Ein af helstu ástæðunum fyrir því að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd 1262 var sú, að Íslendingar gátu ekki af eigin rammleik staðið fyrir nauðsynlegum millilandasiglingum.
Þess vegna var sérstakt ákvæði um það í samningnum um að konur tryggði skipasamgöngur.
Ástæðurnar voru ekki bara lamandi áhrif innanlandsófriðar, heldur einni kólnandi veðurfar og skortur á viði til skipasmíði innanlands, meðal annars vegna ráyrkju í skógarhöggi.
Þegar aldirnar liðu dugði þetta ákvæði ekki einu sinni til, það komu ár, jafnvel tvö í röð, þegar engar siglingar voru til og frá landinu.
Í eitt skipti varð það þó til góðs og frestaði komu svartadauða til landsins um hálfa öld.
Fram á þrettándu öld réði það markaðslögmál, að alltaf myndu einhverjir sjá sér hag í því að smíða skip og / eða sigla þeim til landsins.
En Gamli sáttmáli sýndi að þetta gekk ekki lengur.
Nú má heyra svipaðar röksemdir fyrir því að lofa Icelandair bara að róa og láta markaðinn ráða.
Svipaðar röksemdir hljóta þá að hafa heyrst varðandi þau stóru flugfélög í öðrum löndum, sem ríkisstjórnarnar þar hafa ákveðið að láta ekki fara í þrot.
Ekkert af þeim löndum er þó með þær aðstæður okkar að engar landssamgöngur eru við önnur lönd. Og líklega er ekkert af þeim löndum, þar sem stærsti atvinnuvegur landsins er gersamlega háður millilandaflugi. Þetta er lífæðin og hefur verið frá landnámi.
Sú röksemd er líka glannaleg að með því að séð sé til þess að Icelandair geti haldið áfram rekstri sé verið að krefjast þess að félagið "moki" ferðamönnum inn í landið.
Tvær milljónir ferðamanna á ári er engin nauðsyn, heldur var fjöldinn orðinn of hár á árunum 2016-2018.
Algert hrun ferðaþjónustunnar mun ekki gera almenna efnahagsstöðu okkar neitt skárri, heldur munu þau tök sem stóriðjan með Rio Tinto í broddi fylkingar eru að þvinga fram með hótunum um lokun verða erfiðari við að eiga.
Við yrðum þá að óþörfu háðari þessum erlendu auðfélögum en ráðlegt er.
Óvíst hvort einhver myndi fylla í skarð Icelandair | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sjálfstæði þjóða ræðst ekki í góðæri. Það er þegar stríð og kreppur ganga yfir að þjóðir ýmist halda sínu sjálfstæði eða missa það. Þrengingar, skortur og einangrun geta verið banabiti sjálfstæðis.
Í góðærinu flugu hingað yfir 20 flugfélög. Núna er eitt sem heldur uppi flugsamgöngum við útlönd. Eitt sem sótti strandaða Íslendinga. Eitt sem sótti sjúkragögn til Kína. Ekkert hinna erlendu flugfélaga sýndi því hinn minnsta áhuga að þjónusta Íslendinga þó peningar hafi ekki verið fyrirstaða. Og nú er eitt flug héðan á dag sem skiptist á þrjá áfangastaði og fjögur fraktflug þangað sem vörurnar eru sem þörfin er mest fyrir.
Hvað þarf miklar þrengingar? Hvað þarf skortur að vera mikill? Og hvenær verður einangrunin óbærileg? Við bankahrunið varð stuðningur við inngöngu í ESB fljótt yfir 60%. Hefðu samningar tekið vikur en ekki ár þá hefði innganga verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnarskránni vildi fólk kasta á haugana og haldin var brunaútsala þar sem lánasöfn, fyrirtæki og fasteignir voru seldar útlendingum. Sjálfstæðið hefði getað farið fyrir lítið hefði einhver haft áhuga á að bjóða í það. Það var svo ekki fyrr en birta tók á ný að stuðningur við inngönguna fór þverrandi, þeim sem seldu útlendingunum var formælt og stjórnarskráin varð heilagt plagg þeirra sem vildu halda í sjálfstæðið.
Hugsjónir kosta minna en margir halda. Frelsi og einkalíf er til sölu fyrir öryggi. Sannfæringu mikils meirihlutans má stundum kaupa fyrir súpudisk. Og sjálfstæði þjóðar fyrir eitt skip á ári. Fólk hefur ekki mikið breyst frá 1262.
Vagn (IP-tala skráð) 17.5.2020 kl. 05:13
Það vill enginn að Icelanair fari í þrot en að ríkið fari að moka okkar fjármunum í þá hít sem hverfur í loftinu (Money heaven?).
Maður man þá tíð þegar aðverkefni forstjóra útgerðafélaga virtist vera að sitja á biðstofu ráðherra og biðja um fyrirgreiðslu til að halda atvinnuástandinu gangandi í bæjarfélögum á Íslandi - þeir peningar eru smáaurar miðað við Icelandair.
Grímur (IP-tala skráð) 17.5.2020 kl. 08:33
Gamli sáttmáli var gerður vegna þess (meðal annars) að það vantaði siglingarnar. En það hefur ekki verið skortur á flugfélögum sem sjá sér hag í að fljúga til Íslands. Landið er enn lokað en þó eru þegar að berast fréttir af því að erlend flugfélög séu að undirbúa að hefja flug hingað að nýju. Og komi að nýju upp aðstæður á borð við þær sem hafa ríkt síðan um miðjan mars, þá er ekkert því til fyrirstöðu að ríkið semji við eitthvert flugfélag um að halda uppi flugi hingað. Alveg eins og ríkið raunar gerði: Án niðurgreiðslna væri Icelandair ekki að fljúga héðan, neitt fremur en önnur flugfélög. Og hvernig er þá hægt að halda því fram að tilvist þess nægi til að tryggja samgöngur.
Þetta eru bara bullrök sem halda engu vatni.
Þorsteinn Siglaugsson, 17.5.2020 kl. 11:44
Þetta er nokkuð til í þessu hjá þér Ómar, þjóðveldið og lýðveldið teljast til gullalda Íslandssögunnar. Og ef menn nenna að lesa originalinn af Sturlungu þá kemur í ljós að í Flóabardaga og eftirmálum hans var stór hluti af skipastól landsins eyðilagður.
Á Sturlungaöld var íslensk "stjórnsýsla" svo löskuð af valdafíkn og auðsöfnun að hver "höfðinginn" um annan þveran gerði sig gildandi í skjóli erlends valds. Það má leiða líkum að því að svo hafi orðið fyrir tilstilli þess að landsmenn ákváðu að taka upp "einn sið" rómarvaldsins árið 1000.
Í lok Sturlungaaldar voru helstu höfðingjar landsins, aðrir en Gissur jarl og Sturla Þórðarson, ungt reynslulaust fólk með ættarauðinn og hefndarskylduna á herðunum. Samsvörunin við nútímann er því augljós nema nú ganga hlutirnir mun hraðar fyrir sig en áður.
Ungt reynslulaust fólk og auðrónar eru að stúta lýðveldinu með tilstilli EES samningsins. Og haldi einhver af barnaskap að erlendir auðrónar haldi uppi samgöngum við land sem byggt er rúmlega 300 þús hræðum, án stórgróða, þá er það hreinn misskilningur.
Menn skildu allavega fara varlega í að ætla það sjálfgefið að túrismi verði í sama mæli eftir kóvítið og hann var fyrir, því ef sagan er skoðuð þá hefur sportflækingur almúgans sjaldan verið liðinn til lengdar í veraldarsögunni.
Magnús Sigurðsson, 17.5.2020 kl. 13:22
Ef það væri rétt að erlend flugfélög haldi ekki uppi ferðum hingað af sjálfsdáðum í framtíðinni, þá væri til lítils að ímynda sér að félög með heimilisfesti á Íslandi gerðu það neitt frekar. Því forsendan hlýtur þá að vera sú að slíkt flug borgi sig ekki, þvert á reynsluna. Niðurstaðan hlyti því að vera sú að ríkið yrði að eiga og reka flugfélag. Það væri hins vegar ákaflega heimskulegt að stökkva af stað í það verkefni á grundvelli slíkra vangaveltna einna saman. Til þess þyrfti fyrst að koma á daginn að þörfin væri fyrir hendi. Það hefur síður en svo komið á daginn, þvert á móti hið gagnstæða, enda hafa tugir flugfélaga verið að fljúga til Íslands hvað svo sem aðstæðum á Sturlungaöld leið.
Þorsteinn Siglaugsson, 17.5.2020 kl. 15:19
Það eru áhrifin á hugarfar þjóðarinnar sem skipta máli. Að þurfa að fara með betlistaf til annars ríkis gerir sjálfstæðið að markaðsvöru. Og þá mundu margir vilja sameinast þeim bjargvættum frekar enn að halda í stjórnvöld sem eru ósjálfbjarga. Sjálfstæði okkar hefði verið tilraun sem ekki virkaði til lengdar. Það segir sitt að yfirgnæfandi meirihluti vildi ganga í ESB á fyrstu mánuðum síðustu krísu.
Vagn (IP-tala skráð) 17.5.2020 kl. 16:28
Það að versla við fyrirtæki í öðru landi er ekki "að fara með betlistaf til annars ríkis". Er það að kaupa flugvél af Airbus þá að "fara með betlistaf til annars ríkis"? Eða að flytja inn hveiti, sem er ein þeirra fjölmörgu vara sem ekki er hægt að framleiða hér?
Hvers konar dómadags vitleysa og bull er þetta eiginlega? Er fólk alveg búið að tapa glórunni?
Þorsteinn Siglaugsson, 17.5.2020 kl. 16:47
Ég sel það ekki dýrara en ég keypti að íslenskir lífeyrissjóðir eigi tæplega 50% í Icelandair, hvort ríkið bætir við einhverju til eða frá með framlagi eða ábyrgð er svosem ekki aðalmálið.
Það er ekki svo ýkja langt síðan, eða c.a. 12 ár, að til tals komst að íslenska ríkið þjóðnýtti lífeyrissjóðina.
Ef það væri gert þá gætu íslenskir ríkisborgarar orðið á pari við norska hvað lífeyrisfyrirkomulag snertir.
Það eru margir möguleikar aðrir í stöðunni en láta Icelandair fara í þrot á uppboði lélegra markaðsaðstæðna auðrónum til ábata.
Magnús Sigurðsson, 17.5.2020 kl. 17:43
Eldgosið í Salamas á Indónesíu, 1257, olli harðindum og hungursneyð víða um heim, m.a. á Englandi. Getur verið að það hafi átt einhvern þátt í Gamla sáttmála?
"Ekki saga" eru vafasöm vísindi, en þó mætti ímynda sér að hefðum við ekki gengist undir Hákon gamla Noregskonung, þá hefðu Englendingar lagt okkur undir sig, fyrr eða síðar. Værum við þá hluti af "Bretaveldi", líkt og skosku eyjarnar eða Mön. Indonesia’s Samalas Volcano may have Kickstarted the Little Ice Age!
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 17.5.2020 kl. 17:54
Ekki þarf annað en að koma til Orkneyja til að sjá, hvaða örlög hefðu beðið okkar ef Bretar hefðu ráðið yfir Íslandi. Miðað við það að lengst af þeim tíma sem við vorum eins og öll lönd í okkar aðstöðu, undir stjórn annarra ríkja, vorum við heppnir að það voru Danir en ekki einhver önnur þjóð sem réðu hér.
Ómar Ragnarsson, 17.5.2020 kl. 22:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.