7.6.2020 | 00:11
"Orkuskipti - útskipti - koma svo!" Pistill nr. 1.
Rafhlöðurnar og hleðsla þeirra eru aðal vandamálið, sem leysa þarf varðandi rafbíla, bæði hér á landi og víða um lönd.
Afkastameiri hraðhleðslustöðvar eru eitt atriðið en fleiri verkefni bíða lausna.
Myndin hér efst á síðunni var tekin í gær þegar síðuhafi sótti rafknúið léttbifhjól til þess að hefja nú í kvöld rannsóknir á einu atriði, sem hefur alveg farið fram hjá okkur Íslendingum, og er reyndar komið mislangt erlendis
Það snýst um það, að í staðinn fyrir að eyða ansi löngum tíma í að hlaða rafhlöður rafknúinna farartækja, sé rafhlöðunum einfaldlega skipt út; þær tómu teknar úr rafknúnu farartækjunum á sérstökum skiptistöðvum, en í staðinn settar fullhlaðnar rafhlöður.
Á myndinni sjást þrjú léttbifhjól, tvo rafknúin, en það stærsta bensínknúið, talið frá vinstri:
Super Soco Cux, Super Soco TC og Honda PCX 125 cc.
Myndin fyrir neðan hana er af bifhjólamanni í Tæpei á Tævan, sem er búinn að taka tóma rafhlöðu úr hjóli sínu til að setja inn í skiptikassa með hlöðnum rafhlöðum og taka út hlaðna rafhlöðu í staðinn. Tekur 10 sekúndur.
Þar í borg eru 759 skiptikassar til að þjóna rafbifhjólaeigendunum.
Tilbúin er áætlun hér heima með heitinu "Orkuskipti - útskipti - koma svo!" í svipuðum anda og þrjár aðgerðir á þessu sviði, sem þegar hafa verið framkvæmdar, en þær eru þessar:
Nr.1: "Orkuskipti - koma svo" 2015, á rafreiðhjólinu Sörla með orku frá hjólinu einu saman frá Akureyri á tæpum tveimur sólarhringum fyrir Hvalfjörð til Reykjavíkur fyrir 115 krónur í orkukostnað . Innan við 0,30 krónur á hvern ekin kílómetra!
Til þess að undirbúa þetta var fyrst farið í reynsluferð á hjólinu Náttfara norður, en gefist upp við verkefnið á því hjóli í Bakkaselsbrekkunni og skipt yfir í annars konar hjól, venjulegt reiðhjól með miðjumótor með gírum.
Nr.2: "Orkusnýtni - koma svo" 2016" á léttbifhljólinu Létti (Honda PCX vespulaga hjól), Reykjavík-Akureyri á sex klukkustundum fyrir 1900 krónu orkukostnað, og allur hringurinn á rúmum sólarhring fyrir 6400 króna orkukostnað. 5 krónur á hvern kílómetra. Til samanburðar er kostnaður á sparneytnustu eldsneytisknúnum bílum meira en 11 krónur á km.
Inn á milli myndanna úr leiðangrinum í kvöld er mynd af "Létti" í ágúst 2016, þar sem áð er við Jökulsárlón.
Nr.3: "Orkunýtni - útgáfuhljómleikaferð trúbadors" 2017. Sama léttbifhjól alls 2000 kílómetrar í rykk hringveginn og Vestfjarðahringinn í beinu framhaldi með þremur hljómleikum og ellefu plötukynningum á safndiskinum "Hjarta landsins."
Allir þessir leiðangrar kröfðust mislangs tilrauna - og rannsóknarferlis og þessi mun líka krefjast slíks.
Þrjár af neðstu myndunum eru teknar í leiðangrinum í kvöld.
Aðdragandinn að þessu leiðangri er orðinn býsna langur, en "Orkuskipti - útskipti - koma svo!" er í upphafi tilraunaferlis í undirbúningnum, sem stokkið verður í eftir því sem tækifæri gefast til á næstunni.
Við að pæla í þessum málum fyrir meira en tíu árum, var hægt að sjá fyrir sér eins konar skiptistöðvar fyrir rafbíla með útskiptanlegum rafhlöðum þar sem svona útskipti gætu farið fram.
Það, sem sýndist vera aðal þröskuldurinn, var að rafhlöður í meðal rafbíl eru svo óskaplega þungar, varla minna en hálft tonn og allt upp í heilt tonn í stærstu einkabílunum.
Það leiddi síðan hugann að því, hve miklu auðveldari svona útskipti yrðu á rafknúnum bifhjólum, einfaldlega vegna þess hve miklu léttari þau eru en bílar, 10 - 20 sinnum léttari.
Og viti menn, fyrir þremur árum fréttist af því að á Tævan væri verið að koma á fót heilu kerfi skiptistöðva fyrir rafbifhjólin Gogoro með vespulagi, þar sem rafhjólin voru bókstaflega sérhönnuð til að passa inn i slíkt skiptikerfi.
Síðan þá hefur þróunin verið ævintýralega hröð með Tævanina langt á undan, en aðra framleiðendur á leið í humátt á eftir þeim, bæði í Asíu og Evrópu.
Á árunum 2017 til 2019 urðu um 80 prósent rafknúinna léttbifhjóla með útskiptanlegum rafhlöðum, en það er ekki fyrr en fyrst núna, sem byrjað er að flytja þau inn til Íslands.
Fyrir því stendur fyrirtækið SRX með Elko sem söluaðila, og í gær hófst upphafið á tilraunaferli hér á síðunni með eina af þremur gerðum Super Soco bifhjóla, sem eru nú á boðstólum.
Og í kvöld var farin fyrsta tilraunaferðin og fyrsta prófunin gerð á drægni Super Soco Cux í 95 kílómetra langri ferð frá Spönginni í Grafarvogi austur að Litlu kaffistofunni og til baka aftur, en bætt við þremur kílómetrum til viðbótar.
Þessi vespulaga hjól eru með 3,7 hestafla rafhreyfli og hámarkshraðinn er 45 km/klst, en þar með fellur svona hjól í flokk sem kenndur er við þennan hraða, og eru bensínvespurnar í þessum flokki með 50 cc sprengirými.
Prófaðar verða tvær alveg eins rafhlöður, sú fyrri var prófuð í kvöld; en hin, sem prófuð verður seinna, var höfð meðferðis í farangurskassa aftan á hjólinu, sem hugsanleg vararafhlaða, en ekki kom til þess að grípa þyrfti til hennar í tilraunaferð kvöldsins, þar sem hún var tiltæk i farangurskassanum. Slíkur kassi er afar notadrjúgur á svona hjóli og setur mikinn svip á það.
Hitinn var níu stig, sem þýðir að drægnin var einungis vegna þess svala um 11 prósent minni en ella. (Drægni rafknúinna faratækja fellur um 1 prósent fyrir hvert 1 hitastig fyrir neðan 20 stiga hita) Framleiðandinn gefur upp 70 kílómetra drægi, en oftast má draga allt að helming frá uppgefnu drægi framleiðenda við raunverulegar íslenskar aðstæður, þvi að í prófununum, sem eru að baki uppgefinni tölu, er oft byggt á því að léttur ökumaður og léttklæddur án nokkurs farangurs ekur á hálfum hraða í logni í minnst 20 stiga hita með harðpumpuð dekk.
Fyrirfram hafði verið búist við því að drægið yrði varla meira en 40 kílómetrar, en það reyndist 48 kílómetrar, þannig að ef ónotaða rafhlaðan hefði verið notuð líka, hefði jafnvel verið hægt að komast alls allt að 100 kílómetra, svo sem frá Reykjavík upp í Bifröst í Borgarfirði eða frá Reykjavík austur á Hellu.
Og meðalhraðinn í þessari reynsluferð varð 45 km/klst.
Í næsta pistli um þessa aðgerð verður nánar greint frá reynsluakstrinum á Super Soco Cux, sem var einkar ánægjulegur. Mestan þátt í því á léttleiki og lipurð þessa hjóls.
Ný kynslóð hraðhleðslustöðva | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Flott Ómar
En þú getur varla hafa náð 45 km meðalhraða ef hámarkshraði hjólsins er 45 km á kl. stund.
Kveðja
Vigfús Ingvar
Vigfús Ingvar Ingvarsson (IP-tala skráð) 7.6.2020 kl. 14:28
Snjallt, sendi þetta á vin minn hjá Orkusölunni. :)
Hrannar Baldursson, 7.6.2020 kl. 19:20
Ó,jú. því að lengst af var hraðinn 48 km/klst, afar lítið um tafir þurfti aldrei að stansa við umferðarljós
. Og af því að verið var að líkja eftir akstri í hringveginum, er ekkert ólöglegt við það út frá umferðarreglum að vera á 48 km hraða þar sem er 90 km hámarkshraði.
Þvert á móti er það jákvætt fyrir umferðaröryggi að fækka tilefnum bíla til framúraksturs.
Ef árangurinn verður svipaður í næstu tilraun á þriðjudaginn verður orkukostnaðurinn aðeins 0,8 krónur á ekinn kílómetra!
Á bensínknúna hjólinu á efstu myndinni er kostnaðurinn 5 krónur á ekinn kílómetra.
Á bensínknúnu hjóli er eyðslan meiri á þjóðvegum en í borginni vegna þess hve vélhjól með manni tekur á sig hlutfallslega mikla loftmótstöðu.
Ómar Ragnarsson, 7.6.2020 kl. 19:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.