Hjólin bæta heilsuna, en furðulegt misrétti felst í reglum um rafreiðhjól.

Það bætir heilsuna að nota reiðhjól, en einnig er heilsubót fólgin í því almennt að nota rafreiðhjól og léttbifhjól. Náttfari við Engimýri

Það er nefnilega líka líkamleg áreynsla fólgin í því að vera á bifhjóli, mun meiri en sýnist við fyrstu sýn. Þessi skoðun er sett hér fram eftir notkun á reiðhjólum, rafreiðhjólum og léttbifhjóli í alls 16 ár. 

Fyrstu 10 árin, á aldrinum 10-19 ára var eingöngu notast við reiðhjól, og tíu árum síðar í tvö ár. Síðan leið langur tími, 45 ár, þangað til núverandi hjólatímabil hófst. 

Það hefur reynst afar árangursríkt og lærdómsríkt, ekki síst varðandi ýmsar reglur, sem orka tvímælis. Hjól Skóla-vörðustíg

Alveg fram til síðasta haust giltu gallaðar reglur varðandi gjöld af hjólum, sem lagður var á virðisaukaskattur á sama tíma og sá skattur var felldur niður af rafbílum. 

Er þó stærðar- og þyngdarmunurinn slíkur, að fótknúin og rafknúin hjól skila margfalt meiri árangri í umhverfismálum og líkamshreysti en rafbílar. 

Þessu var þó breytt í fyrra, en eftir stendur, að hér á landi hefur alveg skort á viðleitni til að sníða ákveðna galla af regluverkinu varðandi rafreiðhjól og léttbifhjól. 

Skoðum aðalatriðin og berum saman við önnur lönd. Honda PCX og Znen

Rafreiðhjól og léttbifhjól sem nota á sem mest á hjólastígum, eru með 25 km/klst hámarkshraða. 

Nær væri að hafa hraðann 30 km/klst eins og er til dæmis í Danmörku, Kanada og Bandaríkjunum, því að þá samlagast hjólin betur hraðanum á þeim götumm þar sem er 30 km hámarkshraði. 

Hámarksafl rafhjólanna er 250 vött. Í nokkrum löndum Evrópu er leyft meira afl, allt upp í 500 vött, enda eru 250 vött of lítið afl þegar farið er upp brattar brekkur. 

250 vöttin stinga líka í stúf við það, að í bensínknúnum hjólum, sem mega vera á hjólastígum og gangstígum, er leyfilegt afl allt að fimm sinnum meira, enda eru hjólin fjórum sinnum þyngri. Náttfari, Léttir og RAF

Ef eitthvað væri, ættu léttari hjólin, sem valda minni hættu, ekki að vera þessari afltakmörkun háð. 

En, - nú kemur að mesta brandaranum: 

Það er bannað að hafa handgjöf til að stjórna aflinu til hjólanna á rafreiðhjólunum, en hins vegar leyfilegt á fjórum sinnum þyngri og allt að fimm sinnum aflmeiri bensínknúnum vespuhjólum! 

Í nokkrum löndum er handgjöf að sjálfsögðu leyfileg, til dæmis í Kanada og Bandaríkjunum. 

Og hvaða rök eru fyrir því að handgjöf er leyfð í bensínknúnu hjólunum?Náttfari og Znen f8 (2)

Jú, það er vegna þess að þau eru svo þung og þurfa svo mikið afl, að það er ekki hægt að nota fæturna! 

Spyrja má á móti: Af hverju ætti þá ekki við að leyfa handgjöf á rafreiðhjólum eins og á bensínknúnum hjólum?

Ástæðan er sú, að það er afar persónubundið af ýmsum ástæðum hvað viðkomandi hjólreiðamaður þolir varðandi það að nota fæturna. Svipað á við aum og slitin hné. 

Hjá síðuhafa háttar málum þannig, að vegna samfalls hryggjarliða í baki, sem valda því að afltaugar út í fæturna eru klemmdar, eru takmörk fyrir því hve lengi hægt er að vera með fæturna í miklu átaki í hvert sinn.Náttfari í Elliðaárdal

Þá getur verið gott að vera á rafreiðhjóli, sem býður upp á alla þessa möguleika: Að hjóla með fótafli eingöngu - að nota rafafl eingöngu - að nota fótafl og rafafl samtímis - að endurheimta raforku í hægingu ferðar eða niður brekku. 

Og ástand baksins getur verið misjafnt og þess vegna gott að hlífa því þegar þannig háttar til. 

Þá getur verið gott að stilla notkun handgjafarinnar þannig til, að sem best jafnvægi náist.

Þetta virðast Ameríkumenn vita. 

Með tilkomu rafreiðhjólsins Náttfara hefur síðuhafa tekist að bæta ástand uppslitinna hnjáa og stilla og styrkja hrygginn betur af en áður.  

Að fornu var sagt: Með lögum skal land byggja en ólögum eyða.Honda PCX, ´Léttir  við Jökulsárlón

Hið síðarnefnda hlýtur að eiga við reglugerðarákvæði, sem eru augljóslega byggð á alröngum forsendum. 

Hvað snertir hjól í svonefndum A1 flokki, bæði rafknúin og bensínkrúin með allt að 15 hestafla 125 cc vél, skortir enn á að við Íslendingar fylgjum skynsamlegum reglum um þau í flestum löndum Evrópu varðandi réttindi og tryggingar. 

Mikil bylting varðandi útskiptanlegar rafhlöður eru nú í gangi varðandi rafhjól í þessum flokki. gogoro 1

Og bensínknúnu hjólin eyða svo litlu eldsneyti, að heildar kolefnisspor þeirra er líkast til á pari við rafbil af algengustu stærð.  

 


mbl.is Hreyfing og útivera bæta heilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekkert sem bannar að rafreiðhjól séu með öflugri mótor 250W. En þá eru þetta hins vegar orðin létt bifhjól með hjálparsveifum og fara þá að gilda aðrar reglur um þau, svo sem að vera skráningarskyld o.fl. Og svo sem ekkert að því, ef við teljum á annað borð að vélhjól eigi að vera skráningarskyld.

Og hjól með 500W hreyfli eru farin að haga sér öðru vísi en hefðbundin fótstigin reiðhjól. Einhvers staðar verður að draga línuna, og það ekki fjarri því venjulegt fólk getur gert á reiðhjóli. Reglurnar eiga ekki að vera til þess að smygla mótorhjólum inn í umhverfi reiðhjólamanna.

Í raun má segja að 250W mótorinn sé málamiðlun, sem leyfir hluta vélhjóla að öðlast hlutdeild stöðu reiðhjóla. Þetta eru hjól sem fylgja sama hraða og reiðhjól upp í 25 km hraða, krefjast fótstýringar (þannig að heilsufarsávinningur hjólreiða skila sér), og eru eingöngu lítillega hættulegri annarri umferð (fyrst og fremst vegna þyngdar) og hjólreiðamanninum sjálfum, en reiðhjól.

Meiri hraði, meiri þyngd og ekkert líkamlegt erfiði þýðir að hjólið á orðið talsvert minna skylt við reiðhjól en útlitið gefur til kynna.

Haukur Eggertsson (IP-tala skráð) 7.5.2020 kl. 19:00

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

En geturðu þá svarað því af hverju bensínknúið hjól sem er fjórfalt þyngra og fimmfalt aflmeira má vera í 25 km/klst flokknum með handgjöf án þess að það sé skráð eða tryggt? 

Ómar Ragnarsson, 7.5.2020 kl. 19:59

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sum lönd leyfa 350 vatta mótor í 25 km flokki rafreiðhjóla, og það munar um þessa hálfu ljósaperu í afli. Af hverju ekki alveg eins hér?

Ómar Ragnarsson, 7.5.2020 kl. 20:01

4 identicon

Öll vélknúin ökutæki skv. umferðarlögum eru skráningarskyld. Létt bifhjól í flokki I eru hins vegar ekki tryggingaskyld, en þau eru gerð fyrir hámark 25 km/klst en létt bifhjól í flokki II geta farið allt að 45 km og þau eru tryggingaskyld.

Þannig að skráningaskyldan skilur þarna á milli, auk þess sem þau teljast vélknúin og lúta því strangari takmörkunum t.d. þar sem akstur vélknúinna ökutækja er bannaður.

Haukur Eggertsson (IP-tala skráð) 7.5.2020 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband