Nýr markhópur rafbílakaupenda. Smart framleiðir bara rafbíla.

Fyrir fimm árum hét síðuhöfundur því á fyrstu ráðstefnunni hér á landi um rafbíla, að vert væri að stuðla að því að hægt væri að flytja inn fyrirbæri, sem kalla mætti "rafbíl litla mannsins." Renault Twizy

Ástæðan væri sú, hve margir töldu sig ekki hafa efni á því að eignast rafbíl. 

Á íslenska markaðnum hefur þetta blasað þannig við, að ódýrustu rafbílarnir, sem selst hafa í einhverjum mæli, hafa fengist á um fjórar milljónir króna, sem er tvöfalt hærra verð en hefur verið á ódýrustu bensínknúnu bílunum. 

Fyrir fimm árum hafði talsvert selst erlendis af frönskum tveggja manna örbíl af gerðinni Renault Twisy, ( á íslensku Renault títla ). Tazzari tveir bílar

Hann kemst fyrir þversum í stæði, svo að hægt er að leggja þremur slíkum bílum í eitt venjulegt bílastæði. 

Vinsældir bílsins minnkuðu þó fljótlega vegna þess, að þótt hann sé sá ódýrasti á markaðnum, er verðið samt yfir eina og hálfa milljón þegar settar hafa verið á hann hurðir og hiti í hann, og að óþörfu er loftmótstaðan 0,68 cx, sem er meira en tvöfalt hærri stuðull en á venjulegum fólksbíl. 

Af þessum sökum er drægnin ekki nema um 50 km á aðeins 7 kWst rafhlöðunni, og enda þótt bílum í bæjarsnætti sé almennt aðeins ekið rúma 30 kílómetra daglega að jafnaði, er þetta full knappt. Tazzari. Farþegarými

Það varð því ekki úr því að flytja svona bíla inn. 

Í árslok 2017 flutti fyrirtækið Álfaborg inn tvo tveggja manna rafbíla af gerðinni Tazzari Zero, en þeir eru framleiddir í Imola í Mótordalnum sjálfum á Ítaliú, en þar er einnig framleiðandi á byggingavöru, sem Álfaborg skiptir við. 

Eigendur Álfaborgar hafa verið áhugasamir um rafbíla og voru bílarnir tveir boðnir til sölu á 2 milljónir króna. 

Síðuhafi sló til og hefur ekið öðrum þessara bíla um 9100 kílómetra á tveimur árum á svæðinu milli Borgarness og Selfoss og líkað vel við þennan þægilega ferðamáta, sem er oft afar hentugur í þrengslum borgarinnar, vegna þess hvað bíllinn er stuttur, aðeins 2,88 m langur. Smart Fortwo e og Tazzari Zero framan, hægri

Smæð bílsins gefur honum viðbót varðandi kolefnissporið, sem plássfrekir bílar skapa í nýtingu gatnakerfisins, en það kostar spor að taka mikið rými, og smæðin er því framlag svona lítilla bíla til að minnka það. 

Samt er hann nógu breiður til að ágætlega fari um tvo inni í honum, og 150 lítra farangursrými er í hinum endasleppa afturenda; hann getur náð 100 km/klst hámarkshraða og 100 kílómetra drægni á aðeins 12,8 kWst rafhlöðu, því að hann er aðeins 760 kíló að þyngd, sem er innan við helmingur af meðalstórum rafbíl. Smart Fortwo e og Tazzari Zero, framan frá

Þegar hann kom fram 2010 þurfti að fara alla leið upp í Porsche til að eignast bíl með vélina að aftan og afturdrif, ja, fyrir utan Smart, auðvitað. 

Og af því að sætin tvö eru alveg aftur við afturhjólin ásamt mótor og rafhlöðum eru þyngdarhlutföllin 70:30, drifhjólunum í vil. Spyrna í lagi, einkum upp brekkur!

Fyrir þetta lágt kaupverð, tvær millur, fæst þó ekki allt. Vegna kostnaðar við sérpöntun á búnaði fyrir að nota hraðhleðslustöðvar á honum, er sá möguleiki ekki fyrir hendi. Mesta mögulega hleðslumagn er 2,7 kílóvött með þriggja fasa rafmagni, og það myndi því taka hátt í sólarhring að fara á honum milli Reykjavíkur og Akureyrar. Tazzari Zero og Smart Fortwo e á hlið

Hann er að vísu viðurkenndur til aksturs í vegakerfi Evrópu en er þó ekki með loftpúðavörn eins og Renault títlan er þó.  

Hér á landi hafa að vísu verið fluttir inn litlir rafbílar af gerðinni Volkswagen e-up, en rafhlöðurnar í þeim hafa aðeins verið um 20 kWst og drægnin því lítið meiri en á Tazzari rafbílnum. 

Rafbílar af gerðinni Smart hafa hingað til ekki verið fluttir inn, en þeir eru með 17,6 kWst rafhlöður. 

Svo ótrúlegt, sem það kann að virðast, er slíkur bíll 19 sentimetrum styttri en sá litli ítalski. Smart þversum í stæði

Hann kemst því allt eins þversum í stæði eins og Tazzari ( sjá mynd af eldri gerð Smart-bílsins).  

En nú hillir undir framfaraskref hvað varðar það að komast nær hugtakinu "rafbíll litla mannsins". 

Því að það er risaskref að verðið fari alla leið úr fjórum milljónum niður í þrjár milljónir króna, þótt það sé milljón hærra en verðið á ódýrasta bensínbílnum. 

Er þá rétt að hafa í huga, að sparnaðurinn í orkukostnaði og viðhaldskostnaði er það mikill að hann jafngildir um 15 þúsund krónum á mánuði í meðalakstri. Smart Fortwo rafbíll, aftan frá á hlið.

Það þýðir að greiðslubyrðin vegna afborgana af láni á nýjum rafbíl sem kostar 3 milljónir verður líklega svipuð og af nýjum bensínbíl, sem kostar 2 milljónir. 

Nú er að opnast alveg nýr verðflokkur og markhópur kaupenda rafbíla, sem kalla mætti þriggja milljóna flokkinn, Má þar nefna tvennt: 

Áður hefur verið sagt frá því hér á síðunni að væntanleg er endurbætt gerð Volkswagen e-up (sá guli á mynd ) með allt að 36 kWst rafhlöðu, sem er byltingarkennt skref í flokki ódýrustu rafbílanna, því að drægnin tekur risastökk upp í vel yfir 200 kílómetra. VW e-Up! Hleðslustöð

En einnig er nú verið að skoða mögleika á að flytja inn rafbílana Smart Fortwo og Smart Forfour, sem myndu falla inn í þennan verðflokkl. 

Á þessu ári, 2020, verða nefnilega þau tímamót hjá Smart-bílaverksmiðjunni, að hætt verður að framleiða bensínknúna Smart bíla og aðeins verða framleiddir og seldir rafbílar. 

Bílaumboðið Askja hefur flutt inn einn bíl af gerðinni Smart Fourtwo til reynslu og sá síðuhafi hann fyrir tilviljun standa fyrir utan umboðið á rafbílarölti fyrir nokkrum dögum. Smart Fortwo rafbíll, inni í.

Mercedes Benz hefur verið aðal eigandi Smart verkmiðjanna frá upphafi og hyggst nýta þær á rafbílasviðinu. 

Smart Fourtwo hefur eins og er þá algeru sérstöðu meðal rafbíla að vera hinn fullkomni draumabíll ef ætlunin er að nota fjöldaframleiddan fólksbíl með full þægindi og öryggi stærri bíla í borgarþrengslunum, en vera samt svo stuttur, að komast jafnvel fyrir þversum í stæði. 

Þvermál beygjuhrings er gott dæmi um lipurð þessa stórskemmtilega borgarbíls, aðeins 7 metrar, þremur metrum minni en á flestum smábílum. Tilfinningin er svipuð og að verið sé að snúa bílnum í kringum afturhjólin á honum sjálfum, snúa á tíeyringi.

Meðalfjöldi um borð í bílum í innanbæjarumferð er rúmlega 1,1 maður. 

Á ferð á rafreiðhjóli frá Reykjavík til Akureyrar 2015 gafst færi á að skoða á um 20 km/klst hraða með afli hjólsins eingöngu, hve margir væru um borð í öllum bílunum sem mætt var. 

Yfir 80 prósent voru bara með einn um borð. 

Þetta sýnir hve mikið erindi fyrirferðarlítil farartæki eiga í borgarumferðinni.  

Síðuhafa gafst færi á að fara í stuttan reynsluakstur á bílnum, en hafði áður kynnt sér reynsluakstur bílasérfræðinga erlendis á Smart, líkt og reynsluakstur á Volkswegan e-up. 

Magnað er að setjast inn í þennan bíl og sitja í honum. Sætið er það hátt, að það er sest  beint inn í bílinn eins og á jepplingum, en ekki niður eins og á hefðbundnum fólksbílum. 

Þegar sest hefur verið niður er það líkast því að vera um borð í einhverjum af jepplingunum af millistærð, sem svo mikið selst af. 

Og það er víðáttu rými til allra átta, en af því að maður horfir bara fram á við en ekki aftur, sést alls ekki sá munur, sem fylgir því, að framsætin eru aftast í bílnum, rétt framan við afturhjólin.  

Hinn nýi Smart er í grunninn 20 semtimetrum breiðari en sá gamli var, og innanbreiddin er eftir því. 

Bíllinn er aðeins 1085 kíló að þyngd og vegna þess hve vel rafhreyfill skilar afli sínu og dreifir 160 Newonmetra togi jafnt yfir allt snúningasviðið, er aflið, 81 hestafl, feykinóg og upptakið afar skemmtilegt í þeim eina gír, sem rafbílar þurfa. 

Hröðunin 0-100 km/klst tekur aðeins 11,5 sekúndur og aflið og hraðasviðið yfirdrifið í bröttustu brekkunum austur fyrir fjall. 

Hámarkshraðinn getur verið 130 km/klst sem er langt yfir hraðamörkunu hér á landi. 

Eins og aðrir rafbílar er þessi bíll afar hljóðlátur og þægilegur á alla lund. 

Farangursrýmið er 260 lítrar en allt upp í 350 lítrar, ef allt rýmið er nýtt. 

Skemmtilegt er að hurðin í skutdyrum bílsins er tvískipt, og hægt að leggja niðri hlutann niður og gera úr honum borð eða sæti eftir atvikum. 

Þrátt fyrir að vera aðeins 2,69 m langur, stenst Smart Fortwo öðrum bílum alveg snúning hvað varðar árekstraöryggi, og er það mikill kostur, þegar um er að ræða svo örstuttan bíl. 

Hann er búinn skrikvörn í stöðugleikakerfi með tilliti til þess að hjólahafið er aðeins 1,87 metrar, en mikil sporbreidd gerir hann ágætlega stöðugan. Smart cabrio

Fjöðrunin er dálítið grunn og stinn eins og á sportbíl, enda tekur bíllinn mjög vel hraðar beygjur. 

Hægt er að fá hann í blæjubílsútfærslu, Smart cabrio, sem er um hálfri millu dýrari, en hlýtur það að vera haldur betur stuð í góðu veðri að aka slíku skemmtitæki. 

Slíkt er nefnilega lífsstíll! 

Af eyðslumælum bílsins mátti ráða, að hægt væri við sæmileg skilyrði að ná 124 km drægni á rafhlöðunum, samkvæmt WLTP mælingunni og fljótleg skoðun á möguleikum fyrir hraðhleðslu benti til, að það myndi taka allt að þremur stundum lengri tíma að aka honum frá Reykjavík til Akureyrar heldur en á rafbíl, sem kæmist af með eina hraðhleðslu á leiðinni. Sem sagt: 9 klst í stað 6. 

En bíllinn er fyrst og fremst hannaður fyrir borgarakstur og styttri ferðir út á land, - innan við 120 kílómetra radíus, þar sem ein hraðhleðsla innan við klukkustund nægir til aksturs fram og til baka. 

Eins og áður sagði, er meðal akstur bíla í innanbæjarnotkun rúmlega 30 kílómetrar, þannig að innanbæjarnot ættu að geta gengið áhyggju- og vandaræðalaust. Smart Forfour e  

Ef menn sækjast ekkert sérstaklega eftir einstökum lipurðar eiginleikum Smart Fortwo í umferðinni, er fyrir um 100 þúsund kall aukalega hægt að kaupa 80 sentimetrum lengri bíl, Smart Forfour, með rými fyrir fjóra of fernar dyr auk skuthlera. 

Sá bíll er á stærð við Volkswagen e-up, en með mun krappari beygjuhring. 

Þessi lengri bíll er boðinn með bensínvél undir heitinu Renault Twingo, en hönnun Smart og Twingo var samvinnuverkefni Benz og Renault.   

 

 

 


mbl.is Fjórtán fengu styrk fyrir hleðslustöðvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Burtséð frá trúarlegum kennisetningum og hindurvitnum eins og "kolefnisspori," og raunverulegum hagfæðilegum atriðum eins og kostnaði, þá eru öll vandamál tengd rafbílum heimskum fasistum að kenna.

Að þurfa að vera að troða þessu sérhæfða verkfæri uppá alla, óháð því hvort það hentar þeim eða ekki.

Það er alveg sama hve lítill og ódýr rafbíll verður, hann verður alltaf dýrari en eldsneytisknúinn.
Það verður alltaf vesen að hlaða hann nema menn búi í einbýli eða sambærilegu.  Að hlaða rafbíl í blokk er að rukka nágranna sem eiga ekkert nauðsynlega bíl fyrir þitt rúnt.  Sem er ekkert sanngjarnt.  Að ég tali nú ekki um spaugarana sem eiga til að kyppa bílum úr sambandi.
Allar ferðir úr bænum verða alltaf *one way* nema með framlengingarsnúru.
Hleðslustöðvum er *núna* ekki haldið við nema hipsum haps.  Svo ferð sem þú heldur að taki mest 9 tíma gæti tekið talsvert mikið lengri tíma.

Þetta verður alltaf annaðhvort bíll nr 2 hjá fólki sem á fullt af pening, eða aðalökutæki fólks sem er alveg sátt við að fara aldrei mjög langt.

Og það er allt í lagi.

Eins og önnur verkfæri hefur allt sína kosti.

Svona eins og skrúfur og naglar.  Í þessu tilviki er verið að koma öllum til að nota hnoð.

Það er verið að taka græju sem hefur fullt af augljósum kostum, og beita henni til að búa til allskyns vandamál fyrir fólk sem kemur hún ekkert einu sinni við.

Það er fyrir löngu orðið þannig að rafbíllinn er orðinn að vandamáli út af þessu.

Ásgrímur Hartmannsson, 22.1.2020 kl. 18:17

2 identicon

Ásgrímur Hartmannsson
1.  Sama hve lítill og ódýr rafbíll verður, hann er alltaf dýrari en eldsneytisknúinn.  (þú átt þá væntanlega við sambærilegan)
Eftir því sem verðið á rafhlöðunni lækkar og framleiðendur verða í meiri samkeppni þá lækkar verðið.  Manstu eftir fyrstu GSM símunum?  Kostuðu um 100 þús á sínum tíma.  EF þú trúir mér ekki þá er hér linkur.http://sustainableskies.org/total-operating-costs-batteries-included/
s
s Alltaf er full djúpt í árinni tekið hjá þér.  Eftir 5 ár verða flestir rafbílar vel samkeppnishæfir við verðið á ICE bílum.  T.d. Tesla cybertruk verður á um 10 milljónir hér með ofur afli og 800km drægni.
2.  Það verður alltaf vesen að hlaða.  Þú hefur ekki kynt þér lausnir sem margir bjóða upp á t.d. fyrir fjölbýlishús.http://faradice.com/
3
.  Allar ferðir úr bænum verða alltaf one way.  aftur cybertruk með hleðslu sem endist til allt að 12 klst aksturs.  Hver nennir að keyra svo legni.

Það verður alltaf einhver sem sættir sig ekki við að hugsa vel um umhverfið.  Passaðu bara upp á þig og ég upp á mig.  samann hreinsum við jörðina af dísel og bensín fnyk.

Þorfinnur P. Eggertsson (IP-tala skráð) 22.1.2020 kl. 20:10

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tek það ekki til mín að ég sé að rukka fólkið hér í blokkinni fyrir orkuna, sem ég nota á rafbílinn minn. Hann er tengdur beint inn í innstungu í geymslu íbúðarinnar, sem ég bý í, og ég borga skilvíslega mánaðarlega þá orku sjálfur, sem bíllinn tekur þaðan. Ég lagði sjálfur undir eftirliti löggilts rafvirkjameistara leiðsluna út í bílinn og borgaði efniskostnað í hana. Enn hefur enginn þurft að borga krónu fyrir það að bíllinn fái rafmagn.  

Ómar Ragnarsson, 22.1.2020 kl. 22:43

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því má bæta við varðandi stuld minn á stórum fjárhæðum frá samborgurum mínum, að aðeins þrisvar á síðustu tveimur árum hefur þessi sparneytnasti rafbíll á Íslandi fengið straum í nokkrar klukkustundir annars staðar en úr innstungunni í geymslunni minni.

Tvisvar í Borgarnesi og einu sinni í Hveragerði og borgað fyrir það í öll skiptin. 

Að meðaltali eyðir þessi bíll um 10 kílóvattstundum á hverja hundrað kílómetra, eða um 100 kílóvattstundum á mánuði. 

Straumurinn um rafleiðsluna þær nætur, sem hann er í hleðslu, er 1 kílóvatt, eða sem sem svarar því að 5 200 vatta ljósaperur loguðu þar þá nóttina. 

Það er nú allt bruðlið. 

Ómar Ragnarsson, 22.1.2020 kl. 22:58

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Skýrara: Fimm 200 vatta ljósaperur. 

Ómar Ragnarsson, 22.1.2020 kl. 23:01

6 identicon

Sælir félagar.

Þorfinnu P. Eggertsson.

"Eftir því sem.."

"Eftir 5 ár...."

"Tesla Cybertruck verður..."

 Þegar og ef, eru fín áform og hugmyndir, satt er það.

En ég þarf bíl í dag, eitthvað sem ég hef efni á að kaupa og reka.

Eitthvað sem kemur mér á milli staða núna, en ekki eftir 5 ár.

Satt hja ykkur, að það er margt gríðarkega sniðugt við bíla með rafmótor, ég er búinn að skoða kaup á slikum síðan á seinstu öld, og prufað þá ófaa.

Rafhlöðutegundir fyrir rafbíla hafa komið, og farið. 

Verð á nýjum rafknúnum bíl er langt fyrir ofan mína kaupgetu.

Árið 1986 las ég bók sem var gefin út á íslensku, árið 1968.

Sú bók var gefin út af AB bókaforlaginu, ef ég man rétt og hét "ORKAN".

Bróðir minn átti umræddan bókaflokk uppi í hillu.

Í lokakafla þar, var fjallað um kjarnorku, kosti og galla.

Ein setning í þem kafla situr enn í minni mér.

Held að þetta sé orðrétt tilvitnun, frá arinu 1968.

" Árið 1985 er vonast til, að litlar kjarnorkusprengjur verði notaðar við stærri framkvæmdir" 

Þarna var verið að vitna til að menn hefðu fundið leið til að ráða við og hudra geislun af völdum slikra sprenginga.

Í dag er árið 2020, og hvar stöndum við, varðandi kjarnorkusprengingar og stórframkvæmdir ?

Rafmotor er eflaust einhver besti mótor í frjáls faratæki í dag, en geymsla orkunnar er mikið vandamál, sem hindrar langdrægni.

Ég vil veðja á vetni, sem orkubera, en því miður haf ekki verið byggðir upp innviðir fyri vetnisrframleiðlsu hérlendis, þó nóg sé til af bæði raforku og vatni.

Kveðja,

Heimir H. Karlsson.

Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 23.1.2020 kl. 10:47

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nokkrar tölur varðandi tímann, sem það tekur að tappa orku á tóman orkugeymi farartækis, þar sem það stendur við orkugeyminn, sem tappað er af: ( Miðað er við fullkomna tölvutækni, þar sem notað er sérstakt app á snjallsíma kaupandans ) 

1. Rafknúið léttbifhjól:      6 sekúndur. 

2. Bíll af meðalstærð, knúinn eldsneyti: ca 60 sekúndur ( 1 mínúta )  

3. Vetnisknúinn bíll:          180 sekúndur  ( 3 mínútur) 

4. Rafknúinn bíll:              1800 sekúndur ( 30 mínútur) 

Í undirbúningi er möguleiki á talsverðri styttingu tímans hjá rafbílnum, en engu að síður verður tíminn varla styttri en 15 mínútur. 

Fiat er að fitla við tilraunabíl, með útskiptanlegum rafhlöðum, sem bjóða upp á að sérstakt vélknúið sjálfvirkt skiptikerfi verði hannað í bílnum og orkugeymakerfinu. ( Ansi mikil framtíðarmúsík)    

Ómar Ragnarsson, 23.1.2020 kl. 16:42

8 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Fróðleikur:

Til að aka 2000 kg rafmagnsbíl (Tesla 3) 500 km þarf meira en 75 KWh 

Það tekur meira en 6 klukkustundir að hlað 75 KWh á  400V 32A tengingu. 400V/32A er það sem er allmennt í boði á stærri staurum borgarinnar og það stærsta sem sett er upp við heimili. Tesla 3 kemst um það bil 40 km eftir hálftíma hleðslu á slíkum staur. Á almennum hraðhleðslustöðvum sem eru mest 400V/150A er hægt að komst nærri 200 km á hálftíma hleðslu.

Hér skiptir máli að skilja að hleðslutími rafmagnsbíla takmarkast ekki af tækni eða gerð hleðslustöðva að battería heldur af stærð tenginganna sem hleðslustöðvarnar eru á. 

Til að aka 1200 kg bensín sportbíl 500 km þarf minna en 50 lítra af bensíni. Og það tekur um 60 sekúndur að dæla því á bílinn á gamaldags bensínstöð.

Guðmundur Jónsson, 24.1.2020 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband