2.7.2019 | 00:12
Misjafnir sauðir í fjölgandi fé.
Með smá breytingu á gamla máltækinu "misjafn sauður í mörgu fé" má breyta því í "misjafnir sauðir í fjölgandi fé", því að hluti af orsökum vaxandi umhverfisspjalla af völdum umferðar torfæruhjóla og bíla í viðkvæmri náttúru landsins kann að vera mikil fjölgun iðkenda.
Fyrir nokkrum árum fórum við Andrés Arnalds á fund áhugafólks um torfæruhjól og brá í brún við að heyra í sumum þeirra sem þar töluðu fyrir algeru frelsi á slíkum hjólum og töldu meira að segja að slíkum hjólum ætti að fá að beita á öllum kinda- og gönguslóðum landsins.
Það er enginn smávegis vegalengd, sem um er að ræða, því að aðeins merktar jeppaslóðir landsins eru að minnsta kosti meira en 20 þúsund kílómetrar samtals að lengd.
Sem dæmi um allt önnur viðhorf erlendis, má nefna, að í nágrenni Moab í Utah-ríki í Bandaríkjunum er helsti jeppa- og torfæruhjólaþjóðgarður Bandaríkjanna með alls 1600 kílómetra löngum merktum slóðum.
Í akstri um þennan þjóðgarð var hvergi að sjá að nokkurs staðar hefði verið farið út fyrir þessa slóða, enda stranglega bannað.
Umgengnin var svipuð í þessum þjóðgarði og á milljón manna bandarískum útivistarhátíðum á borð við flugsýningarnar í Oshkosh og Sun´n fun þar sem alla sýningardaga sést ekki eitt einasta sælgætisbréf eða sígarettustubbur.
Á fundinum um torfæruhjólin hér um árið barst talið að fornum göngustígum á milli byggða á Suðurnesjum, svo sem Árnastíg, sem liggur til norðvestur frá Grindavík.
Talsmenn óhefts frelsis til spóls torfæruhjóla töldu að Árnastígur væri gott dæmi um slóða sem sjálfsagt væri að hjólamenn þeystu um í hópum, af því að leiðin lægi að miklu leyti á hraunklöpp.
Þegar þeim var bent á, að gildi slóðans fælist helst í því að göngufólk gengi hann í rólegheitum og kyrrð og teygaði andrúmsloft genginna kynslóða, sem þar var á ferð forðum daga, og að slík stemmning yrði eyðilögð með freti hóps manna á vélknúnum torfæruhjólum, var greinilegt, að það breytti sýn sumra þeirra á málið.
Það er vafalaust rétt hjá talsmönnum áhugamanna um þessi mál núna, að hugarfarsbreyting hafi orðið hjá mörgum síðan við Andrés urðum hugsi á fundinum um árið.
Á hinn bóginn fer hjólunum svo mjög fjölgandi, að það er hætta á því að með því komi lítt þenkjandi fólk inn í raðir þessa fólks, sem valdi nýjum tegundum af spjöllum.
Reið og hissa á umgengni í Sveinsgili | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Og hjólreiðamenn eru jafnvel verri en þeir sem aka um á vélknúnum torfæruhjólum, en greinin sem þú tengir við er einmitt um hvað Íslenska fjallahjólabandalagið segir um skemmdir vegna hjólreiðamanna.
Vagn (IP-tala skráð) 2.7.2019 kl. 03:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.