Jeppar "landbúnaðartæki". Lítill rafbíll "þungt fjórhjól."

Skilgreining á samgöngutækjum hefur lengi verið álitamál á Íslandi. Í stríðslok 1946 olli tilvist aflúttaks á Willys jeppanum því, að allir jeppar voru skilgreindir sem landbúnaðartæki og fengu því miklar ívilnanir í álagningu tolla og skatta.sem áttu að duga vel fyrir bændur. Willys´46

En þetta olli því að þessi "landbúnaðartæki" urðu á tímabili fleiri en allir aðrir fólksbílar samanlagt, og eins og kemur vel fram í ævisögu Steingríms Hermannssonar, varð til ákveðinn markaður á miklu haftatímabili þessara ára fyrir einstaka bændur, sem fengu leyfi, til að selja þau til fólks á mölinni.  

Sett voru takmörk sem miðuðust við Willys og síðar Rússajeppa, minna en 2,40 metrar á milli öxla. 

En menn fóru í kringum þetta með því að lengja bílana eftir að þeir voru komnir hingað, og var stundaður talsverður iðnaður í kringum jeppabreytingar langt fram eftir öldinni. 

Var með ólíkindum hve langt var hægt að ganga í því að setja ofan á þessa smábíla stórar yfirbyggingar. 

En þeir komu bara landsins sem blæjubílar, svo að það var nauðsynlegt að smíða á þá almennileg hús sem hentuðu íslensku aðstæðum. GAZ 66 árgerð 1966

International Scout, afar hentugur jeppi, kom á sjónarsviðið 1960, en var því miður 2,54 á milli öxla og fékk því aldrei verðskuldaðan framgang!

Vegna þessarar lengdar milli öxla var hann með ágætist þjóðvegaeiginleika og rými, og þurfti hvorki að smíða yfir hann hús eða breyta honum neitt, því að hann var hægt að fá frá verksmiðju með nothæfu heilu málmhúsi. 

Hann var því í raun afar hagkvæmur, en hið arfa vitlausa skattakerfi leit bara á það, að breytingarnar á jeppunum, sem fyrir voru, voru afar atvinnkuskapandi!

Sex árum síðar kom svipaður amerískur bíll, Ford Bronco á sjónarsviðið, sem var með svipaðri yfirbyggingu úr málmi, sem var boltuð niður, og Skátinn, en af því að hann var 2,34 á milli öxla skilgreindist hann sem landbúnaðartæki og fór því í tollaflokk með mikilli ívilnun. 

Hafi kaupæðið á Willys 1946 til 47 verið mikið, varð Bronco-æði 1966 enn meira, því að það var meira að segja hægt að kaupa Bronco með átta gata vél og hann var þar að auki á gormum að framan. 

Síðuhafi átti Bronco 1966-68 og aftur 1973-77, og þetta voru þrumu farartæki sem fengust nýir á gjafverði. 

Smíði innréttinga og fleiri smærri breytinga á Bronco blómstraði, auk sérlega stórra og glæsilegra yfirbyggnga á marga Rússajeppana. 

Svo fór, að menn urðu að hætta þessum skrípaleik með landbúnaðartækin nokkrum árum síðar, og þótt löngu fyrr hefði verið. International Scout II 1977

Síðuhafi átti og notaði Willys 66 um skeið, og þessi smábíll, styttri en stystu fólksbílar í dag, sem kom úr verksmiðjunni um 1100 kíló að þyngd, var tæp 1400 kíló með stóra og þunga islenska húsinu!

Á Siglufirði voru smíðuð aldeilis kostuleg hús í Síldarverksmiðjunni Rauðku yfir lengda Willys jeppagrindur.  

Var rýmið inni nógu langt til þess að hægt var að hafa aftursætið í óravegalengd aftur við gafl.Ford_Bronco

En fyrir bragðið var hægt að hafa farþegasætið hægra megin frammi svo aftarlega, að hægt var að fara hægra megin að framan inn í bílinn eins og í rútu og fara framhjá farþegasætinu framan við það til að komast aftur í og setjast þar! 

Þetta voru kölluð Rauðku-hús og er það synd að ekki skyldi vera varðveittur neinn jeppi með þessu stórkostlega húsi. 

Síðuhafi hefur ekið í tvö ár á minnsta bíl, sem er í umferð á Íslandi, en býður þó upp á fullt rými og þægindi, 90 km hraða og 90 km drægni. RAF í hleðslustæði (1)

En þótt hann sé skoðaður og flokkaður sem bíll, er hann þó skilgreindur sem "heavy Quadracycle" eða þungt fjórhjól, nánar tiltekið í flokki L7e. 

Takmarkanir eru settar við smíði svona bíla:  Hámarksafl 15 kílóvött. Hámarksþyngd 450 kíló, án rafhlaðna. Hámarkshraði 90 km/klst. Vægari kröfur um hraða í árekstraprófum, 50 km/klst.  


mbl.is Fjórhjól flokkist ekki sem dráttarvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Flókin kerfi, neyzlustýring eða bara stýring?

Eins og Orwell sagði: tilgangur með völdum eru völd.

Svo tilgangurinn með öllum þessum reglum var sennilega bara reglur.  Ekkert til að reyna að íþyngja, bara þessi venjulaga banal hegðun allra stjórnvalda alltaf.

Sem hefur valdið alskyns tjóni.

Náði súrrealískustu hæðum í stríðinu, þegar menn fóru að festa pall á alla bíla, til að geta fengið auka-eldsneyti.  Og svo seinna, þegar menn voru með pall-lengingar til að spara bifreiðagjöld (eða hvað þessi auka-skattur hét, þeir eru svo margir orðnir eitthvað.)

Hvaða bakkabræðra-reglur fáum við svo þegar rafbílum svo fjölgar?  Það verður eitthvað þjóðsagnakennt.

Ásgrímur Hartmannsson, 15.10.2019 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband