Einn bauð ljósastaur far. Annar ók upp eftir hnakkagróf konu.

Ofsjónir og eins konar standandi svefn geta verið afleiðingar mikillar og erfiðrar vöku, og meira en tveggja sólarhringa topp álag á líkama og sál því valdið óhöppum og slysum. 

Vaknar þá spurningin um skylduhvíld í keppni eins og löngum hjólreiðum. 

Seint á níunda áratug síðustu aldar snarfjölgaði banaslysum í WRC, Heimsmeistarkeppninni í ralli. 

Svo alvarlegt varð ástandið að farið var í viðamikla rannsókn á orsökum þessa, því að svona ástand væri ekki boðlegt. 

Gripið var til tiltölulega einfaldra aðgerða. Sett var þak á hestaflatölu og svonefndur Grúppu B-flokkur, úrvalsflokkur, afnuminn.  

Sett var hámark lengdar sérleiða. 

Þetta dugði og ástandið varð svipað og það hafði verið áður. 

Hér heima á Íslandi mátti þakka fyrir að slysatíðnin jókst ekki á þessum árum. 

Gott dæmi um það hve litlu munaði, voru atvik í löngu ralli 1979. 

Farið var af stað frá Húsavík klukkan sex að morgni, rallað á sérleiðum út fyrir Tjörnes og alla leið að norðan suður um Sprengisand, Fjallabaksleið nyrðri, Meðalland til Klausturs, þaðan til baka um Hrísnes og vestur um Hvolsvöll, áfram norður um Gunnarsholt, Þjórsárdal og Yrjarheiði allt til Laugarvatns og komið þangað eftir meira en sólarhrings hasar á sérleiðum, þar sem einbeiting varð að vera 100 próeent stanslaust á sérleiðunu og möguleiki á að fara út af í þúsundum af beygjum. 

Eftir keppnina sagði Hafsteinn Hauksson frá því að hann hefði lent útaf sjö sinnum á Gunnarsholtsleið, og á löngu tímabili um nóttina fengu hann og fleiri undanþágu hjá hliðvörðum sérleiða til að leggja sig og dotta í 5-15 mínútur. 

Við Jón vorum með rásnúmer eitt og tókst með miklum herkjum að halda okkar striki, en fyrir bragðið héldum við síðustu klukkustundirnar, að við værum orðnir einir eftir í keppninni. 

Einn keppandi sagði frá því að hann hefði stoppað við ljósastaur á ferjuleiðinni að Laugarvatni og boðið honum far! 

Annar sagðist á tímabili hafa haldið að hann væri á beinum kafla um hánóttina að keyra upp upplýstan nnakka á konu, sem hefði skipt svörtu hárinu í miðju!  

Þegar síðuhafi fór hringinn á vélhjóli í ágúst 2016 var freistandi að gera það á innan við sólarhring. 

En til þess að gera ferðina sem öruggasta og skynsamlegasta var stoppað í þrjá tíma á Akureyri og sex tíma á Egilsstöðum. 

Það fyrirkomulag vék líka til hliðar hugsanlegri gagnrýni á áhættuspil  og skort á öryggishugsun. 


mbl.is „Ísland gefur og Ísland tekur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband