Hvað um raftítlurnar? Hvert hjól getur skapað rými fyrir einn bíl.

Í ýmsum borgum í Evrópu, svo sem í Brussel, má sjá rafknúin hlaupahjól, sem kalla mætti raftítlur á víð og dreif og einnig fólk sem ferðast á slíkum farkostum og notfærir sér það að geta leigt sér slík farartæki. Náttfari, Léttir og RAF

Reiðhjól, rafreiðhjól, rafhjól og vespuhjól geta verið af mörgum mismunandi gerðum og tekið heilmikinn farangur ef því er að skipta. 

Sá, sem ferðast á slíku hjóli, ætti að vera vel séður af einkabílaunnendum, því að ef hann væri ekki á hjólinu, væri hann á bíl, en afsalar sér því rými á götunum til annars bíleiganda. 

En í staðinn fyrir að líta það með velþóknun að sá á hjólinu liðki fyrir bílaumferðinni er furðu algengt að bílaeigendur líti hina hjólandi hornauga og finni þeim flest til foráttu.  

 


mbl.is Deilireiðhjól á 41 stað í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Taki einn bíll tillit til hjólreiðamanns og hægi á sér þá hægir sá næsti aðeins meira og svo koll af kolli þar til umferðin stöðvast. Þá skapast þekkt fyrirbæri sem er eins konar bylgja stöðvaðra ökutækja sem færist hægt aftur eftir allri röðinni. Einn hjólreiðamaður sem þarf smá tillitssemi getur því auðveldlega kostað meiri tafir á umferð en þó tugum bíla væri bætt í röðina.

Það er ekki gefið að hjólreiðamaður sé að taka einn bíl úr umferð. Hann gæti eins verið að losa eitt sæti í strætó, pláss á gangstétt eða rými í sófa. Hann gæti vel verið tilgangslaus uppspretta álags, pirrings og tafa í umferðinni. Kind sem röltir eftir Miklubrautinni er ekki að gefa eftir pláss sem annars væri upptekið af gripaflutningavagni.

Vagn (IP-tala skráð) 11.9.2019 kl. 01:36

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vagn hefur greinilega aldrei komið til borga í Evrópu þar sem létt vespuhjól streyma í gegnum langar umferðarteppur á álagstímum og tefja ekki nokkurn mann, því að ökumenn einkabílanna sjá alveg um það sjálfir. 

Ómar Ragnarsson, 11.9.2019 kl. 10:06

3 Smámynd: Jón Ragnarsson

Ég sé slatta af þessu hérna á Stavanger-svæðinu. Örugglega mjög þægilegt að kippa þessu með í strætó.

En norðmenn eru nú reyndar ansi framarlega í rafvæðingu. Bróðurparturinn af bílum hérna eru Teslur, Nissan Leaf og Kia Soul Electric.

Það er meira að segja slatti Renault Twizy hérna, 1-manns "bíl".

Jón Ragnarsson, 11.9.2019 kl. 10:23

4 identicon

Þó hægt sé að sjá létt vespuhjól streyma í gegnum langar umferðarteppur á álagstímum þá þýðir það ekki að þær séu ekki að tefja umferð bíla. Þvert á móti virðist sú hæging á umferð bíla sem vespuhjólin óneitanlega kalla á vera liður í ef ekki orsök umferðarteppunnar. Að kenna ökumönnum einkabíla um þá umferðarteppu sem verður þegar þeir verða að hægja á umferð til að sýna hjólamönnum tillitssemi er rökvilla í anda pólitískrar rétthugsunar og lýðskrums.

Vagn (IP-tala skráð) 11.9.2019 kl. 12:25

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vagn (/Hilmar?/Hábeinn?) virðist vera einstaklega staðfastur í að hlýða þeirri mikilvægu og meira en áratugs gömlu köllun sinni, helst daglega,  að stimpla allt sem síðuhafi skrifar á síðu sína sem "lygar og rangfærslur" og seilist ansi langt núna við það að koma því á síðuhafa að hann sé sem maður á hjóli einn þeirra sem mestum töfum valdi í bílaumferðinni, en að ef hann væri á bíl, myndi það vera miklu betra fyrir umferðarteppurnar. 

Það er alveg á skjön við rúmlega þriggja ára reynslu mína á hjóli í umferðinni að með því að hægja örlítið á hjólinu geti ég orsakað algera stöðvun umferðar og heillanga umferðarteppu. 

Greinilegt er að Vagn gæti skapað miklar framfarir í umferð borga heims með því að predika hina gagnmerku skoðun sína fyrir umferðarsérfræðingum og skipuleggjendum umferðarmála.  

Ómar Ragnarsson, 11.9.2019 kl. 15:52

6 identicon

Það sem ég bendi á er keðjuverkun sem er vel þekkt hjá umferðarsérfræðingum og er vegna þess að bílstjórar eru einstaklingar sem ekki bregðast allir við á sama augnablikinu. Jafnvel við bestu aðstæður á ljósum nást ekki hámarks afköst þeirra vegna þess að röðin fer ekki öll jafnt af stað. Þínar hugmyndir byggja á því að allir bregðist jafnt við á sama augnablikinu, að bílstjórar hagi sér sem einn maður, grænt ljós og allir fara af stað, köttur yfir götu og röðin frá Miklubraut til Hafnarfjarðar bremsar eitt augnablik. Að umferðarteppa verði bara á sama punkti og truflunin verður og því sjái hjólamenn þegar þeir orsaka umferðarteppu. Nokkuð sem hægt er að ímynda sér en skeður ekki í raunheimum. Í raunheimum getur smá truflun á einum stað stöðvað alla umferð í kílómetra fjarlægð.

Þú kannast sjálfur við þetta þó þú hafir ekki gert þér grein fyrir ástæðunni. Hversu oft hefur þú ekki verið bílstjóri í umferð sem skyndilega hægist á og jafnvel stoppar. Þú hefur haldið að slys eða árekstur hafi orðið. Síðan auka bílarnir fyrir framan þig ferðina og hvergi er lögreglu, sjúkrabíl eða neitt það sem útskýrt getur töfina að sjá. Og þá eru samt enn bílar að stöðvast eða hægja á sér og bætast aftast í röðina langt fyrir aftan þig. Keðjuverkunin heldur áfram þú þú komist af stað og orsakavaldurinn gerir sér enga grein fyrir því hvað truflunin hefur kostað.

  Google: phantom traffic jam

Vagn (IP-tala skráð) 11.9.2019 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband