13.5.2020 | 22:02
Bæði borgin og borgararnir verða að fylgjast með þróuninni.
Ein mikilvægasta almenna staðreyndin varðandi þá, sem ferðast hjólandi, er sú að sá sem er á hjóli, hvar sem er í gatna- og stígakerfinu, er ekki ekki samtímis á bíl, og gefur því bílanotendum eftir rými á götunum, þar sem annars væri bíll á ferð.
Það aftur á móti sparar fé og gefur færi á greiðari bílaumferð, og með tilliti til þess ætti að dæma réttmæti þess að bæta aðstæður fyrir notkun hjóla.
Að þessu leyti er maður á hjólinu vinur einkabílsins en ekki óvinur og þegar borgaryfirvöld hvetja til notkunar hjóla er það til lítils, ef ekki eru skapaðar aðstæður til þess að hún sé möguleg án vanrækslu á viðhaldi hjóla- og göngustíga sem leiðir af sér óþarfa slysahættu.
Á meðfylgjandi mynd á tengdri frétt á mbl.is sýnist síðuhafa hún vera af vesturenda hins þekkta hjólastígs yfir Geirsnef.
Svona á stígurinn að vera merktur, en á því hefur verið talsverður misbrestur undanfarin ár, og hefur síðuhafi í beinbrots hjólaslysi á þeim stíg, þar sem ekki hefði orðið það slys, ef stígurinn hefði verið með ómáðri málningu og verið hálfum metra breiðari.
Það furðulega er, að hjólastígurinn þarna er mjórri en göngustígurinn skammt frá. Þannig er það víðar í borginni.
Hjólaslysið varð þannig að stýri hjólanna rákust saman þegar þau mættust, af því að öðru hjólinu var skyndilega sveigt fyrir hitt. Aðalorsök slyssins var reyndar sú, að annar hjólreiðarmannanna var að reyna að lesa niður fyrir sig á mæli á hjólinu og ætlaði að reiða sig á að sjá jafnframt máða merkinguna á miðju stígsins meðan hann væri að lesa!
Síðan hvarf merkingin og hann sveigði yfir á akreinina fyrir umferðina á móti.
Á Akureyri stóð til í fyrra að breikka hjólastíginn fram í Eyjafjörð um hálfan metra, úr 2,5 upp í 3, til að minnnka slysahættu, og stígurinn á Geirsnefinu og fleiri slíkir mættu alveg vera aðeins breiðari en 2,5 metrar.
Og það er lágmarks krafa, fyrst á annað borð er verið að mála tilskyldar línur á stígana, að þeim sé vel haldið við.
Og sérstakir hjólastígar án gangandi fólks eru nauðsynlegir til þess að hinn lági "gönguhraði" sem krafist er á blönduðum stígum, sé ekki til fælandi fyrir hjólafólk, heldur geri þá aðlaðandi.
Gönguhraði er varla meiri en 6-7 km/klst, sem er ansi miklu minna en 25 km/klst hámarkshraðinn, sem óskráð rafreiðhjól miðast við. Of mikil umferð á blönduðum stígum bitnar meira á hjólreiðafólki en gangandi fólki og eykur á hættu á því að of hratt sé farið á hjólunum.
Í Danmörku, því mikla hjólalandi, er hámarkshraði rafreiðhjólanna 30 km/klst, sem fellur vel inn í umferðina á akstursgötum, sem eru með 30 km/klst hámarkshraða fyrir alla umferð.
Það er ekkert fengið með því að hjól á ferð í hverfum með slíkum hraða fari það mikið hægar en bílarnir að þau þvælist fyrir þeim og skapi hættu.
Fleiri lönd en Danmörk, bæði austan og vestan hafs eru með aðeins hærri hámarkshraða en 25 km/klst.
Reglurnar sem gilda á hjóla- og göngustígum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ein mikilvægasta almenna staðreyndin varðandi þá, sem ferðast hjólandi, er sú að sá sem er á hjóli er að tefja umferð og draga niður hraða bíla.
Hjól í umferðinni gefa ekki færi á greiðari umferð, jafnvel þó bílum fækki, og með tilliti til þess ætti að dæma réttmæti þess að banna notkun hjóla á umferðargötum.
Hjólahraði er varla meiri en 20-30 km/klst, sem er ansi miklu minna en 60-70 km/klst hraði bíla. Of mikil umferð á blönduðum götum bitnar meira á bílum en hjólreiðafólki og eykur eldsneytiseyðslu og mengun í borginni. Auk þess sem verðmætur tími tapast hjá þeim sem hjólið situr og hinum sem hann er að tefja.
Og það er lágmarks krafa, fyrst á annað borð er verið að mála línur sem afmarka bílaumferð á götum, að hjólreiðarmenn haldi sig utan þeirra og séu ekki að blanda sér í umferð bíla. Hjólreiðafólk ekkert með að vera annarstaðar en þar sem sérstaklega er afmarkað fyrir það.
Í Danmörku, því mikla hjólalandi, bjórdrykkju, reykinga og kláms er hámarkshraði rafreiðhjólanna 30 km/klst, sem fellur vel inn í umferðina á akstursgötum, sem eru með 30 km/klst hámarkshraða fyrir alla umferð. Megnið af götum Reykjavíkur eru með 50 km/klst og hærri hámarkshraða, hámarkshraði rafreiðhjólanna 30 km/klst, fellur því ekki vel inn í umferðina á götum Reykjavíkur.
Reiðhjólin eru óvelkomin í allri umferð Reykjavíkur. Óvelkomin og öllum nema hjólreiðafólki til ama og óþæginda, eins og hundaskítur.
Vagn (IP-tala skráð) 13.5.2020 kl. 23:06
Ég hef aldrei séð nein dæmi þess að reiðhjól hafi hægt á umferðarhraða bíla úr 80 km/klst niður í 25 km/klst. Þaðan af síður að létt bifhjól, sem nær meira en 80 km hraða hafi hægt á neinni bílaumferð.
Vagn hefði gott af því að skoða umferð í borgum erlendis þar sem stór hluti umferðarinnar byggist á því á álagstímum, að léttu bifhjólin komist leiðar sinnar þúsundum saman á sama tíma sem bílarnir eru fastir í þvögu, sem þeir einir skapa.
Vagn ætti endilega að fara til annarra landa og útskýra útrýmingu allra hjóla úr umferðinni með því að þau séu "óvelkomin og öllum til ama og óþæginda eins og hundaskítur."
Ómar Ragnarsson, 14.5.2020 kl. 12:42
Ég hef séð dæmi þess að eitt reiðhjól hafi hægt á umferðarhraða hundruða bíla úr 80 km/klst niður í 0 km/klst.
Ómar hefði gott af því að skoða umferð í borgum erlendis þar sem stór hluti umferðarteppa orsakast af því að reiðhjól þvælast fyrir þúsundum saman á sama tíma sem bílarnir eru fastir í þvögunni sem reiðhjólin skapa.
Ómar ætti endilega að fara til annarra landa og útskýra hvers vegna reiðhjól og hundaskítur séu velkomin og öllum til yndis og ánægju.
Vagn (IP-tala skráð) 14.5.2020 kl. 19:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.