75 ára gamalt deiluefni skýtur upp kollinum.

Mismunandi skoðanir hafa alla tíð verið á hernaðarframkvæmdum á Íslandi og öðrum framkvæmdum í sambandi við þær. 

Strax árið 1945 vildi Jónas Jónsson frá Hriflu að Íslendingar samþykktu tilboð Bandaríkjamanna um að þeir fengju að reisa hernaðarmannvirki á Keflavíkurflugvelli, í Skerjafirði og í Hvalfirði, en þá sat svipuð ríkisstjórn og nú situr og Jónas var einn um þessa skoðun á þingi. 

Svonefndur Keflavíkursamningur 1947 um að halda við aðstöðu Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli sprengdi ríkisstjórn Sjálfstæðismanna, Sósíalistaflokksins og Alþýðuflokksins. 

Þegar stríðsgróðinn hvarf 1948 fylgdi kreppuástand sem stóð framundir 1960. 

Koma varnarliðsins til Keflavíkurflugvallar 1951 hafði í fðr með sér talsverðar framkvæmdir þar, sem urðu drjúgur hluti af þjóðartekjum og milduðu kreppuna. 

Ýmsir vildu þó meira og þá varð til stefna, sem nefnd var Aronska eftir aðal forvígismanni hennar. Bandaríkjamenn orðuðu auknar framkvæmdir, meðal annars eflingu aðstöðunnar í Hvalfirði og gerð hraðbrautar frá Suðurnesjum stystu leið upp í Hvalfjarðarbotn um Svínaskarð. 

Einnig var uppi hugmynd um gerð stórs flugvallar nálægt Hellu á Rangárvöllum. 

Á þessum árum voru Framsóknarmenn samfellt í samsteypustjórnum frá 1947-1958 og þegar varnarliðið kom fór nýstofnaður Þjóðvarnarflokkur 1953 að höggva í raðir þeirra. 

Bjarni Benediktsson var mikill áhrifamaður um utanríkismál, og horfði yfir pólitíska sviðið frá víðu sjónarhorni. Í ríkisstjórnasamstarfi Sjálfstæðisflokksins 1947-1956 kom það sér ekki vel ef annar hvor þessara flokka veiklaðist mikið, og kannski hefur það átt þátt í því að Bjarni og fleiri í þessum flokkum lögðust gegn Aronskunni. 

Svo fór samt að Framsóknarflokkurinn fór í forsvar fyrir vinstri stjórn 1956-1958 með hugmyndum um brottför varnarliðsins og aftur 1971-1974. 

Í hvorugt skiptið fór herinn og stór undirskriftarsöfnun, "Varið land", varð til þess 1974, að síðan þá hefur það ekki verið á dagskrá neinnar ríkisstjórnar, hvorki til hægri né vinstri, að láta herinn fara. 

2006 fór hann samt, þrátt fyrir að þáverandi stjórn Sjalla og Framsóknar reyni að fá Bandaríkjamenn ofan af því.  

Í raun hefur Aronskan aldrei horfið alveg af sjónarsviði utanríkismálanna, og nú skjóta upp kollinum gamalkunnug deiluefni um varnarliðsframkvæmdir, bæði beinar og óbeinar 


mbl.is Höfnuðu framkvæmdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á árunum eftir stríð var hér bandarískur sendiherra, sem Dreyfus hét. Þá var Ólafur Thors forsætisráðherra. Ekki munu þeir hafa átt skap saman, forsætisráðherrann og sendiherrann. Stundum gat verið dálítill "strákur" í Ólafi og ekki allt meint í fúlustu alvöru sem hann sagði.

Ef ég man rétt þá á Ólafur einhvern tímann að hafa kvartað undan því að Dreyfus tæki allt alveg bókstaflega sem hann segði, enda þótt öllum mætti vera ljóst að mest af því væri bull.  

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 14.5.2020 kl. 15:30

2 identicon

Mér dettur alltaf í hug „Af hverju borða þau ekki bara kökur“ þegar elítan vill ákveða hvað sé alþýðu þóknanlegt að hafa sitt lífsviðurværi af og hvað ekki, enda er ég alinn upp í Keflavík meðan Reykvíkingar máttu víst bara horfa og hlusta á RUV.

Það er ekkert sem mælir á móti þessum framkvæmdum sem skapa vinnu og skilja eftir mannvirki sem gætu nýst í annað – Keflavíkurflugvöllur væri sennilega ekki til ef hann hefði ekki verið byggður fyrir U.S  Navy  base Keflavik.

Grímur (IP-tala skráð) 14.5.2020 kl. 18:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband