COVID-19: Ein átakanlegasa útgáfan af sögunni "úlfur! Úlfur!"

Umfjöllun vandaðra fjölmiðla um COVID-19 veiruna sýnir átakananlega en einfalda mynd: Strax í desemberlok var þessi veira komin á kreik og byrjuð að dreifast um heiminn í takti við ferðir flugfarþega, sem eru alls 4000 milljónir á hverju ári. 

Í bandaríska sjónvarpsþættinum "60 mínútur" sem sýndur var á Stöð 2 í gærkvöldi, voru ítarleg, upplýsiandi og átakanleg viðtöl við það vísindafólk og kunnáttufólk, sem best gat vitað um þetta mál frá upphafi vega í krafti nýjustu tækni, sem hefur gert smitrakningar mögulegar allt niður í skipan flugfarþega í sæti hjá flugfélögunum. 

Aðrir fjölmiðlar hafa víða kafað ofan í málið og smám saman verður smitrakningarferlið og eðli málsins ljósara:  Það gátu liðið allt að tvær vikur frá smiti þar til sjúklingarnir fundu einhver einkenni, og til dæmis reyndist meirihluti 800 hermanna á bandarísku flugmóðurskipinu Roosevelt vera með smit þegar það var loks mælt! 

Allar aðvörunarbjöllur hersins hringdu. Aflýst var stærstu heræfingu NATO frá því í Kalda stríðinu.

Nýtt stríð var hafið við ósýnilegan óvin. Stórbrotin útgáfa af gömlu sögunni "Úlfur! Úlfur!, þar sem úlfurinn kemur, einmitt þegar andvaraleysið gagnvart honum er mest og verst.  

Talsmaður hersins í þættinum sagði: "Stríðinu við veiruna verður ekki lokið fyrr en enginn mælist með smit!"  

Mælingin á flugmóðurskipinu sýndi glögglega, hvaða firru var frá upphafi víða haldið fram, að fjöldi þekktra smita gæti rétta mynd af faraldrinum. Þvert á móti gátu alltof fáar sýnatökur, eins og fyrstu vikurnar í Bandaríkjunum og víðar, gefið alranga mynd, sem varð auðvitað til þess að alrangar aðgerðir eða öllu heldur aðgerðaleysi urðu niðurstaðan. 

Í upphafi var hægt að áætla það út frá tölvugögnum fyrirfram að New York myndi fara illa út úr faraldrinum með því að rekja það, hvert flugfarþegar frá Wuhan fóru. 

Viðbrögð Kínverja voru í fyrstu þau, að nýta alræðisvaldið í Peking til að fjarlægja myndir, myndatökumenn og aðra, sem reyndu árangurslitið að kalla "úlfur! Úlfur!"

Síðan, en alltof seint, sáu valdhafarnir, að þetta gekk ekki upp, og þá dugði ekkert minna en að reisa, til dæmis, heilan spítala frá grunni á tveimur dögum! Til að sýna mátt hins mikla stórveldis, sem einmitt var að sýna vanmátt og galla alræðiskerfis. 

Tölvutæknifyrirtækið bandaríska, sem rakti ferilinn frá upphafi með því að fá upplýsingar um ferðafélaga þeirra, sem voru á smitleið með veiruna um heiminn, sendu aðvaranir strax í janúar til einstakra ríkja, meðal annars einstakra ríkja í Bandaríkjunum. 

Þar í landi þráaðist forsetinn við vikum saman, við að gefa yfirlýsingar, þvert ofan í þessar aðvaranir og aðvaranir sinna nánustu ráðgjafa og sérfræðinga, með því að endurtaka í sífellu í beinum útsendingum og upptökum: "Við höfum algera stjórn á þessu! Það er engin veira í gangi. Hún er horfin!  Hafið engar áhyggjur!". 

Hann setti að vísu ferðabann á flugferðir frá Kína til Bandaríkjanna, en í þættinum 60 mínútum í gær afhjúpaðist þröngsýni hans varðandi það að lúskra á Kínverjum, sem væru að sögn Trumps síðar, að reyna að koma í veg fyrir endurkjör hans með því að hrinda af stað heimsfaraldri. 

Í 60 mínútum í nótt sást, að meginstraumur smita frá Wuhan hlaut samt að liggja til Bandaríkjanna, þótt það færi ekki alltaf beina leið. 

Eina ríkið, sem tók mark á aðvörununum þegar þeirra var mest þörf, var Kalifornía, sem setti strax á ferðabann og fleiri aðgerðir, sem gerðu því ríki kleyft að skera sig úr í hópi fjölmennustu ríkjanna í BNA með margfalt færri dauðsföll en ríki eins og New York. 

Margt fróðlegt kom fram í 60 mínútum í nótt. 

Tækni sem gerir það kleyft að sjálfvirk aðvörun fari í gang ef tveggja metra reglan er brotin. Hægt að fylgjast samstundis með ferðum hvers einasta farsíma heims. Stóri bróðir í framkvæmd, en því þó lofað, að alger persónuvernd sé í gildi, líkt og hjá Íslenskri erfðagreiningu hjá okkur. 

Til dæmis það sem flugfélagið Emirates hefur í hyggju, að taka sýni af flugfarþegum með aðferð, sem tekur aðeins tíu mínútur. 

Einnig það, sem Kanarnir hafa kunnað betur en nokkrir aðrir og var full ástæða fyrir Trump að hreykja sér af, að breyta á undraskömmum tíma einstæðri getu sinni til að framleiða bíla í milljónatali í það að framleiða hergögn, í þessu tilfelli öndunarvélar og annan búnað, sem er lífsnauðsynlegur fyrir heilbrigðisþjónustuna, eigi hún ekki að hrynja. 

Forsagan er glæsileg.  Á aðeins tveimur mánuðum, í desember og janúar 1941-42 var bílaverksmiðjum í BNA breytt í framleiðendur hergagna, svo sem flugvélar og skriðdreka. Í Willow Run streymdu B-24 sprengjuflugvélar þúsundum saman eftir færiböndunum. 

50 þúsund herflugvélar á ári!  Hitler dró dár að þessu í fyrstu sem fjarstæðu, en síðan viðurkenndi hann að að hann eða aðra hefði aldrei getað órað fyrir þessu, og þaðan af síður, að Sovétmenn gætu flutt hergagnaverksmiðjur sínar þúsund kílómetra leið austur fyrir Úrafjöll og framleitt 30 þúsund herflugvélar á ári og alls 84 þúsund stykki af besta skriðdreka stríðsins. 

Packard Merlin hreyflar skiptu til dæmis sköpum fyrir flugvélar eins og Mustang og Lancaster. 

Núna stendur til að framleiða 30 þúsund öndunarvélar í verksmiðjum GM og Ford þar sem áður runnu pallbílar af færiböndum.  

Ekki veitir af.  30 þúsund öndunarvélar vestra jafngilda um 30 hér á landi.

Mikið væri gott ef hægt væri að endursýna á góðum áhorfstíma hina stórgóðu þætti frá kunnáttufólkinu í 60 mínútum, og þá helst í beinni og ótruflaðri útsendingu.  

 

 

 

 


mbl.is Var veiran í Evrópu í desember?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Með fullri virðingu fyrir blogg-skrifum þínum  þá eru þau á stundum full goðsagnakennd ekki síst þegar kemur að umfjöllun um seinni heimsstyrjöldina.

Því fer fjarri að Rússar hafi framleitt besta skriðdreka í heimi eins og þú segir en þar átt þú sennilega við T-34 skriðdrekann.  Enginn rússneskur skriðdreki hafði roð við bestu skriðdrekum Þjóðverja eins og Tigris-skriðdrekunum. Bandarísku skriðdrekarnir, hvað þá þeir bresku, stóðust heldur engan samanburð við þessa þýsku skriðdreka.  Það er hins vegar rétt að rússar náðu snemma í stríðinu að framleiða mikinn fjólda skriðdreka og bæta í eftir því sem stríðið dróst á langinn.  Þess má geta af því þú nefnir framleiðslutölur að Þjóðverjar framleiddu um 30 þúsund skriðdreka og um 40 þúsund flugvélar árið 1944 og það þrátt fyrir gífurlegar lofftárásir Bandamanna á Þýskaland það árið.  Orustan um Kursk og Orel sumarið 1943 sýndi með afgerandi hætti að russnesku skriðdrekarnir máttu sín lítils  gegn þeim þýsku þó þeir rússnesku væru mun fleiri í byrjun en guldu strax hrikalegt afhroð. Það var ekki fyrr en Hitler sá sítt óvænna að senda heilu skriðdrekafylkin til Ítalíu til að stemma stigu við innrás Bandamanna þar að Þjóðverjar urðu að láta undan síga á þessum rússnesku vígstöðvum.

Daníel Sigurðsson, 5.5.2020 kl. 14:20

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ætli einhver hafi í alvöru velt því fyrir sér hvað það þýðir að viðhalda þessari einkennilegu tveggja metra reglu? Þessi regla merkir að hver einstaklingur þarf að hafa í kringum sig 12,5 fermetra svæði sem enginn annar má koma inn á.

Þetta merkir einfaldlega að ekki er hægt með neinu viti að standa fyrir neinskonar menningarviðburðum, hvort sem það eru tónleikar, leikhús, kvikmyndasýningar eða annað af því tagi, nema kostnaðurinn verði svo óheyrilegur að það mæti enginn á slíka viðburði hvort sem er.

Það er talað um þetta eins og það sé ekkert mál að hafa bara svona reglu að minnsta kosti fram að áramótum, og ég heyrði ekki betur í gær en lögregluþjónninn sem hefur verið falið að stjórna landinu ásamt læknunum tveimur teldi það bara eðlilegt að svona yrði þetta til frambúðar!

Og kindahjörðin jarmar með og finnst þetta bara voða flott og sniðugt!

Það er því miður komið á daginn að þessi þremenningaklíka er algerlega búin að missa raunveruleikaskynið. Það er mál að þessari vitleysu linni. Það er fleira sem skiptir máli en það hvort fólk smitist af einhverri pest sem er með dánarhlutfall litlu fyrir ofan það sem venjuleg flensa hefur.

Þorsteinn Siglaugsson, 5.5.2020 kl. 15:41

3 identicon

Plássþörfin ætti að reiknast 3,14 fermetrar (ekki 12,5) en ef reiknað er enn betur þá er pléssþörfin 3,46 fermetrar (býflugnabúsmynstur).

Að segja að dánarhlutfallið sé litlu fyrir ofan venjuleg flensu er enn vitlausara.

SH (IP-tala skráð) 5.5.2020 kl. 18:40

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eisenhower hafði fulla ástæðu til þess að setja T-34 skriðdrekana á stall með kjarnorkusprengjunni, jeppanum og DC-3 sem mikilsverðustu stríðstækjunum í WWII. 

Tiger drekarnir voru öflugastir, en reyndust í raun misheppnaðir og sár vonbrigði fyrir Þjóðverja fyrir það, að þeir voru alltof flóknir, dýrir og erfiðir í viðhaldi til að skipta neinum sköpum.

Enda voru framleiddir 20 sinnum fleiri T-34 drekar en Tiger og þegar Guderian mætti þúsundum þeirra við Moskvu í árslok 1941, sá hann að allar vonir um skjótan sigur fuku út í veður og vind. Þá voru T-34 yfirburða drekar.

Einkennileg er sú árátta að gera sem minnst úr því að Sovétmenn unnu sjálfir orrustuna við Kursk og þar áður við Stalingrad.   

Það er ný og fráleit söguskýring að orrustan við Kursk hafi unnist fyrir tilverknað Vesturveldanna við Miðjarðarhafið. 

Stærsta skriðdrekaorrusta sögunnar fram að því var háð við Kursk, og Þjóðverjar höfðu tíu sinnum minni herafla við El Alamein en við Stalíngrad. 

Ómar Ragnarsson, 5.5.2020 kl. 19:23

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Dánarhlutfallið hefur verið mælt í Þýskalandi. Það er eina landið þar sem ég veit til að það hafi verið gert. Það er 0,37%. Dánarhlutfall vegna flensu er áætlað 0,1-1%. Dánarhlutfallið hér má áætla 0,1-0,3%.

Tveggja metra radíus gerir 12,5 fermetra. Formúlan er pí sinnum radíusinn í öðru veldi. 3,14*4=12,56.

Þorsteinn Siglaugsson, 5.5.2020 kl. 19:49

6 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Það er algerlega út lausu lofti gripið að Tigris-skriðdrekarnir hafi verið bilanagjanir og miheppnaðir. Þvert á móti voru þeir algerlega frábærir og áttu líklega stærstan þáttinn í því að Þjóðverjar töpuðu ekki stríðinu á austurvígstöðvunum stax eftir ófarirnar við Stalíngrad veturinn 1943. Þú ert líklega að rugla Tigris-skriðdrekanum saman við annan skriðdreka sem bar nafniið Ferdinand.  Sá dreki passar við lýsingarnar sem þú talar um. Hann var aðeins framleiddur í nokkur hundruð eintökum enda framleiðslunni flótlega hætt. 

Þú gerir of mikið af því að láta vaða á súðum í þínum fullyrðingum eins og þeirri að rússneski skriðdrekinn T-34 hafi verið besti skriðdreki stríðsins sem hann var alls ekki. Það breytir engu þar um þó Eisenhower hafi sett hann á stall.  En þar hefur hann vafalaust haft í huga  frammistöðu T-34 við vörn Moskvu í desember 1941 sem e.t.v. réði úrslitum um að Rússum tókst að verja borgina,  auk þeirrar  hjálpar sem harðasti vetur aldarinnar veitti þeim og stöðvaði þar með hið svonefnda leyfturstríð Þjóðverja.

Það er útúrsnúningur manns sem tekur ekki rökum að ég sé að gera lítið úr sigri Rússa við Kursk þó að ég bendi á staðreyndir þessi efnis að heilu skriðdrekafylkin voru  send til Ítalíu í miðjum hildarleiknum sem átti sinn þátt í því að Þjóðverjar neyddust á endanum til að hörfa til fyrri vigstöðva þannig að sóknin sem heild rann út í sandinn.

Það er ekket  ný og hvað þá “fráleit söguskýring að orrustan við Kursk hafi unnist fyrir tilverknað Vesturveldanna við Miðjarðarhafið” eins og þú heldur fram. Því augljóseleg hafði þetta veruleg áhrif á gang mála í orustunni við Kursk.  Maður hefur það stundum á tilfinningunni að þú viljir ekki hafa það sem sannara reynist í öndvegi.  Ef þér er misboðið að fá á þig réttmæta gagnrýni er þú tjáir þig um stríðið þá ættirðu kannski að lesa þér aðeins betur til áður en þú ryðst fram að ritvöllinn.

Daníel Sigurðsson, 5.5.2020 kl. 20:39

7 identicon

Radíusinn er ekki 2 heldur er hann 1 (tveir menn og hvor hefur sinn radíus).

SH (IP-tala skráð) 5.5.2020 kl. 22:39

8 Smámynd: Hörður Þormar

Ekki ætla ég að blanda mér í deilur hernaðarsérfræðinga um vígvélar og bardaga í heimsstyrjöldinni.

En ég man þennan dag, 5. maí fyrir 75 árum, þegar þýski herinn í Danmörku og Noregi gafst upp fyrir Bandamönnum og ég heyrði klökka rödd í útvarpinu segja: "Danmörk er frjáls, Noregur er frjáls".

Kannski á "heimsstyrjöldin" við COVID veiruna eftir að standa í nokkur ár, en eitt er víst, hún verður bara barnaleikur í samanburði við þá sem lauk fyrir 75 árum. - Nema einhver annarleg öfl sjái sér leik á borði og blandi sér í hana.

Hörður Þormar, 5.5.2020 kl. 22:58

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Afsaka ef þetta er út fyrir efnið, en þetta er rétt hjá Þorsteini. Hver og einn þarf 12,56 fm hring í kringum sig, til að fjarlægð í næsta mann sé tveir metrar.

Að vísu skerast hringir tveggja (eða fleiri) manna, því ef einhver er staddur í hring A og annar í hring B, þá nær ysti hluti hrings B inn í hring A, alveg inn í miðju A.

Kannski ekki gagnlegar pælingar, en skemmtilegar ef maður hefur ekkert annað að gera.cool

Theódór Norðkvist, 5.5.2020 kl. 23:32

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held að SH sé drukkinn. Hann kemst ekki upp með að hafa bara meter í radíus, því þá kemur Sóttólfur og stingur honum í steininn.

Þorsteinn Siglaugsson, 6.5.2020 kl. 00:15

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég á frænda, Einar Björn Bjarnason, bloggara, sem er sá Íslendingur sem hefur sennilega best stúderað skriðdreka. 

Þegar ég uppgötvaði það hvað hann kynnti sér skriðdreka af mikilli ástríðu, keypti ég mér stóra handbók, "All the world tanks" til þess að geta talað við hann af einhverju viti um skriðdreka í erfidrykkjum.  

Ég er ekkert að rugla Tiger I eða Tiger II við Ferdinand II. Af Tiger I voru framleidd 1347 stykki og af Tiger II

Ómar Ragnarsson, 6.5.2020 kl. 10:08

12 Smámynd: Theódór Norðkvist

@Þorsteinn, nákvæmlega.laughing

Theódór Norðkvist, 6.5.2020 kl. 10:30

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

...voru framleidd 492. Mat þeirra, sem setja T-34 efst byggist á því hvaða skriðdreki gerði mest gagn og hafði mest áhrif á þróun og smíði skriðdreka. 

Slíkt mat byggist á víðara sjónarhorni en því hvort að einn Tiger gat haft í fullu tré við tíu T-34 ef þeim var stillt upp á móti hverjir öðrum á sléttu, þurru landi þar sem báðir voru bardagahæfu ástandi. Bilaður Tiger, sem var of stór fyrir flestar brýr á svæðinu, of dýr til þess að hægt væri að framleiða hann í einhverju magni og of flókinn og erfiður í stjórn og viðhaldi, var því miður fyrir Þjóðverja, ekki tæki sem skipti neinum sköpum fyrir þá og nýttist aldrei sem grundvallarvopn eins og vonir stóðu til að myndi snúa stríðsgæfu Þjóðverja við. 

Dæmi um alhliða mat á tækjum birtist í alþjóðlegu vali bílablaðamanna á merkustu bílum 20. aldarinnar. Röðin var svona:  1. Ford T.  2. Mini. Þar á eftir komu Volkswagen typ 1 og Citroen DS og Traction Avant. 

Enginn þessara bíla var "bestur" með því að leggja saman hraða, rými, glæsileika og þægindi.  Ford T var þvert á móti fáránlega einfaldur.  Mini var með allra minnstu bílum, en tæknileg útfærsla á svona vinsælum bíl, sem gat sigrað í nokkrum Monte Carlo röllum í röð með þessari nýju formúlu:   vélin, vatnskæld, fjögurra strokka toppventlavél þversum frammi í með framhjóladrifi og hjólin úti í hornunum; þessi formúla kom fram með Mini 1959 og í dag eru meira en 80 prósent allra fólksbíla í heiminum smíðaðir samkvæmt þessari formúlu. 

Ef nefna á farþegaflugvél verður Douglas DC-3 oftast fyrir valinu. Hún flaug ekki hraðast, klifraði ekki best, var ekki burðarmest þegar hún kom fram, en samanlagt gildi hennar var mest, hún var framleidd í flestum eintökum, niðurstaðan var stærri en bein summa af kostunum.  Hún var farþegavélin sem gerði almenningi kleyft að nota flugið sem ferðamáta. 

Ef nefna á litla einkaflugvél verður Cessna 172 oftast efst. Hún flaug ekki hraðast, klifraði ekki best, bar ekki mest, var ekki sparneytnust og var ekki með sportlegustu flugeiginleikana.   En þegar allt var lagt saman varð útkoman stærri en summa einstakra atriða; þetta er sú litla flugvél, sem varð sú flugvél sem framleidd hefur verið í flestum eintökum og hefur orðið öruggasta litla flugvélin, meðal annars af því að enda þótt hún hefði óspennandi flugeiginleika var hún það, sem kallað er á ensku "most forgiving" allra flugvéla fyrir flugmanninn; allra flugvéla hrekklausust.   

Ómar Ragnarsson, 6.5.2020 kl. 10:38

14 identicon

Reikningsdæmi:

Þorsteinn og Theódór eru hvor í miðju síns hrings með radíus 1 m.

Hvað er langt á milli þeirra ef hringirnis snertast?

(svar: 1+1=2)

SH (IP-tala skráð) 6.5.2020 kl. 11:42

15 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Radíusinn samkvæmt reglunni er tveir metrar í næsta mann, ekki einn metri. Það merkir vitanlega ekki að 10 manns þurfi 10*12,5 metra svæði, en hver maður þarf tveggja metra radíus í kringum sig.

Þorsteinn Siglaugsson, 6.5.2020 kl. 12:24

16 identicon

Sæll Ómar.

Frábær tillaga að ræða
skriðdreka í því sem margir
nefna erfiðisdrykkjur, - og
ekki sakaði að þetta nálgaðist
uppruna sinn og ekki skammtað minna
en einum lítra 75% vínanda á mann!

Við þetta færi mesta erfiðið af
og erfidrykkjur stæðu undir nafni og yrðu með vinsælustu viðburðum
í mannlífinu og í flestum tilfellum,
- þó fyrr hefði verið!

Húsari. (IP-tala skráð) 6.5.2020 kl. 13:39

17 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Þegar ég nefndi Tiger-skriðdrekann þýska sem besta skriðdreka seinni heimsstyrjaldar átti ég að sjálfsögðu fyrst og fremst við Tiger I en ekki Tiger II enda kom Tiger II ekki við sögu fyrr en um mitt ár 1944.

Tiger II tók þar með vitaskuld ekki þátt í mestu skriðdreka-orustu sögunnar sem hófst í júlí 1943 (Operation Zitadelle) og stóð meira og minna yfir í 50 daga.

Þar telfdu Þjóðverjar fram um 4000 skriðdrekum á móti um 6000 skriðdrekum Rússa.  Það kom flótlega á daginn að þýsku skriðdrekarnir höfðu algera yfirburði og grönduðu fyrstu vikuna um 4 falt fleiri skriðdrekum en þeir rússnesku. Það var ekki fyrr en Hitler neyddist til að senda heilu skriðdrekafylkin til Ítalíu, um 10 dögum eftir að orustan hófst, að Rússar tóku að rétta úr kútnum.

Í þesari orustu tefldu Þjóðverjar fram mun fleiri skriðdrekum af gerðinni Panther (öðru nafni Panzerkampfwagen  VI) heldur en Tiger enda sá fyrr nefndi búinn að vera í framleiðslu síðan 1942 og kom fram sem andsvar við rússneska skriðdrekanum T-34 og hafði mikla yfirburði fram yfir hann.  Bæði Panther og Tiger I reyndust frábærlega eins og sýndi sig með afgerandi hætti í sigri Þjóðverja í orustunum við Rússa um vorið 1943 á suðurvígstöðvunum (eftir ósigur Þjóðverja við Stalíngrad).  Og svo síðar í orustunni við Kursk í júlí sama ár eins og áður er getið.

Það er goðsögn að T-34 hafi verið besti skriðdreki stríðsins.

 

Daníel Sigurðsson, 6.5.2020 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband