2.11.2019 | 00:54
Listinn yfir varasöm efni orðinn langur.
Iðnbyltingin færði mannkyninu miklar framfarir og hagsbætur. En síðan fóru ýmis efni, sem álitin voru í upphafi dásamleg fyrir mannfólkið, að sýna á sér aðra hlið.
Nokkur dæmi:
Dásemdir tóbaks voru miklaðar mjög langt fram eftir síðustu öld, tákn hreysti og glæsileika. Síðan kom í ljós, að þetta var alveg öfugt.
Asbest þótti dýrlegt í gerð nýrra efna með góða eiginleika að flestu leyti. Síðar kom í ljós að við vinnu við það og of mikla nálægð varð það og þó einkum rykið af því krabbameinsvaldur.
Eitt af því sem gerði Bandaríkin mikilfengleg fram undir 1970 var íblöndun blýs í bensínið til þess að auka aflið, sem fékkst úr eldsneytinu. Fyrir bragðið voru framleiddir mikilfenglegir stórbílar, sem Donald Trump og fleiri sakna mjög. Á sjöunda áratugnum var hins vegar svo komið, að yfir stórborgum Ameríku lá þykkt mengunarský, stundum nefnt smog, sem byrgði fyrir útsýni og olli sviða í augum, auk slæmra áhrifa á öndunarfærin og almenns heilsutjóns. Ýmsir þungmálmar ógna nú velferð margra dýra á norðurslóðum, þar sem kuldinn veldur því að þeir eyðast ekki í náttúrunni, heldur safnast fyrir í lífríkinu.
Um síðustu áramót fundu nokkrir læknar í Bandaríkjunum upp undralyf, sem tóku verkjalyfjum þess tíma langt fram, því að þau voru alveg laus við að vera ávanabindandi. Á síðustu árum kom síðan í ljós að þetta var þveröfugt, nýju lyfin innihéldu þvert á móti sumt af þeim efnum í eldri lyfjum, sem voru mest ávanabindandi og að nú drepast meira en 50 þúsund Bandaríkjamenn árlega úr svonefndum ópíóðalyfjafaraldri. En uppfinningamönnunum góðu og moldríku tókst að fá þingmenn með hagsmuni af hinni stórfelldu framleiðslu lyfjanna til þess að fá samþykkt lög á þinginu sem lögðu lyfjaeftirlitið í rúst.
Flúorklórkolvetni var eitt undraefnið, sem gerði mikið gagn þegar það kom fram, svo sem í milljörðum úðabrúsa og úðunarefna. Síðar kom í ljós, að áhrifin á ózonlagið í lofthjúpnum í hæstu hæðum gæti eyðst til skaða fyrir allt lífríki jarðar. Undraefni í slökkviefni reyndist einnig skaðlegt þegar að því var betur gætt.
Um miðja síðustu öld ruddi snilldarefnið plast sér fyrir alvöru til rúms, og var talið slíkt undraefni til þess að bæta alla hluti, að Walt Disney lét reisa smáþorp, þar sem allt, bóksteflega allt, var úr plasti og sýndi fólki komandi dýrð hinnar nýju plasveraldar.
Nú er plastið alls staðar í tækjakosti og hlutum nútímans. Einu sinni var hluti af yfirborðinu innan í farþergarými bíla nakið stál, en það er löngu liðin tíð, því allt er úr plasti af einhverju tagi.
Plastið er íblandað í ótrúlegustu hlutum, eins og tengd frétt af plastögnum í hjólbörðum vitnar um.
Ýmis eiturefni, notuð gegn skordýrum, svo sem DDT, reyndust með tímanum afar varasöm og vandmeðfarin.
Rétt eins og að upphaflega var talið að tóbak, asbest, blý og ýmsir þungmálmar væru algerlega meinlaus fyrirbæri, sést nú talað um það að jafnvel þótt plastagnir berist í líkamsvefi manna og dýra, sé það hið besta mál; alveg skaðlaust.
Sömuleiðis reykingar á rafrettum, sem séu vita skaðlausar og mikið þjóðþrifamál.
Að minnast á ofangreind mál telja margir bölsýnisraus þeirra sem séu á móti öllum framförum og hagvexti.
En þá gleymist alveg að yfirleitt eru lifnaðarhættir, sem hafa reynst mannkyninu vel í árþúsundir, jafnvel þótt það sýnist til dæmis ekki vera þannig varðandi það að "verða skítugur".
Hjólbarðar langstærsta uppspretta örplasts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ózon (O3) var aldrei úðunarefni, enda óstöðugt og hættulegt heilsu fólks. Flúor-klórkolvetni (FCKW) hinsvegar. Slík efni bárust út í heiðhvolfið og áttu sinn þátt í eyðingu ózonlagsins. En það verndar jörðina fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar. Því eru FCKW bönnuð í dag.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.11.2019 kl. 08:42
ozon frétt
https://wattsupwiththat.com/2019/10/22/hole-in-the-ozone-layer-shrinks-to-smallest-size-on-record/
Elló
Elló (IP-tala skráð) 2.11.2019 kl. 22:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.