30.3.2020 | 12:02
Fengu margir Íslendingar COVID-19b í fyrra?
Ef til hefur verið "eineggja tvíburi COVID-19 veirunnar" hér á landi fyrr í vetur eins og þingmaður orðaði það í fyrirspurn til heilbrigðisráðherra, mætti kannski gefa henni heitið COVID-19b.
En um hana mætti kannski segja svipað og gert var í eftirför Barkar hins digra eftir Gísla Súrssyni til Hergilseyjar, þar sem Gísli fór í föt Ingjaldsfíflsins svonefnda á báti frá eynni og þóttist vera fíflið þegar leitarmenn sigldu framhjá bátnum.
En þegar leitarmenn sáu Ingjaldsfíflið í lautu að bíta gras við leit í Hergilsey, mælti Börkur: "Bæði er nú mikið sagt frá fíflinu Ingjalds, og deilist það nú víðar en við hugðum."
Síðuhafi hafði aldrei farið í flensusprautu síðustu 25 ár, aldrei fengið flensu allan þann tíma og var með engan veikindadag í vinnunni síðustu 12 árin.
Síðan gerðist það fyrir ári að illyrmisleg flensa barði að dyrum og endaði það með lungnabólgu og lungnabólgusprautu.
Skýringin virtist einföld: Þrátt fyrir samfelldar þrek- og þolæfingar fyrir lungun öll þessi ár var hugsanlegt að ónæmiskerfið hefði slaknað eitthvað á þessum langa tíma, auk þess sem aldurinn hefði sitt að segja.
Nú spretta hins vegar fram kenningar á hinu háa Alþingi um að veikin COVID 19b hafi verið að deilast víðar en menn hugðu.
Spurði um eineggja tvíbura COVID-19 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er CCP-Vírusinn, ásamt góðri fúlgu af peningum frá Peking ... sem eru orsökin.
Örn Einar Hansen, 30.3.2020 kl. 14:26
Skimanir ÍE sýndu að um 1% þjóðarinnar gætu verið smituð. En hversu margir kunna að hafa smitast áður og orðið ónæmir höfum við ekki hugmynd um.
Það er eiginlega hálf fáránlegt að ekki sé enn búið að rannsaka almennilega hver raunverulega útbreiðslan er.
Þorsteinn Siglaugsson, 30.3.2020 kl. 17:03
Á tímum hundraða þúsunda flugvéla með milljónier farþega þvers og kruss um hnöttinn á hverjum einasta degi hlýtur að vera möguleiki á víðtæku smiti.
Ómar Ragnarsson, 30.3.2020 kl. 20:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.