Kerry-hringurinn getur verið skemmtileg ferðaleið.

Flestir Íslendingar, sem koma í nokkurra daga ferð til Írlands, koma til höfuðborgarinnar og dæma Írland og Íra út frá því. 

Fyrir 27 árum fór Skagfirska söngsveitin í hljómleikaferðalag til Cork á suðvestanverðu landinuu og hélt líka tónleika í Tipparery, ef rétt er munað. 

Íbúar þessa hluta landsins halda því margir fram, að á þessu svæði sé hið sanna Írland, því að Dublin sé allt of ensk og lík borgum í Bretlandi. 

Svo harðir eru íbúar suðvesturhluta landsins á því að viðhalda fornri írskri menningu, að þrátt fyrir veru landsins í ESB, fyrri yfirráð Breta og þess, að Bretarnir tróðu sínu tungumáli upp á Íra, voru margir þjóðvegir enn aðeins merktir með keltneskum nöfnum þegar þarna var ferðast um á sínum tíma. 

Það rignir mikið á Eyjunni grænu og oftast í suðvestlægum áttum í kjölfar þrálátra lægða sem ganga yfir Atlantshafið og oftast fyrir norðan Írland. 

Þá er ágætt að hafa auga á því, að í þessum votu vindáttum er að finna nokkurt skjól á Írlandi, þar sem fjallendi setur oft rof í skýin svo að það verður bjart og þurrt í skjólinu norðaustan og austan megin. 

Annars vegar er um að ræða fjalllendi suður af Dublin, Wiklow, og hins vegar mun stærra fjalllendi á suðvesturhorni landsins. 

Heitir það svæði Kerry og er borgin Killarney aðal ferðamannamiðstöð svæðisins. 

Rétt eins og margir vilja aka hringinn hér á landi, er svonefndur Kerry-hringur umhverfis fjallendið, sem liggur í hálfhring utan um Killarney, vinsæl ferðamannaleið. 

Þegar farinn var þessi hringur 1993 var hlýr hnjúkaþeyr í Killarney og sólskin hlémegin við fjöllin á sama tíma sem það var hryssingskaldur "útsynningur" með hvössum skúrum strandarmegin við þau. 

Þarna er víða afar fallegt landslag og ólíkt því sem er um mestallt flatlendi Írlands. 

Í annarri ferð til Írlands á þessum árum, benti írski fararstjórinn á tvennt sem kynni að angra ferðafólk.  

Annars vegar það hvernig mikil einstaklingshyggja einkenndi margt, svo sem það sem sjá mætti úr rútunni, langa raðhúsalengju, þar sem engar dyr voru með sama lit. Fór þá hláturkliður um Íslendingana í rútunni, enda hafa rannsóknir leitt í ljós, að íslenskar konur eru að meirihluta með erfðafræðilegan uppruna frá Írlandi og Bretlandseyjum Kelta.

Og erlendir ferðamenn hér á landi hafa margir undrast, hve húsaþökin í íslensku þéttbýli, geta verið marglit oft á tíðum. Fararstjóranum var sagt þetta, og hann spurður um hitt einkennið hjá Írum.  

Jú, sagði hannn; "Hitt einkenni Íra ættu erlendir ferðamenn erfitt með að sætta sig við, og yrðu strax í upphafi ferðar að venja sig við; annars gæti þessi ósiður Íra skemmt ánægjuna af ferðinni: 

Írar væru nefnilega einstaklega óstundvísir. Ef sagt væri til dæmis að að eitthvað ætti að gerast klukkan níu, væri viðbúið að það drægist í kortér." 

Þessi ummæli fararstjórans vöktu enn meiri hlátur en tal hans um einstaklingshyggju Íra, og var honum lofað því, að hvað Íslendinga varðaði, myndi þetta engin áhrif hafa, - nema þá að fá finnast að þeir væru komnir heim til Íslands.  


mbl.is 23 þúsund sóttu um starf á eyðieyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband