27.12.2019 | 09:09
Niðurbrot plasts sá enginn fyrir. Ford með sleggjuna.
Það eru liðin um 30 ár síðan síðuhafi stóð sem steini lostinn í í fjörunum í Strandasýslu og undraðist allt það óheyrilega magn af plasti og öðru rusli sem þakti þessa fallegu strendlengju.
Myndi af því rötuðu í framhaldinu í fréttatíma Stöðvar tvö og bættust við sláandi myndir af illa förnum uppblásturssvæðum, allt frá Krýsuvík og landi Ísólfsskála austan við Grindavík til Núðasveitar við Þistilfjörð.
Í umfjöllunina um plastið og uppruna þess vantaði hins vegar stærsta atriðið, sem yfirleitt sést ekki með berum augum, en hefur nú komið í ljós: Niðurbrot þessa lúmska efnis allt niður í örplast, sem síðar hefur fundist í líkamsvessum lífvera.
Hegar Henry Ford var sá maður öðrum fremur sem innleiddi nútíma bílaöld, hafði hann svo mikið álit á plasti sem framtíðar efni í nánast hvað sem væri, að hann lét gera bíl, sem var að mestu leyti úr plasti.
Ford auglýsti plastið meðal annars með því að taka sleggju og slá henni utan á bílinn og sýna með því muninn á því hvernig plastið fjaðraði undan högginu en réttist síðan aftur, svo að engin skemmd sást.
Að því leyti til varð Ford sannspár, að í öllum nútíma bílum er bíllinn að innan nær eingöngu úr plasti eða öðrum gerviefnum.
Hvorki Ford né Walt Disney, sem var heillaður af þessu dýrlega efni og lét gera heilt þorp úr plasti, óraði fyrir því að stór svæði utandyra og allt lífríkið yrði tæpri öld síðar löðrandi af plastögnum jafnt að utan sem innan.
Plastlaust skíðasvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er hægt að koma í veg fyrir stærsta hluta plastmengunar með betri ruslaförgun. En með plastnotkun í fötum, snyrti og hreinlætisvörum ásamt íblöndun í hjólbörðum er erfiðara að koma í veg fyrir mengun út í umhverfið
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 27.12.2019 kl. 14:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.