Erlendum gagnrýnanda var ráðlagt 2008 að fara í endurmenntun.

Það hefur löngum verið gripið til þess ráðs til að þagga niður í gagnrýnendum á sviði efnahagsmála að tala niður til þeirra til að gera lítið úr gagnrýnininni. 

Fyrir bankahrunið íslenska haustið 2008 höfðu margar aðvörunarraddir innan lands og utan komið fram varðandi það að það stefndi í óefni í íslenskum efnahagsmálum. 

Viðbrögðin við þessu voru á eina lund hjá íslensku ráðamönnum varðandi það að gera lítið úr þessum ábendingum.  

Auðveldast var að segja, að þær væru byggðar á öfund útlendinga í garð Íslendinga, en líka var reynt að gera lítið úr þeim, sem báru þessar aðfinnslur fram. 

Þótt gríðarlegt gengisfall krónunnar veturinn 2007 til 2008 blasti við, var sagt við gagnrýnendur á Alþingi: "Sjáið þið ekki veisluna?"

Og einn ráðherranna ráðlagði þekktum erlendum gagnrýnanda að fara í endurmenntun. 

Þótt nú blasi við öllum sú staðreynd, að olían, helsta auðlindin, sem knýr áfram neyslukapphlaup jarðarbúa auk fleiri auðlinda, mun fara þverrandi á þessari öld, og það þurfi engan sérfræðing til þess að sjá hvernig stefnt er að feigðarósi varðandi rányrkju á auðlindum jarðar og hratt vaxandi koldíoxíði í lofthjúpi og súrnun sjávar, er það þrautaráð fjármálaráðherra Bandaríkjanna að gera lítið úr Gretu Thunberg með því að núa henni fáfræði um nasir og ráðleggja henni að læra meira. 

Er það gamalkunnug hlið á þeirri aðferð í rökræðum að hjóla í manninn en ekki málið.  


mbl.is Sagði Thunberg að læra hagfræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Olía er ekki endurnýjanleg auðlind. Og meðan einhver olía er notuð stefnir í að hún klárist. Hvort það verður á þessari öld, þeirri næstu eða þarnæstu get ég ekki séð að skipti nokkru máli.

Ef við hættum að nota olíu þá hættir hún að vera auðlind. Það hvort við hættum að nota hana núna eða þegar hún klárast breytir engu í þeim efnum. Einn góðan veðurdag munum við hætta að njóta lífsgæðanna sem olían færir. En meðan við notum hana þá skapar hún auð, bætir efnahag og eykur lífsgæði eins og auðlindir gera. Olían er bara sú auðlind sem mestu áhrif hefur á allt okkar líf.

Hættum við að nota olíu verðum við að finna eitthvað annað sem nota má til að knýja farartækin og smíða farartækin. Önnur efni í vindmillurnar, rafmagnsfjöltengi, tæki og snúrur, málningu, dekk, mjaltavélar, sjónvörp, farsíma, rafgeyma, skófatnað, húsgögn og fleira, og fleira, og fleira. Og það verður að vera í svipuðu magni, á svipuðu verði, ekki menga meira og ganga ekki á fæðuframboð. Það er ábyggilega mögulegt en það skeður ekki á nokkrum árum.

Vagn (IP-tala skráð) 23.1.2020 kl. 21:52

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eftir því sem olían eyðist sést nánar, hve mikið er eftir af henni, ekki aðeins hvað magn snertir, heldur líka hvað snertir hagkvæmni vinnslunnar. 

Olían er notuð á það margan hátt, að það borgar sig að reyna að stýra minnkun á notkun hennar og hægja hrapinu, svo að hægt verði að nýta hana í svo margt annað en hreina bruðlneyslu í brennsluhólfunum, til dæmis í alls konar tæki, þar sem notkun hennar veldur ekki usla í lofthjúpnum og hafinu. 

Ofan á margt annað sem misgert er í mannheimum er það óréttlátt að langafabörnin, sem nú eru að byrja að koma í heiminn í "þriðju bylgjunni" og eiga vonandi eftir að lifa fram á 22. öldina og leggja grunn að seinni kynslóðum, þurfi að líða fyrir kæruleysi núlifandi jarðarbúa. 

John F. Kennedy sagði í frægri ræðu: "Við lifum öll á sömu jörðinni og öndum að okkur sama loftinu", en hefði getað bætt við og sagt Og þá á lika eftir að eiga við alla afkomendur okkar svo lengi sem land byggist."  

Ómar Ragnarsson, 24.1.2020 kl. 00:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband