"Eitthvað annað" malar gull.

Gamalt íslensk máltæki, "bókvitið verður ekki í askana látið," var óspart notað af stóriðjufylgjendum fram yfir 2010 á þann hátt að fullyrða að aðeins stóriðja gæti "bjargað íslensku atvinnulífi" og að fánýtt væri að tala um "eitthvað annað". 

Var fjallagrasatínsla nefnd í sibylju um fánýti þess sem flokkaðist sem "eitthvað annað."

Þó lá fyrir, að enda þótt öll orka Íslands yrði virkjuð fyrir alls sex til sjö risaálver, myndi aðeins um 2 prósent íslensks vinnuafls verða við stóriðjuna. 

Eftir ferðamannafjölgunina gríðarlegu upp úr 2010 kom í ljós, að fjðlmargt, sem tengdist öðru en framleiðsla á hráefni fyrir erlend stórfyrirtæki, en spratt af hugviti og frumkvöðlastarfsemi eða tengdist menningu og listum, gat gefið svo miklar tekjur, að það nægði til að skapa mesta og lengsta hagvaxtar- og uppgangstímabil sögu landsins. 

Senn hefur Ragnar Jónsson selt milljón eintök af bókum sínum erlendis, og áður en bók Andra Snæs Magnasonar "Sagan um tímann og vatnið" var komin út hafði þegar verið beðið um að þýða hana á 25 tungumál. 

Listinn yfir "eitthvað annað" er lengri en hægt verði upp að telja og dæmin óteljandi 

Í dag greinir til dæmis frá áformum Balatazar Kormámks um uppbyggingu kvikmyndavers í Gufunesi þar sem áður var Áburðarverksmiðjan. 


mbl.is Milljónasta bók Ragnars seldist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aðeins stóriðja átti að geta bjargað atvinnulífi og búsetu á Austfjörðum og fánýtt væri að tala um eitthvað þokukennt og óljóst "eitthvað annað" eins og það væri lausn.

En ef Austfirðingar hefðu bara setið aðgerðarlausir og notið þess að vera atvinnulausir litlum 10-15 árum lengur væri þeim borgið. Þetta "eitthvað annað" er loksins fundið! Þeir hefðu getað hafið ritstörf í anda Ragnars Jónssonar og Andra Snæs þó kvikmyndagerð í Gufunesi og hótelþrif í Reykjavík gagnist byggðaþróun á Austfjörðum ekkert.

Vagn (IP-tala skráð) 27.11.2019 kl. 22:28

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Um þrennt var að ræða: 1. Að reisa Kárahnjúkavirkjun með mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum, sem möguleg voru hér á landi. 

2. Að virkja bara Jökulsá í Fljótsdal með margfalt minni óafturkræfum umhverfisspjöllum. 

3. Að fresta virkjunum og fara strax í að gefa ferðaþjónustu á grundvelli þjóðgarðs möguleika á að sanna gildi sitt. 

Stóri munurinn á 3. og hinum tveimur möguleikunum er sá, að þjóðgarðshugmyndin var afturkræf; það var hvenær sem er hægt að snúa við blaðinu og virkja. 

En um eilífð verður ómögulegt að gera gereyðilagt land að þjóðgarði eða ferðaþjónustusvæðí, sem byggist á einstæðum þjóðgarði.  

Þetta snerist ekki um 10-15 ára mismun. Fljótsdalsvirkjun var ekki komin á skrið fyrr en 2007-2008, og uppbygging innviða vegna ferðaþjónustu hefði geta verið komin á skrið 2003 og ferðaþjónustan sjálf 2008 ef sá kostur hefði verið valinn strax. 

Ómar Ragnarsson, 27.11.2019 kl. 23:07

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Kostnaðurinn við atkvæði Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur á Austurlandi var ákaflega mikill.

Hagkerfi sem grundvallast á sölu hráefna verður aldrei öflugt eða sérstaklega stöðugt. Grunnurinn að auðsæld til frambúðar er atvinnulíf sem grundvallast á hugviti. Ekki orkusölu til fyrirtækja sem flytja arðinn úr landi. Ekki ferðaþjónustu sem býr nær einungis til láglaunastörf. Fyrirmyndirnar ættu að vera lönd á borð við Þýskaland, Japan og Suður-Kóreu. Lönd sem hafa byggt upp öflugan og arðbæran iðnað sem grundvallast á hugviti.

Þorsteinn Siglaugsson, 27.11.2019 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband