28.6.2019 | 17:48
Mikið að gerast í smíði rafhjóla.
Japanir hafa lengi verið í fremstu röð í framleiðslu bíla og vélhjóla, og má nefna Honda og Yamaha í tengslum við vönduðustu vélhjólin, en Kawasaki kemur einnig sterkt inn.
En nú má sjá, að tvær Asíuþjóðir, Kínverjar og Tævanir sækja mjög fram í framleiðslu hvers kyns farartækja, ekki síst rafknúinna farartækja, bæði bíla og vélhjóla.
Þetta sýnir gengi BYD í rafbílasölu, og einnig vekur athygli að Toyota, sem upp úr síðustu aldamótum var í forystu í framleiðslu tvinnbíla, kemst hvergi nærri á blað á lista um aðsópsmestu framleiðendur rafbíla.
Upp úr síðustu aldamótum var Toyota í fararbroddi í tvinnbílum en veðjaði þá á vetnið og leyfði keppinautum að bruna fram úr í rafbílasmíði.
Nú hefur Toyota sett fram metnaðarfulla áætlun um margföldun rafbílaframleiðslu sinnar, en á meðan er keyrt á ansi villandi auglýsingum um meinta yfirburði hybrid bíla.
Á meðan þetta er að gerast, er í gangi mikil framþróun í smíði rafknúinna vélhjóla þar sem Kínverjar og Tævanir leika stærstu hlutverkin.
Þessar framfarir hafa fram að þessu farið að mestu leyti fram hjá Íslendingum, sem virðast hafa undarlegan imugust á léttum vespulaga vélhjólum.
En það eru einmitt hjól með slíku lagi sem gefa mest af sér, sum allt að 300 kíló að þyngd með yfir 60 hestafla hreyfla og með svipaða eiginleika til ferðalaga á allt að 160 km hraða og bestu lúxusferðavélhjólin.
Á örfáum misserum eru rafhjól með útskiptanlegar rafhlöður að yfirtaka markaðinn erlendis.
Kínverjar og Tævanir eru í fararbroddi, en snjallir hönnuðir í Evrópu luma líka á merkilegum hjólum, svo sem BMW C-Evolution rafhjólið, sem er slíkt yfirburða hjól í "roller" (vespu) flokki, að þau tímamót urðu í fyrra, að þetta frábæra rafknúna hjól seldist betur en samsvarandi hjól BMW með bensínhreyfli.
Þetta 175 kílóa lúxushjól nær 130 km hraða, er með 48 hestafla rafhreyfli og uppgefna 100-160 km drægni.
Verðið myndi losa þrjár milljónir hjá okkur.
Ef hægt er að tala um Teslu í flokki rafhjóla, væri það þetta hjól eða þá rafhjólið Energica, sem er með allt að 145 hestafla rafmótor og nær allt að 240 km hraða!
Því er broslegt að heyra rafhjólið Super Soco auglýst sem Teslu rafhjólanna, með aðeins 45 km hraða og þrjú hestöfl.
En þetta er aðeins smávægileg yfirsjón í auglýsingu og aðalatriðið er það, að með því að bjóða þau þrjú rafhjól sem Nova gerir nú er að loksins farið að huga að almennilegri rafhjólavæðingu hér á landi, og eiga þeir, sem að þessu standa, heiður skilinn.
Gallinn við rafhjólin almennt er hve dýr þau eru, eins og sést á verðinu á BMW rafhjólinu.
Hingað til lands hafa aðeins verið fluttar hægfara og skammdrægar léttvespur og 50cc skellinöðrur (knallerter á dönsku) upprunnar í Kína, og hafa Suzuki umboðið og Nitro (Kawasaki/Znen) staðið að mestu að því.
Skort hefur á aðeins öflugri hjól á íslenska markaðnum, og er vonandi að birta til í þeim efnum.
Kínversku hjólin, sem NOVA býður, eru með 45 km hámarkshraða, en það er yfirleitt nóg í þéttbýlisumferð hér.
Aflið, um 2,4 kílóvött, er margfalt meira en i litlu vespunum og rafhlöðurnar eru um 3 kílóvattsstundir samtals, sem er líka ávísun á margfalt meiri drægni.
Talan 160 km er há og óraunhæf,, en jafnvel þótt drægnin sé aðeins 60-80 km er það stórmunur miðað við litlu vespurnar.
Í Danmörku er hægt að fá aðeins stærri rafvespu af gerðinni VGA Vax, sem myndi líklega kosta á þriðja hundrað þúsund kall hér á landi og komast á 45 km hraða.
En í boði er sægur af rafhjólum af öllum stærðum og gerðum, sem myndu eiga erindi hjá okkur.
Ég bíð spenntur eftir því að einhver flytji inn rafhjól af gerðunum NIU N-GT, Unu og Kumpan, sem geta náð þetta 70- 100 km hraða og eru öll með útskiptanlegum rafhlöðum.
Kínverjar leika stórt hlutverk í smíði NIU N-GT og Unu.
Og afar athyglisverð er rafhjólabylting kennd við hjólið Gogoro, hefur þegar orðið á Tævan, þar sem er komið kerfi af 757 rafhlöðuskiptistöðvum og tekur aðeins sex sekúndur að skipta út tómum rafhlöðum fyrir hlaðnar á þessum skiptistöðvum, sem eru á höfðuborgarsvæði Tæpei borgarinnar.
Rafknúin vélhjól hafa fjölmarga kosti fram yfir rafbíla, en einn ókostur þeirra er þó fjötur um fót ef fara á eitthvað lengra en í styttri ferðir.
Það er sá ókostur, að vegna smæðar þeirra, miðað við bíla, skortir bæði á drægni og á möguleika til hraðhleðslu.
Í þeirri samgöngutækjabyltingu sem síðuhöfundur hefur verið að rannsaka og framkvæma undanfarin fimm ár og er fær fyrir allan þorra fólks, er eina leiðin til að fara í ódýrar langferðir "litla mannsins" með stórfelldlri lækkun kolefnisspors, að nota bensínknúið vélhjól með vélarstærð á bilinu 110cc til 200 cc.
2015 hófst yfirlætislítil breyting á samgöngumáta hér á landi með sölu rafreiðhjóla og lítilla "vespu"laga rafhjóla með 25 km/klst hámarkshraða auk sölu 50cc bensínknúinna vespuhjóla í sama flokki.
En í könnun á möguleikunum í stærri hjólum 2016, var eina hjólið, sem fannst á lager hér á landi, Honda PCX 125cc hjá Bernhard, og var það tekið í þetta verkefni, en rafreiðhjólið Náttfari í snatt innanbæjar.
Frá nóvember 2017 bættist við smárafbíllinn Tazzari, umhverfismildasti og langódýrasti rafbíll landsins og bjó til blöndu þriggja ódýrra og vistmildra farartækja.
Þegar rætt er um vélhjól, ber flestum saman um það, að ekki sé gott að nota hjól, sem aðeins ná 45 km hraða, í þjóðvegaferðum.
Bæði taka ferðirnar full langan tíma, og síðan er það ekki síður galli, að svo hægfara hjól geta skapað aukin vandræði og hættu þegar þau eru innan um mun hraðari umferð.
Þar með var sett viðmiðið "þjóðvegatækt" vélhjól, sem hefði sama hámarkshraða og flutningabílar.
Sparneytnustu og ódýrustu hjólin með þessum hámarkshraða eru um 100 kíló á þyngd, í flokki, sem má kenna við 110 cc, svo sem Honda Vision, Suzuki Address og Yamaha Delight. Þau eru með ca 8-9 hestöfl loftkældra hreyfla, eyðslu um eða rétt undir 2 lítra á hundraðið og hámarkshraða á milli 80 og 95 km/klst.
Flokki ofar í þyngd, stærð og verði eru hjól með vatnskælda hreyfla á borð við Honda PCX 125cc, Honda SH 125 og 150 cc, Yamaha NMax 125 og 155 cc og Vespa eða Piaggio af svipaðri þyngd og stærð; í kringum 130 kíló að þyngd og með 12-15 hestafla hreyfla.
En þegar ég ákvað að hagræða í þessum málum og skipta niður í ódýrasta flokk þjóðvegatækra vélhjóla, ( sem ná 80 km trukkahraða ) var Znen Fantasy f 11 125cc eina hjólið, sem var til á lager, hjá Nitro vélhjólasölunni.
Það er kínverskt, og Znen er stærsti vélhjólaframleiðandi í Kína að eigin sögn. Znen f 11 er með 7,5 hestafla hreyfli og 80 km/klst hámarkshraða en nýjasta Honda PCX 125 cc er með 12,2 hestöfl og 95 km/klst hámarkshraða.
Hondan væri næstum tvöfalt dýrari ný en Znen hjólið og ég sakna Léttis auðvitað.
En Léttfeti, eins og minna hjólið á að heita, lofar góðu, það litla sem það hefur verið.
Öll ofannefndu hjólin í 110 cc og 125 cc stærðinni falla inn í flokk sem stundum er kenndur við A1 léttvélhjólaskírteini.
A1 takmarkið er: Ekki stærri hreyfill en 125 cc. Ekki fleiri hestöfl en 15. Í praxis þýðir það að hámarkshraðinn er varla meiri en 105 km/klst, sem er auðvitað langt fyrir neðan það sem fæst á stærri hjólum.
Nú er að sjá hvernig þessi breytta tilhögun kemur út.
BYD á toppinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Um miðja síðustu öld voru Vespur og "rollerar" mjög vinsæl farartæki í Evrópu.
Um uppruna þeirra heyrði ég sagt að eftir stríðið hafi eitthvert fyrirtæki á Ítalíu setið uppi með mikið magn af lendingarhjólum fyrir herflugvélar. Hafi þá einhver fengið þá góðu hugmynd að nýta þessi hjól á farartæki og þar með hafi Vespan orðið til.
Það má segja að Vespan hafi slegið í gegn og fljótlega var farið að framleiða fleiri tegundir af slíkum vélhjólum, sem voru kölluð rollerar.
Einnig voru margs konar lítil farartæki, með þremur eða fjórum hjólum af þessari gerð, algeng á götum evrópskra borga.
Farartæki þessi voru með tvígengisvélar, þar sem olíu var blandað saman við bensínið, þótti ekki alltaf vinsælt að hafa þau fyrir framan sig í umferðinni.
Trabantinn, sem var með slíka vél, mun vera eini bíllinn sem sagður var geta sagt nafnið sitt.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 28.6.2019 kl. 21:30
Er ekki eitthvað skrítið með hámarkshraðann á þessum hjólum, Ac 50 Suzuki 74 model komst í 90 km/klst á malavegi og með stærra tannhjóli að aftan var hægt að auka hraðann á kostnað snerpu og krafts á móti vindi, Honda XL 250 '75 komst í 140 km/klst eins var hægt að stækka tannhjólið fyrir meiri hraða.
Er ekki einhverjar ESS reglugerðir sem takmarka hámarkshraða á þessum hjólum í undir 50cc og svo undir 125CC flokknum
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 29.6.2019 kl. 09:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.