Ekki aðeins spurning um gallaða vöru til Rio Tinto, heldur líka til annarra orkukaupenda..

Þegar aðstæður versna varðandi samningsbundin vörukaup og afhendingar vörunnar, má alltaf búast við því að kaupandinn fari að skoða, hvort varan standist þær gæðakröfur, sem gerðar eru í samningnum. 

Þar er ekki bara um bókhaldsbrellur að ræða varðandi upprunavottorð, eins og orkufyrirtækin hér hafa stundað, einkum Landsvirkjun, heldur lika þær fullyrðingar að orkan sé hrein og endurnýjanleg, þegar þvert á móti liggur fyrir að um rányrkju er að ræða eins og stunduð er á háhitasvæðum á Reykjnesskaga, allt frá Nesjavöllum út á Reykjanestá. 

Í viðtölum við forstjóra Landsvirkjunar vegna umfjöllunar Kveiks um upprunavottorðin, var í fyrstu ekki hægt að þræta fyrir hvað stæði skýrum stöfum um að orkan væri í krafti brasks með vottorð komin frá kolum og kjarnorku, enda fyrirtækið að græða milljarða á braskinu, en í síðasta viðtalinu upplýsti forstjórinn, að búið væri að má þessar upplýsingar út og þar með væri allt í lagi!  

Sem sagt; að eiga kökuna áfram eftir að hafa étið hana! 

Seljendur orku gufuaflsvirkjana hafa alla tíð selt vöruna sem eðalgræna, og kaupendurnir hafa keypt hana í þeirri trú að það væri rétt, því að þá geta þeir selt endanlega vöru dýrara en ella, en hætt er við að erfitt verði að beita svipuðum aðferðum og gert hefur verið varðandi upprunavottorð Landsvirkjunar ef fyrirtækin á Grundartanga fara á stúfana eins og Rio Tinto er að gera. 

 


mbl.is Óviss framtíð álversins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Kaupandinn þarf nú væntanlega að sýna fram á tvennt. Í fyrsta lagi að merkimiði um uppruna orkunnar sé yfirleitt eitthvað sem er tilgreint í samningnum. Í öðru lagi að hann hafi orðið fyrir einhverju tjóni vegna upprunavottorðsins.

Þorsteinn Siglaugsson, 7.4.2020 kl. 11:05

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Andlegt áfall er tjón.  Að vísu frekar huglægt en áþreifanlegt. Hinn almenni neytandi hafði ekki hugmynd um þessa aflátssölu Landsvirkjunar fyrr en tölurnar fóru að birtast á raforkureikningum heimilanna, líklega fyrst árið 2013. Neytandinn er nefnilega ekki aðeins kaupandi heldur eigandi líka.

Kolbrún Hilmars, 7.4.2020 kl. 11:35

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Auðvitað skiptir máli fyrir þann sem kaupir hráefnið, sem framleitt er með orkunni, hvort upprunninn, orkan sjálf, sé græn, það er, hrein og endurnýjanleg. 

Þessi kaupandi selur nefnilega hráefnið til þriðja aðila, sem borgar hærra verð fyrir efnið, ef það er með grænan uppruna. 

Nú er fjalað um það í fréttum, að Rio tinto er samt við sig og setur sem skilyrði fyrir samningum við starfsfólkið hjá álverinu, að breyttir samningar náist við Landsvirkjun. 

Hótun um að loka áverinu er ekkert nýtt, því að því var óspart hótað þegar greidd voru atkvæði um það í Hafnarfirði 2007, hvort leyfa ætti stórfellda stækkun álversins. 

Því var hafnað í atkvæðagreiðslunni, en þrátt fyrir kreppuna 2008 var hótunin ekki framkvæmd. 

Ómar Ragnarsson, 7.4.2020 kl. 18:28

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ef samningurinn kveður á um uppruna orkunnar getur kaupandinn mögulega átt kröfu. Og hann þarf þá að sýna fram á tjón.

Kveði samningurinn ekki á um upprunann á kaupandinn ekki kröfu. Og kveði samningurinn á um hann, en ekki sé hægt að sýna fram á tjón getur hann heldur ekki gert kröfu. Ekki mikið flóknara en það.

Ég hef ekki hugmynd um hvort kaupandi framleiðslunnar greiðir hærra verð ef orkan sem notuð er kemur frá vatnsafls- eða jarðvarmavirkjunum. Það er alveg hugsanlegt, en ég myndi ekki fullyrða það nema ég vissi það.

Þorsteinn Siglaugsson, 7.4.2020 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband