Því ríkara samfélag, því meiri missir þess, sem ekki var til fyrir 75 árum.

Spænska veikin drap fleiri en féllu í Fyrri heimsstyrjöldinni, tugi milljóna manna á ferli sínum um löndin. Dánarhlutfallið var margfalt hærra en það virðist ætla að verða í COVID-19. 

Nú flýtur um fjölmiðla stórfljót frétta af missi hluta og þæginda, sem fólki finnst ómissandi. 

En fróðlegt gæti verið að bera það allt saman við aðstæður, tæki, varning og umsvif fólks fyrir 75 árum, en margir eru lifandi sem muna vel tímana árin eftir að Seinni heimsstyrjöldinni lauk. 

Allar helstu nauðsynjavörur, svo sem matvörur, voru skammtaðar eftir stríðið og þegar verslanir fengu varning, sem hafði verið ófáanlegur í langan tíma, mynduðust langar biðraðir. 

Nánast algert innflutningsbann ríkti á bílum frá 1948-1955. Ekkert sjónvarp var, engir farsímar, engar tölvur.  Ekkert innanlandsflug var á Íslandi fyrr en að það tók að þróast hægt og bítandi eftir stríð.

Ef fólk þurfti að fara til útlanda varð að fara með skipum. Í kringum 1950 tók heilan sólarhring að aka torleiðið frá Patreksfirði til Reykjavíkur. Hringleið um landið opnaðist ekki fyrr en 24 árum síðar. Norðurleiðarútan var 12 tíma milli Reykjavíkur og Akureyrar, sem þá var 480 kílómetra löng og meðalhraðinn á leiðinni 40 km/klst. 

Meirihluti gatna í Reykjavík voru malargötur og allir þjóðvegir landsins voru mjóir, krókóttir malarvegir, stór hlutinn bara ruddir slóðar.

Avextir voru aðeins fluttir inn um jólin. 

Ekkert löglegt íþróttahús fyrir handbolta var til á landinu og landsleikir í knattspyrnu voru leiknir á frumstæðum malarvelli. 

Símar voru ekki almenningseign fyrir 75 árum og enginn sími á hundruðum bæja um allt land, hvað þá rafmagn.  Heldur ekki heimilistæki eins og kæliskápar og uppþvottavélar. 

"Hvíti dauðinn", berklar, lagði fólk á öllum aldri í gröfina í þúsunda tali. Mænuveikifaraldrar voru skæðir, enda engin lyf til við mænuveiki þá. 

Ríkisútvarpið, eina útvarpsrásin, var aðeins í gangi hluta úr degi. Þrátt fyrir nær algeran skort á skemmtiefni í útvarpi og ekkert sjónvarp, undi æskan sér vel í leikjum utan dyra, sem lítill skortur var á, þegar uppfinningasemi og æskufjör skópu endalausa möguleika á sjálfsprottnum leikjum. 

Í dagbókum síðuhafa frá þessum tíma sést, að krakkar voru í þessum útileikjum alveg fram á 15 til 16 ára aldur. 

Svona gæti upptalningin verið óralöng á því sem ýmist skorti eða var ekki til. Samt minnist síðuhafi ekki þess, að þessi ár hafi verið eins óbærilega erfið og leiðinleg og virðist líklegt í augum nútímafólks. 

Fyrir flestum, sem þá ólust upp, voru æskuárin ljúf og yndisleg. 

Það gæti verið hollt fyrir okkur að leiða hugann að því nú. 

Og leiða líka hugann að því að hvort sem hér er farsótt á ferð eða ekki, skuli þúsundir, jafnvel tugþúsundir fólks, búa áratugum saman við óviðunandi sárafátækt mitt í öllum uppsveiflunum.   

 


mbl.is Heil öld frá viðlíka ógn og veirunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég undi mér vel við það, fyrir 80 árum, að leika mér með leggi og kindakjálka. Ég minnist þess að einhverju sinni komu ókunnir hundar og ætluðu að taka kjálkana, en þá kom  Vígi, hundurinn okkar sem gat verið grimmur, réðst á þá og hrifsaði þá af þeim.

Nú leika litlu börnin sér víst með snjallsíma. Má vera að það sé uppbyggilegra, um það get ég ekki dæmt.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 17.3.2020 kl. 18:59

2 identicon

Mælikvarðinn sem notaður er til að mæla fátækt er þeim töfrum gæddur að hlutfallið er ætíð það sama. Í dag er sama hlutfall þjóðarinnar fátækt og var fyrir 75 árum síðan, og eftir 75 ár mun hlutfallið ekkert hafa breyst. Svipað er um framfærsluviðmiðin, eða neysluviðmið eins og það heitir réttu nafni. Það er tala sem segir hvað miðgildi útgjalda er. Sem þýðir að kaupi fólk meira þá hækkar talan. Hún segir ekkert um hvað þarf til að framfleyta sér, aðeins hvert miðgildi útgjalda er. Á óvissutímum gæti almenningur tekið upp á því að fækka utanlandsferðum og draga úr því að kaupa nýja bíla. Þá lækkar talan sem hefur verið kölluð framfærsluviðmið þó kostnaður framfærslu hafi ekkert breyst. Og nú á tímum COVID-19 má einmitt búast við því að talan lækki því fólk bruðli minna og haldi að sér höndum, jafnvel þó nauðsynjar hækki og því kostnaður framfærslu. Það virkar oftast illa að nota tommustokk til að mæla hita.

Það er ekkert nýtt að fólk sjái æsku sína í einhverjum rósrauðum sólheimabjarma hamingju og gleði. Enginn man þegar aðal umræðuefnið var hvað krakkarnir ætluðu að gera þegar þessari áþján æskunnar linnti. Enginn man rigningadagana og að vera blautur og kaldur eftir gönguna í skólann og verkina eftir að frostið fékk að leika um eyru og fingur. Að brjóta ljósaperur, stúta rúðum og kveikja í ruslatunnum sér til skemmtunar. Og pína minni krakka og hrekkja gamalmenni og fyllibyttur í óbærilegum leiðindunum. Nei, allir voru sælir og glaðir, sól á sumrin og nýfallin mjöll á veturna, fallin spýta, heitt súkkulaði og parís.

Vagn (IP-tala skráð) 18.3.2020 kl. 01:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband