Það munaði bara tíu mínútum hér á dögunum að...

Að sögn "merkasta og mikilhæfasta forseta, sem Bandaríkin hafa átt síðan á dögum Lincolns" svo að vitnað sé í núverandi Bandaríkjaforseta, munaði aðeins tíu mínútum að hann léti sem æðsti yfirmaður Bandaríkjahers hefja stórárás á Íran hér á dögunum; loftárásir á alls um hundrað skotmörk, sem hefði komið af stað stórstyrjöld í Miðausturlöndum, sem enginn hefði fyrirfram getað séð, hvaða framvindu hefði fengið. 

Frásögn forsetans af eðli þess máls á sínum tíma er í fullu samræmi við það sem hann segir núna þess efnis að hann hafi vald til að taka svona ákvarðanir án þess að spyrja þingið um neitt eða að ráðfæra sig við það. 

Þetta hafa þó fyrrverandi og ómerkilegri forsetar en Trump talið sig þurfa að gera, svo sem Lyndon B. Johnson 1964, þegar hann hann stóð fyrir árás Bandaríkjahers á Norður-Víetnam 1964 í kjölfar svonefndrar Tonkinflóaárásar norður-víetnamiskra skipa á skip Bandaríkjamanna. 

Robert McNamara þáverandi varnarmálaráðherra játaði síðar, að réttlæting þessarar aðgerðar og fleiri af hálfu Bandaríkjamanna hefði verið byggð á fölskum forsendum og reynst afdrifarík mistök sem kostaði milljónir manna lífið. 

"Sterkir leiðtogar" okkar tíma á borð við þann bandaríska og þann ungverska gæta þess vandlega að halda fram ítrustu völdum sínum, og slíkt virðist færast í vöxt. 

Nýjasta dæmið núna markar viss tímamót. 

Ungverski forsætisráðherrann fékk þó þingið til að samþykkja einveldi sitt til að stjórna með tilskipunum eins lengi og hann sjálfur vilji án þess að ráðfæra sig við þingið. 

Trump telur sig ekki þurfa neitt slíkt gagnvart bandaríska þinginu. Hann einn geti með tíu mínnútna fyrirvara hafið hverja þá styrjöld sem hann telur nauðsynlega. 

Árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941 og árásin á New York og Washington 11. september hafa til þessa verið taldar þær mestu á Bandaríkin í sögu þeirra. 

En nú skilgreinir Trump heimsfaraldur COVID-19 sem stærstu árásina, og að þessa árás hafi Kínverjar gert til þess að koma í veg fyrir endurkjör hans. 

Sem auðvitað undirstrikar mikilleik hans. Það er ekki á hverjum degi sem annað af tveimur stærsu efnhagsstórveldi heims hrindir af stað árás á einn mann.

Og úr því að þessi nýjasta árás felur í sér stærsta stríðið, sem háð hefur verið gagnvart Bandaríkjunum, er þess meiri þörf á því að afburða forseti sýni hvers hann er megnugu gagnvart svo hrikalegri ógn. 

Og því stærri sem óvinurinn er, því frekar muni fólkið fylkja sér á bak við mikilhæfan leiðtoga. 

George W. Bush eyddi miklum tíma og fyrirhöfn í það fyrir innrásin í Írak 2003 að láta búa til "sönnunargögn" um það að Saddam Hussein væri í þann veginn að hafa tilbúin gereyðingarvopn, sem "ógnuðu allri heimsbyggðinni." 

Bush taldi mikilvægt að fá samþykki þingsins til að ráðast á Írak og fékk það samþykki á grundvelli tilbúinna gagna, sem notuð voru í mikilli áróðursherferð. 

Vilson forseti taldi samstöðu þings og forseta mikilvæga 1917 þegar Bandaríkin hófu þátttöku í Fyrri heimsstyrjöldinni.  

Yfirlýsing Trumps markar því tímamót að því leyti, að sem mikilhæfasti forseti Bandaríkjanna í 160 ár eigi hann ekki að þurfa neitt slíkt, hvorki að leita álits þingsins né að sýna eða nefna nein gögn, sem styðja mál hans. 

Í hans huga og fylgismanna hans er alvald hans í þessu efni sem og öllum öðrum sem varðar beitingu langöflugasta herafla heims hið sjálfsagðasta mál. 

Og fagnaðarefni fyrir allar þjóðir heims. 

Við lifum á merkilegum tímum. 

 

 


mbl.is Neitar að láta takmarka völd sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er svo sem alveg í takt við málnotkun hans hingað til. Til dæmis tal um ósýnilega óvin. Hins vegar hefur maður áhyggjur af þessa líkingu hans núna, er hann að gefa í skin fyrirhugaða stríðsyfirlýsingu við eitthvað annað en kórunu? Ekki beint það sem alþjóð þarf á að halda. 

Úlfar Bjarki Jóhannsson (IP-tala skráð) 7.5.2020 kl. 09:51

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

"Nú lágu Danir í því" Málefnaleg gagnrýni "síðuhafa" á valdaöflin.  Fréttagreinanda og skemmtir í marga áratugi.  Rómverjar og Grikkir voru ákaflega liðtækir í þessari hernaðarlist og brenndu borgirnar eftir að þeir höfðu hertekið þær. Íbúar teknir í þrælahald.

Þeir sem eru voldugastir og hæfileikamestir að byggja upp stórveldi hafa jafnan getað farið fram án þess að rökrétt hugsun væri alltaf við höfð. Bandaríkjamenn hafa löngum verið frjálsari en margar þjóðir til orðs og athafna. Þar eru margir líka ósammála núverandi stefnu forsetans.

Greta litla, þótt ung sé er dæmi um einstakling sem nær að vekja upp milljónir manna og benda á að eitthvað verður að gera við mengun og ofnotkun. Þótt ekki væri satt nema hluti af því sem hún hefur vakið athygli á er það eitt umtalsvert. Áhrif veirunnar hefði ekki orðið jafn skörp nema af því að jarðvegur hefur myndast. Nú deyja mun færri úr mengun í Kína og Indlandi.

Sigurður Antonsson, 7.5.2020 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband