Hvað með Alcoa Fjarðarál? "Rýtingur í bakið"?

Alcoa Fjarðarál nýtur þeirra sérréttinda að vera í raun með undanþágu frá því að greiða tekjuskatt, sama hvað vel gengur. 

Í orkusölusamningi fyrirtækisins var sett ákvæði, sem bindur hendur ALþingis allan 40 ára samningstímann til að setja ekki þak á þær upphæðir, sem Alcoa má færa til á milli dótturfyrirtækja sinna til þess að komast hjá því að greiða tekjuskatt af þeim stóru upphæðum, sem álverið hefur grætt frá því það var tekið í notkun. 

Um samningana gildir sama góða leyndin og þykir svo sjálfsögð um orkuverðið, en víst er að skattfrjálsi gróðinn nemur mörgum tugum milljarða króna samtals þessi ár. 

Ákvæðið góða felur í sér, að einfaldur sölusamningur milli tveggja aðila bindur hendur Alþingis áratugi fram í tímann, en í stjórnarskránni segir skýrt að Alþingi hafi fjárveitingavaldið og setji fjárlög. 

Mikið og eðlilegt fár hefur verið út af því að nokkur stórfyrirtæki hafi "rekið rýting í bakið" á samstöðunni um neyðaaðstoð til fyrirtækja sem COVID-19 faraldurinn léki grátt, þegar upp komst að greiða átti arð í stórum stíl á sama tíma sem tekið var á móti neyðaraðstoð. 

Hvað er þá hægt að segja um Alcoa sem fær að halda sínum falda gróða vegna skattfríðinda, sem tryggð eru áfram eins og ekkert sé og þar að auki þiggja "neyðaraðstoð" í formi stórfellds afsláttar á orkuverði?  


mbl.is Landsvirkjun lækkar verð til álvera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, synd þeirra útlendinga sem hafa hag af viðskiptum við Íslendinga er mikil.

Vagn (IP-tala skráð) 10.5.2020 kl. 04:54

2 identicon

Farðu nú að finna þér annað áhugamál.Þú hefur fram að þessu hatast út í allt sem hefur verið til bóta á Austurlandi.'a Ausurlandi er næg atvinna  og er hún til kominn vegna td ALCOA sem þú hatar,átamt öflugum fyrirtækjum sem þjónusta álver og virkjun sem malar gull  í þjóðarbúið.Einnig eru öflugum sjávafrútvegi.

256 (IP-tala skráð) 10.5.2020 kl. 05:59

3 identicon

Fyrir liggur að Álverið í Straumsvík hefur verið að pakka saman undanfarnar vikur og hugsanlega stefnt að því að loka 28. þessa mánuðar þegar samningurinn við landsvirkjun rennur út. Það væri glapræði að gera ekki allt til að sú staða kæmi upp . Það eru einfaldlega þúsund störf í hættu ef allt er talið með. Þessir starfsmenn eru að borga sína skatta í þjóðarbúið sem ekki er vanþörf á a´þessum tímum. Stórnotendur eru  líka gróðurhúsin svo þessi ákvörðun landsvirkjunar ýtir undir aukna verðmætasköpun þar.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 10.5.2020 kl. 07:29

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er auðvelt að afgreiða sem "hatur" allar athugasemdir við það hvernig sum stórfyrirtækin hafa nýtt sér samstöðu þjóðarinnar um neyðaraðstoð til að viðhalda arði og öðrum gróða eins og ekkert hafi gerst. 

Fjármálaráðherra landsins má þá væntanlega búast við því að ummæli hans um að "rekinn hafi verið rýtingur í bak samstöðu þjóðarinnar" verði afgreitt sem "hatur" hans.  

Ómar Ragnarsson, 10.5.2020 kl. 08:31

5 identicon

Þjóðarframleiðsla á hvern Íslending er mest á Austurlandi, þökk sér álveri og virkjun.

Nú syrtir hins vegar í álinn á Íslandi enda renna framleiðendur skítugrar kola-, gas- og kjarnorku (hitaorkuver) ásamt vind- og sólarorku hýru auga til batterísáhrifa miðlunarlóna Íslands sem meginlandsþjóðirnar ætla sér að nýta til að auka orkuöryggi sitt og lækka verð til virðisaukandi starfsemi á meginlandinu samkvæmt yfirlýstum markmiðum ESB.

Þetta þýðir einfaldlega að virðisaukinn verður fluttur úr landi enda sendir ESB Íslendingum stöðug hótunarbréf í gegnum EES(ESA) um að vatnsaflsvirkjunum og nýtingarrétti vatnsaflsvirkjana til allt að 90 ára, með framlengingum, verði komið strax í hendur einkaaðila með útboðum á innrimarkaði ESB sem þýðir jafnframt að bannað verður að standa í vegi fyrir sæstrengjum eða stækkunum miðlunarlóna.

Fyrir þá sem halda að ekki sé hægt að smíða sæstrengi sem munu tappa allri virðisaukandi orku af Íslandi ættu að kynna sér smíði og lagningu EuroAsia Interconnect verkefnisins en þar er ESB þegar að smíða sæstrengi sem eru 1200km langir og geta flutt 2000MW sem kemur frá gasorkuverum í Ísrael og Kýpur en líftími þessara orkuvera er áætlaður 50 ár á meðan Íslenskar vatnsorkulindir eru óendanlegar.

Sá sem heldur að ESB sé ekki skít sama hvort þeir sökkvi hálendi Ísland undir miðlunarlón þar sem vatnshæð getur verið breytileg um tugi metra innan dagsins lifa í heimsku eða fávísisbólu.

https://euroasia-interconnector.com/ 

Bergmundur (IP-tala skráð) 10.5.2020 kl. 08:37

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í pistlum, greinum og viðtölum hefur sæstrengsmálið og ásóknin í að fórna einstæðum náttúruverðmætum Íslands verið rakin ítarlega, meðal annars með grein í Fréttablaðinu á sumardaginn fyrsta í fyrra, sem bar heitið "Tíu vegvísar og heilög vé." 

Síðan þá hefur vegvísunum fjölgað upp í þrettán, en þar er um að ræða yfirlýsingar helstu valdamanna landsins í þá draumsýn að stefna að minnst tveimur sæstrengjum fyrir þúsundir milljarða til þess að framleiða 20 sinnum meiri raforku en við þurfum sjálf fyrir íslensk fyrirtæki og heimili. 

Ómar Ragnarsson, 10.5.2020 kl. 13:40

7 identicon

Til þess að flytja 20 sinnum meiri raforku, hefurðu væntanlega ætlað að segja. en ertu ekki kominn svolítið út fyrir efnið? 

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 10.5.2020 kl. 14:29

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við framleiðum nú þegar sex sinnum meira rafmagn en við þurfum til íslenskra fyrirtækja og heimila. 

Það fer auðvitað saman að framleiða orku og flytja hana frá seljanda til kaupanda. 

Nokkrir vegvísanna fyrrnefndu sýna þann einbeitta vilja og draumsýn að tengja landið með sæstrengjum við Evrópu og opna þannig á takmarkalausar virkjanir á vatnsafli, háhita og vindorku. 

Þegar eru komnar á kreik fyrirætlanir um að virkja um 3200 megavött í risa vindorkuverum og vatnsafls- og gufuaflsvirkjanir í undirbúningi eru annað eins. 

Það þýðir, að það er stutt í 20 földun orkuframleiðslunnar, og þess vegna sagði forstjóri Landsvirkjunar á ársfundi hennar fyrir nokkrum árum, að það væri ekki spurning um hvort, heldur hvenæar sæsstrengjahugmyndirnar yrði að veruleika. 

Ómar Ragnarsson, 10.5.2020 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband