta af friðhelgi einkalífs að þeir láti engan vita um fyrirætlanir sínar heldur þjóni geðþótta sínum og duttlungum.
Þetta er svo smitandi hegðun, að þegar komið er heim á Frón eftir dvöl erlendis, fylgir því mórall yfir því að reyna ekki að bæta sig og hætta að verða samdauna þessu ástandi.
Á mörgum stöðum í borginni gefur minnihluti ökumanna stefnuljós, og stór hluti þeirra sem gefa stefnuljós, drattast ekki til þess fyrr en það er orðið allt of seint og gagnast ekki neinum.
Teinagirðingarnar fjarlægðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hafðu heill mælt. Sammála þessu öllu um umferðina hér á landi. Til Barcelona hefur leið mín ekki legið (enn).
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 14.6.2019 kl. 10:08
er ekki svo Ómar að þú ert kominn inn í miðborg Barcelona þegar þú sérð ljósastýrð gatnamót þegar þú ferð eftir þessari umferðar æð. ég held að umferðin á höfuðborgarsvæðinu gæti gengið vel smurð ef öll gatnamót væru mislæg án umferðarljósa á Hringbraut, Miklubraut,Vesturlandsvegi og Sundabraut Reykjanesbraut.. Reykjavíkurvegur Kringlumírarbraut.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 14.6.2019 kl. 13:14
Hvað þá með steingirðingar Reykjavíkurborgar. Fólk hefur verið að meiða sig á þeim
Halldór Jónsson, 14.6.2019 kl. 14:26
Voru nokkuð hraðahindranir, þrengingar og viljandi ósamstillt umferðaljós í Barcelona líkt tíðkast í flestum götum hér í höfuðborginni
Borgari (IP-tala skráð) 14.6.2019 kl. 15:35
Við fórum reyndar í alls þrjár rútuferðir, tvær þeirra vegna þess að flug heim var fellt niður, en þá þriðju sem skoðunarferð, alls rúmlega 200 km, og urðum aldrei vör við eða sáum neinar hraðahindranir.
Ég átti heima við Háaleitisbraut í marga áratugi og meðan gatan var bein og breið var ekið þannig eftir þeirri götu, að fjölmörg alvarleg slys og banaslys urðu á kaflanum milli Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
Að lokum, í borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar var þessi hluti gerður að mjórri og hlykkjóttri götu með þremur hraðahindrunum og 30 km hámarkshraða.
Við það hurfu hin tíðu alvarlegu slys.
Ályktun: Það sem þarf hér til að taka í taumana, virðist ekki þurfa í sama mæli í Barcelona.
Ómar Ragnarsson, 14.6.2019 kl. 20:28
Ég átti árum saman bíl á Spáni og hef ekið þar mikið. Þótt mér falli ágætlega við Spánverja vil ég ekki mæla með umferðarmenningunni. Þótt Íslendingar gefi sjaldan stefnuljós eru þeir þó ljósárum á undan Spánverjum hvað það varðar, líka lögreglan. Eins og Íslendingar hirða þeir nánast ekkert um hraðatakmarkanir og aldrei nokkurn tíman hef ég séð bíl þ.á. m. lögreglubíla nema staðar við stöðvunarskyldumerki. Fleira mætti nefna.
Vilhjálmur Eyþórsson, 15.6.2019 kl. 16:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.