Vindmyllur geta verið bæði tækifæri og ógn.

Halldór Magnússon skrifa grein um vindmyllur í Morgunblaðinu og finnur að því að umhverfisverndar- og náttúruverndarfólk láti sér ógn af þeim sér í léttu rúmi liggja. 

Ekki getur síðuhafi tekið það til sín. 

Hér á síðunni hefur margsinnis undanfarin ár verið fjallað um vindmylluæðið, sem nú hefur blossað upp eins og faraldur hér á landi, og í blaðagrein í Fréttablaðinu skrifað síðuhafi grein um aðsteðjandi ógn að náttúru landsins undir heitinu "Tíu vegvísar og heilög vé." 

Þessir vegvísar eru reyndar orðnir 15 nú, og felast allir í yfirlýsingum helstu valdamanna landsins undanfarin ár um þá brýnu þörf "til að vinna gegn orkuskorti íslenskra heimila og fyrirtækja" að fjórfalda eða jafnvel fimmfalda núverandi orkuvinnslu og leggja tvo sæstrengi hið minnsta milli Íslands og Evrópu. 

Myndu íslensk heimili og fyrirtæki þá væntanlega fá til sín 5 prósent þessarar orku en stóriðjan og / eða orkumarkaður Evrópu 95 prósent. 

Fimmtándi vegvísirinn var að detta inn í gær í formi málaferla og mótmæla fjárfestanna gegn því að vindorkan falli undir Rammaáætlun, og skuli vindorkan undanþegin, einfaldlega vegna þess að aðeins vatnsorka og gufuaflsorka sé nefnd í áætluninni. 

Eitt atriði er aldrei nefnt í umræðunni um vindorkuna, en það er sú staðreynd, að í viðhorfskönnun hjá erlendu ferðafólki, hefur það sagt, að háspennulnur og vindmyllur trufli mest og skemmi fyrir upplifun þess af því, sem langflest þeirra eru komin til að njóta; einstæð og ósnortin náttúra Íslands. 

Við þetta má einnig bæta sögufrægustu byggðum Íslands, svo sem sagnaflestu sýslunni, Dalabyggð. 

Þar hafa fjárfestar sýnt einbeittan vilja til að reisa risavaxin vindorkukver við Búðardal og á Laxárdalsheiði. 

Vindorkugarðurinn við Búðardal myndi blasa við frá nær öllu sögusviði Laxdæla sögu, og á þeim forsendum hefur síðuhafi lagst gegn slíku orkuveri þar, nema færð yrðu rök fyrir því að þarna væru bestu aðstæður landsins til að reisa slíkt risamannvirki. Sem er þó er strax hægt að fullyrða, að er ekki raunin.  

Áður en vaðið væri í að umturna öllu útsýni og ásýnd Dalabyggðar væri nauðsynlegt að drífa í því að afmá þá skammarlegu vanrækslu sem falist hefur í því að láta ár og áratugi líða án þess að gera neitt marktækt í því að skoða, hvaða áhrif orkuvinnsla, sem þakið gæti allt landið frá hálendinu og út í sjó, gæti haft. 

Nú kunna einhverjir að segja að það sé alltaf sama sagan, að náttúruverndar- og umhverfisverndarfólk sé "á móti öllu," "á móti rafmagni" og vilji að þjóðin fari aftur inn í torfkofana." 

En það þarf ekki annað en að fara einn hring um landið til að sjá, að af þeim virkjunum, sem reistar hafa verið, eru tæplega 30 stórar virkjanir, sem þetta voðalega fólk samþykkti, allt frá Sogsvirkjununum til Búðarhálsvirkjunar og stækkunar Búrfellsvirkjunar. 

Vindorkan hefur ýmsa kosti, svo sem að framleiða hreina og endurnýjanlega orku og að mannvirkin eru að mestu afturkræf. 

Sú þögn, sem Halldór Magnússon kvartar yfir, er vegna þess að nauðsynleg vinna við mat á umhverfisárhrifum 34 stórvirjana upp á næstum fimm Kárahnjúkavirkjanir hefur alveg verið vanrækt. 

Byrja þyrfti á því að ákveða, á hvaða svæðum vindorkuverin valda minnstum umhverfisáhrifum og hvar þau valda mestum umhverfisáhrifum. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Þær eru nú víðast settar í sjó út og trufla þar minna. Þær fljóta á sjónum og  lifggja við akkeri . Svipað og sjókvíaeldið norska. Því ekki norskar vindmyllur við kvíarnar?

Halldór Jónsson, 24.5.2020 kl. 21:43

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég hafði sérstaklega gaman af því hvernig höfundi þessarar greinar hafði alveg misheppnast að átta sig á húmornum í Don Kíkóta.

Þorsteinn Siglaugsson, 24.5.2020 kl. 23:00

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, en það varð að reyna að finna út hvað hann meinti í alvörunni, þótt hann væri seinheppinn í þessu efni. 

Minnir mig á manninn, sem var svo óheppinn að skrifa grein í Morgunblaðið, þar sem hann nefndi nýlega virkjun í þjóðgarði í Ástralíu sem dæmi um það, að erlendis væri ekkert því fyrir fyrirstöðu að virkja í þjóðgörðum. 

Hann var svo óheppinn, að ég hafði farið á fund með Louise Crossley, sem barist hafði fyrir friðun Franklin árinnar á Tasmaníu og komið hingað til lands til að halda stórfróðlegan fyrirlestur um náttúruverndarbaráttuna í Ástralíu. 

Virkjuninni þeirri arna var hagað þannig, að hún var með neðanjarðartengingu við tvær virkjanir utan þjóðgarðs og voru öll mannvirki nýju virkjaninnar neðanjarðar og án nokkurs rasks á yfirborðinu. 

Fyrirsögn greinar minnar varð auðvitað "bjúgverpill frá Ástralíu." 

2002 hafði Jónas Elíasson prófessor, sem er góður vinur minn og hinn ágætasti maður, haldið því fram að Grand Lake virkjunin í Klettafjöllum norðan Denver hefði verið gerð inni í þjóðgarði. 

Til þess að átta mig á hverju þetta sætti, fór ég til Grand Lake, skoðaði virkjunina og tók myndir af því hvernig þessi virkjun hafði verið gerð á þann hátt að grafa neðanjarðar göng úr botni vatnsins talsverða vegalengd út fyrir þjóðgarðinn og koma þar fyrir laglegu miðlunarlóni nálægt byggðu svæði og stöðvarhúsið haft talsvert fjær. 

Vatnið Grand Lake er haft í stöðugri náttúrulegri hæð sinni með lokubúnaði í göngunum. 

Ómar Ragnarsson, 24.5.2020 kl. 23:34

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Persónulega finnst mér vindmyllur langtum skárri kostur en vatnsaflsvirkjanir svona yfirleitt. Það er vissulega rétt að þær hafa mikil sjónræn áhrif, en slíkar virkjanir eru hins vegar afturkræfar, og það skiptir mun meira máli. En að sjálfsögðu þarf að reyna að staðsetja þær þar sem sem fæstir verða fyrir þessum áhrifum.

Þorsteinn Siglaugsson, 25.5.2020 kl. 09:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband