Einn af óskabílunum: Trabant árgerð 1991.

Fyrirsögnin hér að ofan kann að þykja ólíkindaleg, en á sér forsögu í sögu Trabants.Trabant 91

 

Á myndinni má sjá Trabant árgerð 1990, og munurinn á honum og fyrri árgerðum sést á grillinu, sem lítur út eins og aðeins helmingurinn af gamla grillinu.

En ef húddinu er svipt upp blasir allt annað við: Vél og drifbúnaður úr Volkswagen Polo og þessi fína Mc Person gormafjöðrun af sama uppruna! 

Skoðum forsögnuna betur: 

Frá árinu 1956 fluttu Íslendingar inn talsvert af austur-þýskum bílum, sem voru yfirleitt þeir ódýrustu á markaðnum hér, einkum vegna þess að þeir voru afrakstur vöruskipta við austantjaldslöndin fram undir 1990.  V

Danir höfðu byrjað aðeins fyrr á kaupum á austurþýskum bílum og fluttu inn litla og afspyrnu gamaldags bíla með merkinu IFA, með aflvana tvígengusvél. 

1956 kom P-70 til landsins, sem var eins konar millistig á undan P-50 Trabant. 

Sovétmenn höfðu haldið fast við þá stefnu, sem Vesturveldin höfðu lagt af, og fólst í því að halda Þjóðverjum kyrfilega niðri í iðnaðarmálum, svo að þeir ættu enga möguleika á að rísa úr öskustó í því efni og eiga þar með möguleika á hernaðarlegum styrk. 

Austur-Þjóðverjar fengu ekki að eignast járn eða stál nema í litlum mæli, en fundu leið framhjá því með því að nota bómull og fleiri efni til að búa til svonefnt Duroplast. 

P-70 var með stálgrind sem undirvagn en Duroplast sem samansoðna yfirbyggingu, og gólfið á farangursgeyslunni var úr krossviði! 

Vélin var arfur frá DKW, 500 cc tvígengisvél, aðeins 15 hestöfl, bíllinn afar máttvana vegna þess að hann var furðu þungur, meira en 800 kíló. 

P-70 entist illa og enn verr entust sendibílar af gerðinni Garant, sem voru líklega einhverjir lélegustu bílar, sem fluttir hafa verið til Íslands. 

Til landsins voru fluttir aðeins stærri, aflmeiri og dýrari fólksbílar af gerðinnu Wartburg, sem var allur úr stáli, og reyndust þeir heldur skár. 

Þeir voru álíka stórir og Skoda Octavia og hinn rússneski Moskwich, sem voru báðir með fjórgengisvélar, en tvígengisvélin í Wartburg olli því að þeir seldust aldrei nærri eins vel og hinir tékknesku og rússnesku keppinautar, sem einnig voru ódýrir, meðal annars í krafti vöruskiptasamninga. 

Nokkrum árum síðar kom stækkaður Trabant, Trabant 601, sem var mun eigulegri bíll en P-50, hestöflin fóru fljótlega upp í 23 og hámarkshraðinn í 100 km/klst. 

Bæði Trabant og Wartburg voru með hastar þverfjaðrir og var það bæði hálfgert fornaldarfyrirbrigði og dragbítur á sölu. 

Þegar komið var fram á níunda áratuginn voru Austur-Þjóðverjar orðnir svekktir á því svelti, sem Rússar héldu þeim í, en komust þó ekki lengra en það, að fá að semja við Volkswagen verksmiðjurnar um að skipta út vélum, drifbúnaði og fjöðrunarbúnaði í Trabant og Wartburg. 

Þessar endurbætur komust í gagnið 1990, árið eftir að múrinn féll, en fólkið, sem vann við framleiðslu þessara bíla, eygði von um að framleiðsla þeirra gæti haldið áfram, því að að breytingarnar voru í raun afar róttækar, þótt útlit bílanna væri hið sama. 

Volkswagenvélarnar og drifbúnaðurinn voru úr Polo, mengunin horfin, aflið tvöfalt án aukningar bensíneyðslu og sjálfstæð gormafjöðrun af bestu gerð. 

Svo vel heppnuð var breytingin á Trabant, að ef síðuhafi sæi draum um naumhyggjubílasafn Íslands, myndi Trabant árgerð 1991 verða ofarlega á listanum, að ekki sé nú talað um þann möguleika að breyta honum í rafbíl. 

Margir Austur-Þjóðverjar þóttust illa sviknir af löndum sínum vestan tjalds, þegar framleiðslu Trabant og Wartburg var hætt og verksmiðjurnar lagðar niður. 

En það var óhjákvæmilegt vegna þess að verksmiðjurnar og framleiðsluaðferðirngar í þeim voru gersamlega úreltar og engan veginn samkeppnisfærar. 

Þetta sáu Tékkar við fall múrsins og stofnuðu til fádæma endurreisnarævintýris í samvinnu við Wolksvagenverksmiðjurnar sem hefur skilað sér í gullöld Skoda.  


mbl.is 265 trabbar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

"Skynsemin ræður" hét klúbbur Trabanteigenda ef ég man rétt. Misjafnar skoðanir manna á því hvað skynsamlegt er.

Þorsteinn Siglaugsson, 18.12.2019 kl. 23:48

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tvígengisvélin og höst fjöðrun stungu í stúf við annað, sem var skynsamlegt í þessu annars tákni skynsamlegrar naumhyggju. 

Ómar Ragnarsson, 19.12.2019 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband