3.4.2020 | 19:09
Linnulítill sýndarveruleiki valdamesta manns heims.
Strax á fyrsta degi í embætti staðhæfði nýr handhafi valdamesta manns heims að aldrei í sögu Bandaríkjanna hefðu fleiri verið samankomnir í innsetningarathöfn þar í landi, og miklu fleiri en við innsetningu næsta forseta á undan, Barack Obama.
Atöfnina mátti sjá í beinni útsendingu sjónvarps um allan heim og bera mannfjöldann saman við mannfjöldann fjórum árum fyrr, og í ljós kom, að aðeins einn maður, Donald Trump, sá það sem allir aðrir sáu, að innsetningarhátíð Trumps var alls ekki sú fjölmennasta í sögunni.
Þetta hefði þó varla átt að koma þeim á óvart, sem hafa kynnt sér vel æviferil forsetans, því að það er eins og rauður þráður hjá honum að hann virðist lifa í sýndarveruleika og trúa tálsýnum sínum sjálfur.
Í ævisögunni segist hann hafa unnið frækinn sigur í öllum sínum mörgu gjaldþrotamála, og eftir að hann var forseti liggur stanslaus yfirlýsingaflaumur hans um að hann sé yfirburðamaður á nánast öllum sviðum og langmerkasti forseti Bandaríkjanna allt frá dögum Abrahams Lincolns.
Það dró ekki úr bjartsýni forsetans að hann hafði verið kosinn forseti þrátt að hafa fengið næstum þremur milljónum atkvæða en mótframbjóðandinn. Það virtist sýna honum þvert á móti, að það væru líkast til engin takmörk fyrir því hvernig hann væri hinn óhaggandi sigurvegari í hvaða máli sem væri..
Rakið hefur verið nokkuð skilmerkilega hvernig sýndarveruleiki forsetans í COVED-19 málinu var alger vikum saman alveg fram undir miðjan mars í stórkarlalegum yfirlýsingum hans.
Í samræmi við það hve Bandaríkin væru mikilfengleg á alla lund, sagði hann að það væri engin hætta á því að farsóttin, sem léki önnur og lakari þjóðfélög grátt, myndi valda neinum vandræðum vestra, heldur yrði hún ósköp meinleysisleg innan lands í hinum mikilfenglegu Bandaríkjum.
Svo sannfærður virtist hann um þetta, að þegar hann setti síðan flugbann á Kína og Evrópusamdbandið að undanteknu Írlandi og Bretlandi, gilti bannið bara um ferðir útlendinga til Bandaríkjanna, en hvorki um ferðir Bandaríkjamanna sjálfra til eða frá landinu.
Á þeim tímapunkti virtist forsetinn enn ánægður með það hvernig hann myndi geta glansað í gegn á alla lund fram að kosningum sem yfirburða leiðtoginn, sem gæti uppfyllt loforðið "to make America great again."
Þótt seint og um síðir hafi hann orðið að viðurkenna stöðuna með semingi, heldur Trump áfram að vera öryggið og sjálstraustið uppmálað í framkomu sinni.
Sundrung eða samstaða framundan? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Trumpofobían þín Ómar minn er farin að valda mér áhyggjum. Verðurðu ekki að fara að reyna að skilja umfang embættisins sem kallinn er með á herðunum? Maðurinn er alltaf ófullur eins og þú og reynir sitt besta eins og þú.
Er hann nokkuð vitlausari en þú?
Halldór Jónsson, 3.4.2020 kl. 22:47
Miðað við vald og visku Trumps skipta vitsmunir mínir engu máli. Það er erfitt að komast hjá því að sjá hvernig hann sjálfur með linnulausu tísti og yfirlýsingum viðheldur meiri athygli hjá heimsbyggðinni en allir aðrir til samans, enda er farsóttin á því róli vestra að það yfirskyggir flest þessa dagana.
Ómar Ragnarsson, 3.4.2020 kl. 23:38
Hann er líka í sambærilegu hlutverki og Churchills var sem var að stjórna öskrinu þegar þjóðin þarf á ljónshjartanu að halda.
Reyndu að skilja manninn Ómar minn sem slíkan.Hann var kosinn og hann er að reyna að standa sig sem best hann getur.
Halldór Jónsson, 4.4.2020 kl. 02:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.