"Snjóboltatrix" frekar en alhliða rannsóknir og niðurstöður.

Eitt þekktasta atvikið í deilunni og rökræðunni um hlýnun loftslags á jörðnni að mannavöldum var það, þegar einn þingmanna á Bandaríkjaþingi kom á þingfund að vetrarlagi með snjóbolta í hendi, kastaði honum á gólfið og sagði þennan snjóbolta vera sönnun þess, að loftslag væri alls ekki að hlýna, heldur þvert á móti að kólna. 

Svipað hefur oft verið notað af skoðansystkinum þessa manns, að leitað hafa verið uppi tölur eða aðstæður, sem eiga að sanna, að það sé ekki hlýnun í gangi, heldur kólnun, en aðferðin líkust því sem segir í vísunni um lastarann, í þessu tilfelli lastara loftslagsvísindamanna; "finni´hann laufblað fölnað eitt / fordæmir hann skóginn."  

Tvö góð dæmi hefur mátt sjá í tveimur Morgunblaðsgreinum, þar sem í báðum eru birtar tölur úr mælingum á sjávarhita og lofthita á völdum mælistöðum á Íslandi og sagt að þær sýni glögglega hverjar hinar raunverulegu staðreyndir séu, engin markverð hlýnun, heldur jafnvel kólnun.  

Tökum fyrst skyldleikann við snjóboltann á Bandaríkjaþingi, stærð jarðarinnar annars vegar og Íslands hins vegar. 

Flatarmál jarðar er 511 milljón kílómetrar, en flatarmál Íslands 0,1 milljón. Ísland er einfaldlega einn fimmþúsundasti hluti af hnettinum. 

Jafnvel þótt svæðið sem Ísland feli í sér landhelgina, er það langt innan við eitt prósent af flatarmáli allrar jarðarinnar. 

Og að sjálfsögðu er ástand lofthjúpsins mælt með því að nota mælitölur frá mörg þúsund mælistöðvum um alla jörð notaðar í heild til að finna út heildarástand lofthjúpsins.  

Á öllum tölvulíkönum, sem síðuhafi hefur séð af hita lofts á jörðinni, hefur mátt sjá tvo til þrjá "ljósbláa fleti" inni í misrauðum loftmössum jarðarinnar. 

Annar rétt fyrir suðvestan Ísland en hinir hinu megin á hnettinum. 

Það hlýnar sem sagt ekki jafn mikið alls staðar. 

Til víðbótar snjóboltatrixinu í þessum tveimur blaðagreinum, eru þessar afmörkuðu og sérvöldu tölur ansi mikið afbakaðar í útskýringum og notkun á þeim.  

Í fyrri greininni er það sett upp sem stórletrað aðalatriði greinarinnar, að íslenskir jöklar hafi gengið fram á árunum 1965 til 1990. 

Þar með er alveg skautað yfir þá staðreynd að jöklarnir hafa í heild rýrnað og minnkað í meira en öld.  

Framhlaupsjöklar svonefndir hlaupa oftast með ákveðnu árabili án beins sambands við veðurlag. 

Af þeim toga eru til dæmis framhlaup Brúarjökuls á miðjum kafla hlýrra ára 1934 og Síðujökuls upp úr 1990. 

Í stað þess að nota ævinlega árshitatölur í blaðagreinunum, er það aðeins gert einu sinni, en annars hyllst til að nota sumarhitatölur, og á línuriti yfir hita, sem sagt er sýna kólnun, blasir greinilega við öllum, sem það vilja sjá, að tímabilið með hæsta hitann hefur verið frá því um síðustu aldamót. 


mbl.is Yfir 20 stiga hiti mældist á Suðurskautslandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Nyrsti oddi Suðurskautslandsins er á u.þ.b. 63. gráðu suðlægrar breiddar. Reykjavík er á þeirri 64. norðlægrar. Einstök dæmi um afbrigðileg hlýindi geta trauðla leitt af sér þá niðurstöðu að Suðurskautslandið sé að bráðna, sökum hamfarahlýnunar af mannavöldum og veröldin sé að sökkva í sæ á sumum stöðum og steikjast á öðrum.

 Ef raunverulegur vilji er fyrir því af allra hálfu, að minnka mengun og sóun, væri sérdeilis ágætt ef fullyrðingaflaumnum linnti. Það er enginn einn sannleikur til um veðurfar á jörðinni. Hitastig fer hækkandi um brot úr gráðu á hundrað árum og allt ætlar um koll að keyra. 

 Getur verið að pólitískir loddarar sem glatað hafa öllum sínum málstað, sem yfirleitt er er haldinn vinstri halla sósíalismans, hyggjist ná vopnum sínum á ný, með glórulausti hamfarahlýnunarumræðu, í stað glataðs málstaðar? Kvelja lýðinn með umhverfisskörtum andskotans, í stað Gulagsins eða dvöl á geðveikrahæli, sökum skoðana sinna?

 Ekki það að takmarkalaus kapítalismi sé neitt betri, en í öllu moldviðrinu gleymist sú einfalda staðreynd að við eigum aðeins eina jörð og hún þarf að endast okkur um aldir alda. Að henni ber að hlúa með öllum tiltækum ráðum.

 Meðan rifist er um orsök og afleiðingu, fitna svínin á sundurlindinu. Ekki gleyma því gott fólk. ´´Allir skulu jafnir, en sumir jafnari en aðrir´´ (sögðu svínin)

 Þar fara fremstir hugsjónageldir stjórnmálamenn og heildsalar mengunarkvótanna.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 18.2.2020 kl. 01:17

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Kvelja lýðinn með umhverfissköttum andskotans...átti þetta nú að vera í þriðja parti.

 Sömu góðu kveðjur að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 18.2.2020 kl. 01:23

3 identicon

https://notrickszone.com/2020/02/17/is-all-time-antarctic-20-75c-record-high-temperature-just-a-sensational-hoax-station-data-show-only-16c/

Elló (IP-tala skráð) 18.2.2020 kl. 10:25

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sæll. Ef maður les vel tengdu fréttina, eru gerðir ýmsir fyrirvarar varðandi það að detta ekki í snjóboltagryfjuna og lesa of mikið út úr nefndum mælingum. 

Málið snýst í heild um það að jarðarbúar sem heild séu ekki að fikta stjórnlaust og af fullkomnu gáleysi í ástandi jarðar, auk þess sem það blasir við að jarðefnaeldsneyti eins og olía eru óendurnýjanlegar auðlindir og að það eitt og sér er ástæða til þess að sýna aðgát. 

Ómar Ragnarsson, 18.2.2020 kl. 11:51

5 identicon

Síðustu milljón ár hafa ísaldir komið á 100.000 ára fresti og vissulega hlýnað þess á milli. Mishratt og mismikið. Núna hafa hins vegar ýmsir bissniss- og eða stjórnmálavætt þessa gömlu vitneskju. Þessi gamla vitneskja skyggir hins vegar, og því miður, hinn ægilega sóðaskap mannsins og spillingu lífríkis jarðar. Haldnar eru stórfenglegar samkomur þar sem talað er um hvernig maðurinn á að breyta hitastigi jarðar! Lítið er hins vegar minnst á það sem ég nefndi hér að ofan - og enn síður er rætt um (opinberlega a.m.k.) hina hrikalegu mannfjölgun sem jörðin ber ekki í dag hvað þá eftir einn mannsaldur.

Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 20.2.2020 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband