Forstjóri Öskju sammála forstjóra O.N: Rafbílar ekki vandamál.

Ein af mótbárunum gegn rafvæðingu bílaflota landsmanna hefur verið sú að hún muni útheimta svo mikla raforku, að raforkukerfi landsmanna ráðí ekki við þá eftirspurn, sem myndast muni. 

Með þessu er rafbíllinn gerður að eins konar vandamáli og óvini rafmagns númer eitt á Íslandi. 

En þaö er fjarri lagi. 

Bæði Bjarni Bjarnason forstjóri Orku náttúrunnar og Jón Trausti Ólafsson forstjóri Öskju hafa andæft þessum úrtöluröddum með gildum rökum. 

Má þar benda á, að hleðsla rafbílanna fer að mestu fram að nóttu til þegar álag íslenskra heimila og fyrirtækja á raforkukerfið er minnst. RAF í hleðslu

Raunverulegt dæmi má nefna í þessu sambandi upp úr gögnum um einn af þeim rafbílum, sem minnsta orku þarf. 

Hann tekur 1,1 - 1,7 kwst til sín í heimilishleðslu úr venjulegu 220 volta úttaki með 16 ampera öryggi, sem er álíka mikið og 5 til 8 ljósaperur þurfa. Og hleðslutíminn er 9 klukkustundir. 

Meðal akstur bíla er um 30-40 km á dag, og þessi orka 5-8 ljósapera yfir eina nótt endist því í þrjá daga. 

Raforkunotkun þessa bíls samsvarar því að þrjár 200 vatta ljósaperur væru í notkun allan sólarhringinn.

Það má líklega tvöfalda þessa tölu varðandi rafbíl af meðalstærð, en tölurnar eru raunhæfar miðað við almenn gögn sem sjá má í yfirlitsritum yfir bíla og sýna hve ótrúlega litla íslenska orku þarf.  

Allur áróðurinn fyrir stanslausum virkjunum beinist að því að leyna þeirri staðreynd, að stóriðjan og hin rómaði "orkufreki iðnaður" í erlendri eigu taka til sín 83 prósent af raforkuframleiðslu landsins, en íslensk heimili og fyrirtæki aðeins 17 prósent, eða einn sjötta.  Raforkunotkun rafbílaflotans myndi aðeins taka brot af þeim 17 prósentum sem íslenskum heimilum og fyrirtækjum er skammtað úr hnefa. 

Forstjóri Landsvirkjunar segir nú i viðtali að nýjustu virkjanir fyrirtækisins á Þeystareykjum og við Búrfell séu reistar til þess að anna vaxandi rafmagnsnotkun gagnavera.  

 


mbl.is Nægt rafmagn fyrir rafbílaflotann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þegar eftirspurn eykst er eðillegt að verðið hækki. Orkuverð til stóriðju er afar lágt hérlendis, þótt það hafi heldur skánað á undanförnum árum, gjarna undir raunverulegu kostnaðarverði.

Hvað er þá eðlilegt að láti undan þegar eftirspurn eftir orku eykst? Er ekki eðlilegt að þeir sem minnsta greiðslugetu hafa hætti að kaupa vöruna?

Þorsteinn Siglaugsson, 13.7.2019 kl. 11:05

2 identicon

Það er mikil blekking að halda að rafvæðing bílaflotans, óbreytt bílanotkun og engar virkjanir myndi ganga upp.   Hleðsla að nóttu til myndi bjarga einhverju,   en það myndi á engan hátt duga.   En ef allur bílafloti Íslendinga væri rafvæddur og óbreytt notkun myndi það krefjast verulegs afls til viðbótar.  Ef tekin er saman orkunotkun á bílaflotann og orkunni dreift jafnt á árið þýddi það eitthvað í kring um 150 MW afl.  En það gengi auðvitað aldrei upp.  Sama hvað forstjórar segja.   

Fólksbílar nota um það bil 60% af allri orku sem bílaflotinn notar.  Þar er áreiðanlega hægt að draga úr.  Það er erfiðara með atvinnubíla,  en sjálfsagt er hægt að hagræða þar eitthvað. 

Við verðum þess vegna að horfast í augu við það að við þurfum að draga úr notkun á einkabílum en jafnframt þurfum við að bæta við afl raforkukerfisins til að geta rafvætt bílaflotann.  

Og besta og einfaldasta lausnin er vissulega að auka notkun á almenningssamgöngum.   Það er líka fljótlegasta, einfaldasta og ódýrasta ráðstöfunin til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í dag. 

Steinar Frímannsson (IP-tala skráð) 13.7.2019 kl. 13:26

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er næg orka fyrir hendi. En 83% hennar eru nú seld undir kostnaðarverði til stóriðjufyrirtækja og gagnavera. Lausnin er að segja upp óhagstæðum samningum, gera ekki nýja slíka samninga og nýta orkuna fremur til rafvæðingar bílaflotans. Það er ekki aðeins gott fyrir umhverfið heldur ekki síður fyrir gjaldeyrisjöfnuðinn.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.7.2019 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband