Vantaði mælingu á áfengismagni við höfnina í den?

Síðuhafi kann sanna sögu úr akkorðsakstri vörubílstjóra frá Reykjavíkurhöfn til Keflavíkurflugvallar á stríðsárunum. Þetta var erfiður akstur, malarvegur alla leið og hlykkjaðist vegurinn um Vatnsleysuströnd á leiðinni.  

Vörubílarnir voru í biðröð við flutningaskipið á Ægisgarði og var híft yfir á þá með krana.

Stundum þurftu menn að bíða svolítinn tíma eftir því að komast að.  

Þegar búið var að fylla hvern bíl, var flautað eða að maður á kajanum bankaði í frambretti bílsins.  

Einn af þeim bílstjórum á þessum árum, sem átti til að detta hressilega í það, sat í bílnum undir krananum og beið eftir því að búið væri að fylla pallinn. 

Þegar það var loks búið var bæði flautað og bankað í brettið, en bílstjórinn haggaðist ekki þar sem hann sat eins og dottandi undir stýrinu. 

Aftur var flautað og bankað án árangurs, og þegar maðurinn tók ekki við sér vatt maðurinn á kajanum sér að bílnum og opnaði bílstjóradyrnar. 

Brá þá svo við að bílstjórinn féll fram fyrir sig á ská, svo að hann stefndi út um dyrnar. 

Hafnarverkamaðurinn varnaði bílstjóranum fallinu og reisti hann upp, en sá þá að bílstjórinn var augafullur og rorraði fram og aftur og út á hlið útúrdrukkinn við stýrið. 

"Allt í lagi,"drafaði hann, startaði bílnum og rak hann í gír. 

Eftirfarandi orðaskipti urðu þá:   

 

"Ætlarðu virkilega að keyra bílinn svona á þig kominn?"

"Já, auðvitað, ekkert mál." 

"Og hvernig heldurðu að þú komist til Keflavíkur blindfullur?"

"Það er enginn vandi, hikk! Ég fylgi bara ströndinni."  

 

Ekki fylgdi sögunni hvort ferðin var farin, en gaman hefði verið að vita hvert áfengismagnið var. 

Miðað við ýmsar aðrar sögur af þessum mikla þoldrykkjumanni hefur það kannski verið hærra en 4,31. 

 


mbl.is Aldrei séð aðrar eins tölur á mælinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband