22.9.2019 | 19:25
Sérstöðu Defenders breytt.
Síðustu árin hefur torfærubílum, sem fallið hafa undir skilgreiningu orðsins jeppi, fækkað jafnt og þétt. Upphaflegu brautryðjendurnir, Willysjepparnir, líka Wagoneer, Landrover, Rússajepparnir, International Scout, Ford Bronco, Range Rover, Chevrolet Blazer, Dodge Ramcharger, Mercedes Benz G, Suzuki Jimny Fox og Samurai og Toyota Landcruiser og Hilux s. frv. voru allir með heilar hásingar að framan og aftan.
Helsti kostur þess fyrirkomulags er örugg veghæð og styrkur og mikil slaglengd fjöðrunar en ókosturinn þyngri og stirðari fjöðrunarbúnaður og lakari fjöðrun í hröðum akstri, jafnvel þótt gormar séu notaðir.
Fyrsti "crossover" heilsoðni jeppinn með sjálfstæðri fjöðrun að framan var Lada Niva (Sport) 1976, en á næstu árum á éftir birtist "crossover" jepplingurinn AMC Eagle og í kjölfarið litli Cherokkee, sem var með heilsoðna byggingu og tvær hásingar, og hinir japönsku Suzuki Vitara og Daihtsu Feroza, með sjálfstæða fjöðrun að framan.
Og það var byrjað að seta sjálfstæða fjöðrun að framan á jeppa eins og Mitsubishi Pajero og Toyota Hilux og 4 Runner, þannig að nú fór jeppum með gamla laginu og tveimur heilum hásingum fækkandi.
RAV 4 með heilsoðna byggingu og sjálfstæða fjöðrun að aftan og framan kom fram upp úr 1990 og þessi jepplingur hratt af stað bylgju jepplinga að þessari gerð.
Brátt féllu Toyota Landcruiser og síðar Hilux úr hópi tveggja heilla hásinga jeppa og fyrir nokkrum árum fór Mercedes Benz líka úr þeim hópi.
Þar með stóðu í meginatriðum aðeins þrír jeppar eftir með tvær hásingar á vesturlöndum, Land Rover Defender, Jeep Wrangler og Suzuki Jimny.
En með tilkomu algerlega nýs Defenders nú er saga hins gamla gersamlega á enda hvað snertir alla gerð og aðeins Jimny og Wrangler sitja eftir með gamla lagið.
Hinn nýi Defender er með sjálfberandi byggingu sjálfstæða fjöðrun að framan og aftan og er einfaldlega allt annar bíll en sá gamli.
Í staðinn hefur Land Rover Discovery verið þróaður til hins ítrasta til að verða sem öflugastur torfærubíll, og er nú kominn aftur til leiks svo gerbreyttur, að það markar ákveðin þáttaskil í því að samræma torfærugetu og þægindi.
Aðal keppinautar hans nú hvað stærð snertir eru Jeep Wrangler, Mercedes Benz G og Toyota Landcruiser; þeir tveir síðastnefndu með heilar hásingar að framan.
Wranglerinn er þeirra léttastur og býður upp á mestu torfærueiginleikana í gegnum breytingar.
En ekki má gleyma því að Suzuki Jimny er líka með tvær heilar hásingar og möguleika fyrir þá efnaminni, sem vilja ekta jeppa af gömlu, þrautreyndu gerðinni.
Nýr Defender fram á sjónarsviðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Indverjar framleiða Mahindra jeppa sem eru ekki ósvipaðir gamla Land Rover. Skrönglaðist einu sinni í svona farartæki einhverja tugi kílómetra á einhverjum óvegum í Goa héraði og það gekk bara ansi vel. Bílstjórinn sagði að þetta væru einhverjir bestu jeppar í heimi. Og skítódýrir þess utan.
Þorsteinn Siglaugsson, 22.9.2019 kl. 22:01
Já, þeir hafa framleitt jeppa með gamla laginu í meira en hálfa öld og framleiða líka góð ferða- og fjallahjól.
Og það eru Indverjar sem standa að framleiðslu Landrover.
Ómar Ragnarsson, 23.9.2019 kl. 09:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.