7.12.2019 | 13:16
"Teikað" og þeyst á skíðasleðum. Er eintak til?
Svonefndir skílasleðar voru algengir um miðja síðustu öld. Þeir voru með sérstöku sæti fremst fyrir farþega, bakið á sætinu var jafnframt fast stýri fyrir ökumanninn, sem knúði sleðann áfram með fótunum og ýtti á "stýrið".
Ef farið var niður brekku eða hraðinn mikill af öðrum orsökum, var hægt að standa á öðru hvoru skíðinu, oftast vinstra megin, og láta hægri fótinn viðhalda hraðanum með snörpum spyrnum.
Líka var hægt að standa á báðum fótum á skíðunum, sem voru raunar líkari skautajárnum en snjóskíðum.
Hraðakstur á skíðasleðum var dýrlegt og hressilegt sport, sem eftirsjá er að.
Þeyst var á æsihraða niður eftir gangstéttunum á Rauðarárholtinu, sem fyrstu ár þeirrar byggðar voru raunar ysti hluti malargatnanna, sem enn voru þar.
Annað sport og hættulegra var það að hanga aftan í stuðurum á bílum, sem oft voru býsna voldugir.
Volkswagen Bjallan var einn af þeim síðustu í fólksbílasögunni, sem var með slíka stuðara.
Þetta var kallað "að teika" og var vandasamt, sem er annað orð yfir hættulegt.
Ekki minnist ég samt neins alvarlegs slyss í þvi sporti.
Setið var um bíla þegar þeir fóru af stað og laumast til að hanga aftan í stuðurunum.
Aldrei var sett upp skilti til að loka sleðagötum á Rauðarárholti og í Norðurmýri á þessum fyrstu 15 árum byggðar á Rauðarárholti, og aldrei fóru sögur af neinum sérstökum vandræðum eða slysum á því svæði í þeirri sérkennileg blöndu af opnu vetraríþróttasvæði og umferðargötum, sem oft varð til á hvítum vetrardögum.
Varúð! Sleðagata | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.