Tólf verðlaunapeningar í pottinum fyrir Íslendinga á EM í frjálsum sumarið 1950.

Íslenski hópurinn á EM í frjálsum 1950 var ekki stór, aðeins níu keppendur. En það má færa rök að því að frækilegri íslenskur flokkur íþróttamanna hafi ekki verið uppi. Að minnsta kosti virðist óhugsandi að það verði aftur til sambærilegur hópur. 

Lítum á hann.  

Örn og Haukur Clausen, Gunnar Huseby, Torfi Bryngeirsson, Ásmundur Bjarnason, Finnbjörn Þorvaldsson, Guðmundur Lárusson, Magnús Jónsson og Jóel Sigurðsson. Fyrr um sumarið var ljóst, að eftirfarandi verðlaun gátu fallið íslensku keppendunum í skaut, miðað við afrekaskrá Evrópu, og ef menn hnjóta um töluna 12 verðlaunapeningar, ber að athuga, að boðhlaupssveit, sem kemst á verðlaunapall, fær fjóra peninga, einn hver liðsmaður. 

Örn Clausen gull í tugþraut, brons í langstökki og 110 metra grindahlaupi og brons í 4x100 metra boðhlaupinu. Hann valdi tugþrautina, enda númer tvö á heimslistanum 1950, næst á eftir bandaríska heimsmethafanum, og var í þriðja sæti á heimsmlistanum 1949 og öðru sæti 1951.  Frakkar fengu því framgengt að keppt var eftir gömlu stigatöflunni í Brussel, annars hefði Örn orðið Evrópumeistari. 

Haukur hefði átt möguleika á gulli í 200 metra hlaupi, enda náði hann besta tímanum í Evrópu þetta sumar og setti Íslandsmet, sem stóð í 27 ár og Norðurlandamet, sem stóð í sjö ár. 

En hann fékk ekki að keppa í sinni bestu grein vegna fjarveru frá hlægilegu úrtökumóti heima. 

Hann keppti hins vegar í lakari grein sinni, 100 metrunum og varð fimmti í úrslitum, sekúndubroti frá verðlaunum, auk þess sem 4x100 metra boðhlaupssveitin átti möguleika á bronsi í þeirri grein. 

Gunnar Huseby vann með yfirburðum í kúluvarpi, kastaði metra lengra en næsti maður, en Eistlendingurinn Heino Lipp hefði getað veitt honum keppni ef Sovétmenn hefðu leyft honum að keppa. 

Torfi gat valið um það hvort hann ætti möguleika á að komast á verðlaunapall í stangarstökki og langstökki, en keppt var til úrslita á sama tíma í báðum greinum, svo að hann valdi lakari greinina, en varð samt Evrópumeistari í henni!

Ásmundur Bjarnason átti möguleika í 4x100 og 200 m, komst í úrslit í 200 og varð fimmti. 

Guðmundur Lárusson var hársbreidd frá því að komast á pall í 400 metra hlaupinu. 

Ótaldir eru þeir Skúli Guðmundsson og Hörður Haraldsson. Hörður var á rosa siglingu um mitt sumar og vann frækinn sigur í 200 metra hlaupinu 17. júní, þar sem þeir röðuðu sér á afrekalista Evrópu, Hörður á 21,5, Haukur á 21,6, Ásmundur á 21,7 og Guðmundur á 21,8. 

En Hörður tognaði í landskeppni við Dani. 

Skúli Guðmundsson var í fremstu röð hástökkvara í Evrópu þetta sumar og setti Íslandsmet, sem hefði dugað honum til sigurs í Brussel. En hann var við nám í Danmörku og hafði ekki tök á að vera með á EM.  

 


mbl.is Gamla ljósmyndin: Fyrsti Evrópumeistarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa umfjöllun um hópinn sem var alveg einstakur. Einhverntímann var ég að grufla í Evrópu afrekalistanum frá 1950 og sá að okkar menn eiga 7 afrek á topp fimm og 10 afrek á topp 10 listanum. Hugsa sér að Gunnar H hafi verið nr 5 í kringlunni, sem var jú aukagrein hjá þeim kappa. Það er meira en magnað. 200m hlaupið fræga sem þú minnist á, og gerir betur grein fyrir í bókinni um Gulldrengina, hefur verið einstakt og gaman væri að vita hvar í veröldinni, fyrir utan USA, 21,8sek hefði ekki dugað á verðlaunapall í innanlandskeppni. 

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 24.4.2020 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband