28.6.2019 | 01:10
Þarf að veðja á réttan hest núna eða aldrei.
Sú staðreynd, að hinar "rómuðu þotur" Boeing 757 eru ekki framleiddar lengur og seldust alls ekki í þeim mæli, sem Boeing verksmiðjurnar vonuðu og stefndu að, er erfið fyrir Icelandair að horfast í augu við, en engin leið að komast fram hjá henni.
Einn af stærstu kostum 757, vængirnir, eru um 50% stærri að flatarmáli en vængirnir á Boeing 737 og Airbus 320, og þessi frábæri vængur gefur vélinni aukinn sveigjaleika í burði, brautargetu og nýtingu.
En hins vegar er megin viðfangsefni flugfélaga heimsins nú að hámarka eldsneytisnýtingu, og þá verður vængur 757 að ókosti, því að að meðaltali skapa vængir flugvéla um 40 prósent af loftmótstöðu þeirra og að öðru jöfnu eru því vængir því óhagkvæmari að þessu leyti sem þeir eru stærri.
Líklegasta niðurstaðan hjá Icelandair er því sú óhjákvæmilega niðurstaða, úr því að hvort eð er þarf að fara þá erfiðu leið að skipta út stórum hluta flotans, að það verði skást að skipta flotanum alveg út og losna við það óhagræði í rekstri viðhalds og áhafna að vera með of blandaðan flota.
Félagið stendur því á óvenju mikilvægum tímamótum einmitt núna og getur ekki dregið að taka djarfa ákvörðun.
Gætu skipt út öllum flotanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.