1.8.2019 | 12:17
Tollmúrar og höft eru oftast til hins verra.
Í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar gripu ríki heims til þess ráðs, að reisa tollmúra og setja á innnflutningshöft í stórum stíl.
Í fljótu bragði virtist þetta vera heillaráð hjá hverju og einu ríki. Með þessum múrum var samkeppnisaðstaða innfluttra vara skert og innlend framleiðsla styrkt.
Fyrirbrigðið var gamalt frá fyrri öldum og nefnt búauðgisstefna á íslensku.
Á Íslandi reis upp undra fjölbreyttur iðnaður sem á yfirborðinu virtist skapa þúsundir starfa.
En ef farið var nánar í saumana á málum, kom í ljós, að hin innlenda framleiðsla, þótt góð væri, leið fyrir smæð hins örsmáa markaðar.
Handsmíðaðar iðnaðarvörur voru augljóslega framleiddar á miklu óhagkvæmari hátt en fjöldaframleiddar vörur á færiböndum í öðrum löndum.
Eftir stríð voru höftin við lýði í rúman áratug, en í ljósi reynslunnar fyrir stríð, hófst aflétting hafta og vaxandi alþjóðasamvinna og verkastipting, þar sem sem frjálsust samkeppni tryggði lægsta verð hverrar vöru.
Þegar Trump tók við völdum gaf henn þegar miklar yfirlýsingar um að setja á ýmis höft í innflutningi til þess að "gera Bandaríkin mikil á ný.
Má þar nefna að útrýma evrópskum bílum vestra, hætta að flytja inn olíu frá Mexíkó, setja refsitolla á kínverskar vörur og kanadískar flugvélar í flokki smærri farþegaþotna.
Þetta síðasta er svolítið skondið, því að kjöroðið "make America great again" virtist þar með ekki gilda um Kanada.
Trump gaf yfirlýsinguna um Benz, BMW aðra evrópska bíla, í þeim hluta Bandaríkjanna þar sem eru stórar verksmiðjur Benz og BMW, og gleymdi að taka það með í reikninginn, varðandi olíuna frá Mexíkó, að stöðvun innflutnings gæti skaðað Bandaríkin vegna hækkaðs olíuverðs.
Nú segir Gary Cohn, fyrrverandi efnahagsráðgjafi Trumps, að viðskiptastríðið við Kína hafi verri áhrif á efnahag Bandaríkjanna en Kína, og í því felst, að viðskiptastríð í formi tolla og innflutningshafta sé engu betra nú en það var í kreppunni miklu og fyrstu árin eftir stríð.
Hefur meiri áhrif á Bandaríkin en Kína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.