12.1.2020 | 09:05
Ósáttir Svíar 1964. Upphaf handboltaævintýris.
Sigurleikurinn sæti yfir Ólympíu- og heimsmeisturum Dana í gær minnir á fyrsta stóra sigur íslenska handboltalandsliðsins á stórmótum, en það var 1964 þegar Íslendingar lentu í riðli með Svíum, sem þá voru með heimsþekkt silfurlið.
Í riðlinum voru einnig Egyptar og Ungverjar.
Íslendingar byrjuðu mótið á að vinna Egypta með miklum mun, enda voru þeir með lang lakasta liðið í riðlinum og urðu neðstir án stiga.
Íslendingar höfðu áður lent í 10. sæti á stórmóti og Svíar þekktu íslensku leikmennina sæmilega, svo sem skytturnr Gunnlaug Hjálmarsson, Ragnar Jónsson og Örn Hallsteinsson, þannig að enginn bjóst við neinu af íslenska liðinu gafn firnasterku og frægu silfurliði Svía.
Enda var handboltaaðstaðan hér á landi sú lélegasta á byggðu bóli, gamall og alltof lítill íþróttabraggi við Hálogaland í Vogahverfi sem Íslandsmótið fór fram í, þannig að eini löglegi handboltavöllur landsins var íþróttahús Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli!
En landsliðsþjálfrinn íslenski lumaði á skæðu leynivopni, Ingólfi Óskarssyni, sem var afburða skytta en var hvíldur í leiknum við Egypta.
Fór svo, að Íslendingar unnu frækinn sigur á Svíum, 12-10, og munaði þar miklu um stórleik Ingólfs.
Voru þetta einhver óvæntustu úrslit í handboltanum á þessum árum, og Svíar afar svekktir með þessa sneypu sína.
Nú virtist brautin greið fyrir Íslendinga til þess að komast á verðlaunapall og næsti leikur var við Ungverja.
En þá var sem þetta fyrsta gullaldarlið Íslendinga í handbolta væri heillum horfið og Ungverjar slökktu á verðlaunasætisdraumum landans í þetta sinn.
En engu að síður lagði Svíaleikurinn sæti grunninn að þeim handboltaævintýrum Íslendinga, sem síðar komu.
Ingólfur Óskarsson var stórskytta á þessum árum, markahæstur á einu Íslandsmótinu og á síðasta Íslandsmótinu var hann vítaskytta Framara og skoraði úr öllum vítum sínum á mótinu ef rétt er munað.
Ósáttir Danir segja leikinn martröð og stórslys | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.