20.2.2020 | 23:01
"Fljúgandi Finnarnir" stökkva iðulega enn lengra en James Bond."
Alveg fram á okkar daga hefur meirihluti vegakerfisins í Finnlandi verið malarvegir.
Að flestu leyti er slíkt bagalegt, en að einu leyti skapaði þetta heimsfrægð hinna "fljúgandi Finna", sem fóru margsinnis á flug á rallbílum sínum með því að aka um öldótt landslagið sem hinir frumstæðu vegir lágu um.
Það lék ljómi um nöfn eins og meistarana Marku Alen, Toivonen, Ari Vatanen og Hannu Mikkola, en ævinlega hafa Finnar líka átt djarfa og hugrakka ökumenn, sem skapa spennu og æsing í kringum sig, sýna ævintýralega takta, en lenda líka í mögnuðum hamagangi og áföllum.
Nafn Jari-Matti Latvala kemur þar til dæmis í hugann. Latvala hefur fjórum sinnum borið sigur úr býtum í eina vetrar/snjórallinu í HM í rallakstri, Sænska rallinu, en varð að hætta í rallinu núna á 7. sérleið vegna bilunar.
Það var ógleymanlegt fyrir síðuhafa að taka þátt í HM keppninni þar 1981, og sjá má á Youtube smá myndbrot af Latvala á æfingu fyrir rallið núna, sem gefur smá hugmynd um loftköstin í því ralli. 136 bílar tóku þátt í keppninni þá, og okkur bræðrum tókst að komast í mark í 66. sæti.
Í röllum hinna bestu á heimavelli í Finnlandi eins og hinu árlega HM-ralli, sem lengi hét Þúsund vatna rallið en heitir nú Finnlandsrallið, eru sumir vegakaflar merktir með 10, 20, 30 og 40 metra merkjum, þar sem þeir lenda, sem fljúga fljúga hæst og lengst.
Þetta eru þekktir staðir og alvöru flug, án nokkurra tæknibrellna í myndatöku í viðurvist þúsunda áhorfenda iðulega lengra en þá 30 metra sem hinn nýi Landrover Defender mun sjást fara í nýrri James Bond mynd.
Síðuhafi átti þess kost 1986 að taka þátt í sparaksturskeppni, sem hófst og lauk í Mekka finnsks rallaksturs, Jyveskila.
Finnland er ekki fjöllótt, en á stórum svæðum liggja malarvegirnir um hæðótt og öldótt landslag þar sem stundum er hver blindhæðin af annarrri með mismunandi beygjum hver.
Í sparakstrinum var að vísu keppt í því að fara sem sparlegast með bensínið og að engu óðslega, en engu að síður var afar gefandi að aka suma malarkaflana, sem þekktir eru í finnskum röllum og ímynda sér hvernig það væri að vera taka hverja beygjuna og hæðina af annarri á hámarkshraða þar sem rytminn skiptir öllu og það að láta bílana fljúga þannig, að þeir komi alltaf flatt og rétt niður úr hverju blindflugi á hárréttum stað og með stýri og bensíngjöf nákvæmlega stillta til að spóla sig út úr lendingunni.
Á þeim myndskeiðum á Youtube, þar sem slíkt er sýnt, er hrein unun að sjá hið ótrúlega vald sem bestu finnsku snillingarnir hafa yfir listasmíðuðum keppnisbílum sínum.
Fékk það óþvegið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.