28.11.2019 | 13:45
Því miður enn reynt að fara gegn þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.
Í þeim tillögum, sem settar hafa verið fram um ákvæði um auðlindir og umhverfismál í núverandi ferli varðandi stjórnaárskrá, hefur því miður sést bera á einbeittum vilja til þess að útvatna svo tillögur stjórnlagaráðs, að þær verði máttlitlar eða máttlausar.
Með slíku er farið gegn þeirri megin niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar að byggja nýja stjórnarskrá á tillögum stjórnlagaráðs.
Eini ljósi punkturinn er þó sá, sem sést hefur, að hugtakið "sjálfbær þróun" sem er alþjóðlega fastmótað, geti komið á ný inn á þann eina stað, þar sem það hefur vægi, þ. e. í auðlindaákvæðið.
En aðrar tillögur um breytingar í stjórnarskrárvinnslunni hafa því miður hneigst í öfuga átt, svo sem að fella út orðin um að "aldrei megi selja eða veðsetja auðlindirnar," en það orðalag er tekið úr Þingvallalögunum frá 1928, þannig að úrfelling þess felur í sér að fara heila öld afturábak í þessu efni.
Einnig hefur mátt sjá viðleitni til að fella út stutta upptalningu helstu náttúrugæða, sem hefst á hinum mikilvægu orðum "svo sem", en í því felst að fastsetja þau gæði, sem ekki megi líta framhjá.
Niðurfelling þessara orða felur í sér útvötnun og undanbrögð.
Í kaflanum um náttúru og umhverfi hefur verið reynt að fella út eða útvatna ákvæði um landvernd, endurheimt landgæða og bætingu fyrri spjalla eftir föngum, og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða virðist vefjast fyrir mönnum.
Tryggja varanlegt eignarhald þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er auðvitað einhver pólitískur ágreiningur um þetta. Og þá þarf bara að taka rökræðuna á þeim grunni. Tillögur nefndarinnar, sem 37% greiddu atkvæði með í skoðanakönnuninni ef ég man rétt, hafa ekkert lagalegt gildi og tilgangslítið að vera að hengja sig í þær. Það er held ég alveg fyrirliggjandi að meirihluti almennings vill að auðlindir séu í þjóðareign. Ef eitthvað vantar þar upp á er um að gera að gera um það skoðanakönnun, en í guðanna bænum ekki vera alltaf að vísa í þessa marklausu atkvæðagreiðslu um tillögur þessarar umboðslausu nefndar, og láta svo eins og meirihluti þjóðarinnar hafi samþykkt þær. Það var ekki þannig.
Þorsteinn Siglaugsson, 28.11.2019 kl. 17:06
Enn er veifað þeim skilningi á atkvæðagreiðslum, að miða skuli við fjölda kosningabærra manna og útkoman sögð 37 prósent 2012.
Ef þetta er alltaf gert, fékk Brexit aðeins 37 prósenta fylgi og forsetar Bandaríkjanna hafa ekki fengið nema 25 til 30 prósenta fylgi.
Sambandslögin 1918 fengu þá minnilhuta fylgi og afnám vínbannsins aðeins þriðjung atkvæða 1937.
Ómar Ragnarsson, 28.11.2019 kl. 18:35
37% kosningabærra manna studdu þetta. Stór hópur fólks tók ekki þátt í atkvæðagreiðslunni vegna þess að það lá ljóst fyrir að hún væri marklaus. Og það var hún enda hafði nefndin ekkert umboð til að leggja fram nýja stjórnarskrá og það var ljóst frá upphafi að þarna væri ekki um bindandi atkvæðagreiðslu að ræða, vegna þess að umboðið var ekki til staðar.
Þorsteinn Siglaugsson, 28.11.2019 kl. 19:23
Í núverandi ferli varðandi stjórnaárskrá hefur sést bera á einbeittum vilja kjörinna þingmanna, þvert á vilja nefndarmanna, að gera ekki makríl, foss og einhvern fæddan eftir 500 ár rétthærri en lifandi íbúa landsins.
Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína, en með slíku er farið gegn þeirri megin niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar að byggja nýja stjórnarskrá á tillögum stjórnlagaráðs. Að byggja nýja stjórnarskrá á tillögum stjórnlagaráðs í andstöðu við sannfæringu þingmanna væri stjórnarskrárbrot. Væri það sannfæring þingmanna að byggja bæri nýja stjórnarskrá á tillögum stjórnlagaráðs þá væri það búið og gert.
Það er ekki gott veganesti frá skipaðri stjórnarskrárnefnd að heimta stöðugt stjórnarskrárbrot þegar ekki er vilji Alþingis til að gera eins og nefndarmenn hefðu óskað. En varla við öðru að búast frá leiðitömu fólki sem ætlaði sér í sögubækurnar með því að semja stjórnarskrá á nokkrum vikum án reynslu og þekkingar undir dáleiðandi handleiðslu leiðtoga safnaðarins.
Vagn (IP-tala skráð) 28.11.2019 kl. 21:44
Þetta er góður punktur Vagn. Eitt mikilvægasta atriðið í stjórnarskrá hvers lands er einmitt að hún mælir fyrir um hvernig standa skuli að stjórnarskrárbreytingum. Ég held að sumir talsmenn nefndarinnar og plaggsins mættu hafa það í huga, að það er til lítils að hafa stjórnarskrá, gamla eða nýja, ef ekki er farið eftir henni.
Þorsteinn Siglaugsson, 28.11.2019 kl. 22:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.