24.6.2019 | 22:49
Túrbínutrixið frá 1970 endurtekið enn og aftur.
"Landeigendur hafa ekki veitt leyfi" - "ekkert samráð var haft við landeigendur" - eru kunnuglegar setningar, sem hljómuðu í fréttum af fyrirhugaðri stækkun Laxárvirkjunar 1970.
Þeir, sem ætluðu að keyra hinar miklu virkjanaframkvæmdir í gegn, komu því til leiðar að keyptar yrðu túrbínur fyrir hina komandi virkjun, þannig að landeigendum og öðrum, sem málið snerti, yrði stillt upp við vegg frammi fyrir gerðum hlut, og úthrópaðir sem skemmdarverkafólk sem hefði eyðilagt stórfellda fjármuni, sem búið væri að eyða til einskis, ef hætt yrði við framkvæmdir.
Þá, eins og nú, var um langtum stærri virkjun að ræða en upphaflega hafði verið ráðgerð.
Sigurður Gizurarson, verjandi andófsfólksins, sneri vörn í sókn með því að benda á, að þeir sem vaðið hefðu fram af offorsi í því að keyra málið áfram, ættu að bera ábyrgð á siðlitlum aðgerðum sínum.
Þeir, sem stóðu að túrbínutrixinu 1970 höfðu málsbætur varðandi það hve mjög rafmagnsskortur háði Akureyringum á tímum vaxandi iðnaðar þar.
Engar slíkar málsbætur eru nú, heldur blasir við, að eigendur HS orku keyra áfram nýjar virkjanaframkvæmdir um allt land til þess að reyna í örvæntingu að bjarga sér með nýjum virkjunum frá því hruni á orkunni í gufuaflsvirkjununum þeirra á Suðurnesjum, sem rányrkja orkunnar hefur valdið og gerir þeim æ erfiðara að uppfylla sölusamninga á orku til stóriðjunnar syðra.
Vestfirðingar munu því augljóslega ekki fá neitt rafmagn frá Hvalárvirkjun, heldur verða blekktir með gylliboðum, sem fráleitt verða efnd,, eins og kemur glögglega fram í góðri grein í Morgunblaðinu.
Landeigendur hafa ekki veitt leyfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Svo þarf að mata sæstrenginn. Meiri virkjanir þar væntanlega. Von að náttúruelskendur á vinstrikantinum séu áfjáðir í þennan orkupakka. Einhver tvöfeldni þar?
Jón Steinar Ragnarsson, 25.6.2019 kl. 19:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.