Eftir að sú gagnrýni kom upp í athugasemdum á þessari bloggsíðu, að síðuhafi hamaðist daglega gegn Donald Trump á hatursfullan hátt, er rétt að byrja þennan pistil á því að upplýsa, að áður en þessar ásakanir voru settar fram, voru þrír pistlar á 13 dögum hér á síðunni kórónuveiruna og Trump, og núna eru liðnir fjórir dagar sem enginn pistill hefur verið um hans stefnu, en hins vegar allt að þrír pistlar hjá einum helsta bloggarunum.
Í gagnrýninni var gagnrýnt, að lapið væri upp úr falsfréttum fjölmiðla af Trump og það sem hann segði á blaðamannafundunum.
Nú verður það ekki gert í þessum pistli, því að byggt verður á áhorfi á heilan fund í síðustu viku.
Blaðamannafundir Donalds Trumps eru meira en klukkustundar langir og megnið af þeim er löng ræða forsetans. Svipað á við þessa fundi eins og fundina, sem hann hélt í kosningabaráttunni 2016, að það verður helst að hlusta og horfa á þá í heild til þess að gera sér grein fyrir málflutningi og málefnastöðu hans, og ekki síst því hverju hann trúir sjálfur.
Að grípa upp einstaka ummæli og fréttir úr fjölmiðlum gefur aldrei eins ítarlega mynd og fundurinn allur í heild.
Þess vegna var gagnlegt að skoða eitt stykki blaðamannafund í vikunni og fara yfir málafylgjuna.
Út úr henni kom furðulega einföld mynd, með niðurstöðu, sem sýndi forsetann sem ofurmenni, sem myndi bjarga lífi hátt í tveggja milljóna Bandaríkjamanna, sem væri næstum tvöfalt fleiri en létust til samans í öllum styrjöldum Bandaríkjamanna.
Forsetinn marg endurtók tölur og staðreyndir, sem áttu að styðja þessa niðurstöðu.
Aðaltalan er 2,2 milljónir látinna, sem hægt var að sjá út úr spálíkani vestra sem verstu mögulegu endalok faraldurins. Á þessari gríðalega háu tölu hefur forsetinn hamrað lengi og hann væri ekki að því nema að hún geti orðið hluti grundvöllar að endurkjöri hans.
Hann marg endurtók líka, að þessi tala, 2,2 milljónir, væri tvöfalt hærri en tala látinna í öllum styrjöldum sem Bandaríkin hefðu háð frá upphafi vega, en þar vega þyngst Þrælastríðið með 500 þúsud dána og Seinni heimsstyrjöldin með 400 þúsund og heildartalan í öllum styrjöldum BNA er um 1,1 milljón.
Á annan tug forseta Bandaríkjanna voru við völd þegar öll þessi stríð voru háð, en það lýsir því hvert ofurmenni Trump er, að hann hann einn ætlar sér að bjarga fleiri Bandaríkjamönnum frá dauða en tíu stríðsforsetar á undan honum hefðu getað gert með því að heyja stríð án mannfalls, en það reyndist þeim ómögulegt. Já, litlir kallar, Lincoln og Roosevelt og kó.
Það er alltaf gagnlegt að skoða mál frá sjónarhóli þess, sem fjallað er um.
Þegar sagt er að forsetinn hugsi aðeins um það eitt að vera áfram við völd, er það auðvitað ekki valdafíkn, sem rekur hann til þess, heldur sú trú hans og vissa að aðeins hann einn geti unnið stærsta afrek í sögu Bandaríkjanna til þess að vernda þegna þeirra og bjarga þeim frá bráðum háska.
Þegar sumir segja, að forsetinn sé aðeins að nota gamalt trix valdafíkinna manna þess efnis að finna nógu skæðan óvin til að verja skjólstæðinga sína fyrir, snýr þetta greinilega ekki þannig við Trump, sem trúir því innilega sjálfur, að hin hlið málsins, hverjir beri "ábyrgð á dauða þeirra tuga þúsunda, sem samt muni verða faraldrinum að bráð," liggi ljós fyrir í því sem forsetann trúir að sé staðreynd, að Kínverjar og WHO og hugsanlega líka einhverjir ríkisstjórar, beri alla ábyrgð á vágestinum mikla og dauða tuga þúsunda manna.
Við drepsóttina er barist í stríði, sem gæti orðið hið lang mannskæðasta í sögu landsins, ef ofurmennið mikla væri ekki réttur maður á réttum stað til frækilegra varnar á tímum stríðsástands.
Einföld og skýr mynd:
Annars vegar eru óvinirnir lífshættulegu, Kína, WHO og þeir sem ekki gera eins og Trump vill.
Gegn þeim stendur Trump, sem segist strax í upphafi hafa byrjað á því að bjarga tugþúsundum manna , langt á undan öllum öðrum og hann hafi haldið því stanslaust áfram síðan.
Pottþétt. Bjargvættur, sem meira en milljón manns munu eiga eftir að þakka lífgjöf, hlýtur að vinna yfirburðasigur, ekki satt?
Þegar nú hefur verið bent á að 40 þúsund farþegar hafi flogið frá Kína til Bandaríkjanna eftir að bannið var sett á; Joe Biden hafi gagnrýnt sleifarlag strax 27. janúar, og hvatt til þess að bregðast af alefli við heimsfaraldrinum; en Trump hafi hins vegar alls 15 sinnum opinberlega, út allan febrúar, gert lítið úr aðvörunarorðum, meðal annars eigin ráðgjafa og WHO, og hælt Kínverjum allan tímann, er svar Trumps einfalt: Kinverjar voru með blekkingar í upphafi faraldurins.
Eftir er að vísu að útskýra, af hverju blekkingar af höndum Kínverja séu engin afsökun fyrir WHO, en fullgild afsökun fyrir alla aðra, en að því mun sennilega enginn spyrja.
Trump styður mótmælendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.