Óheppinn: Varð veikur of seint á árinu. Endalausar sögur.

Sífellt heyrast nýjar og nýjar sögur af göllum heilbrigðiskerfisins, biðlistunum sem kosta óþarfa þjáningar og ótímabæra dauðdaga og mismunun af ýmsu tagi. 

Vinur síðuhafa greindist með varasamt gáttaflökt og hefði undir venjulegum kringumstæðum farið strax í viðeigandi aðgerð eða meðferð. 

En hann var svo óheppinn, að hann veiktist að hausti til þannig að þegar hann hefði verið afgreiddur í október, var fjárveitingin til aðgerðanna búin það árið, og þeim, sem þurftu á meðferð að halda, var gert að bíða fram yfir áramót.

Sjúkdómur vinar míns fór hins vegar ekki eftir fjárveitingartímabilum, heldur fékk hann alvarlegt heilablóðfall utan fjárveitingartímans og mátti þakka fyrir að halda lífi. 

Þó ekki betur en svo að hann var milli heims og helju vikum saman og þurfti að fara í langa endurhæfingu á Grensásdeild. 

Þjáningarnar og erfiðleikarnir verða ekki metnar til fjár, en sparnaðurinn við að loka fjárveitingunum í október var ekki aðeins eyðilagður fyrir ríkiskassann, heldur varð beinn sjúkrakostnaður í þessu tilfelli að lokum margfalt meiri en nam hinum eftirsótta og algilda sparnaði. 

Mörgum hnykkti við að lesa harðorð blaðaskrif Kára Stefánssonar þennan vetur, þar sem hann minntist á gáttaflökt. Eins og svo oft vissi hann vel hvað hann var að skrifa um.  

Sögurnar skipta þúsundum og flestir hafa sögur að segja úr sínum næsta ranni.  

Ég átti einmitt spjall við ættingja í dag sem bíður á einum biðlistanum eftir aðgerð erlendis, sem er óhjákvæmileg og brýn, svo að helst má engan tíma missa, en með hverjum deginum og vikunni vex óvissan vegna þess að heilsunni hrakar í bið, sem ætti ekki að þurfa að eiga sér stað. 

Þjáningarnar fara vaxandi og tíminn týnist ekki eins og sungið er í texta Bjartmans, heldur ber þjáningatíminn óþyrmilega og miskunnarlaust að dyrum á hverjum degi, lengist og lengist og versnar og versnar.  

 

 

 

 


mbl.is Ríkisvæðingarstefna dauðans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og á meðan renna til sjávar milljarðar í óbeislaðri orku síðueigenda til mikillar gleði. Kallaði einhver það ekki skómigustefnu þegar menn í skammsýni berjast fyrir einhverju sem að lokum veldur skaða? Voru þjáningar og varanlegur líkamlegur skaði á vinum og ættingjum Ómars eitthvað sem hann vissi að hann væri að velja þegar hann setti fossa í forgang?

Vagn (IP-tala skráð) 16.6.2019 kl. 01:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband