25.6.2020 | 23:53
Enn ferðast Guðmundur um og vígir.
Það var ánægjuleg stund, sem boðið var upp á síðdegis í dag þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra undirritaði friðlýsingu Búrfellsgjár og næsta nágrennis.
Úr þessu litla, en afar merka eldfjalli rann mikið hraun um magnaða hrauntröð fyrir um 8000 árum og linnti ekki látum fyrr en komið var ofan í Skerjafjörð þar sem sá hluti hraunsins heitir Gálgahraun.
Myndirnar hér á síðunni voru teknar við þetta tækifæri.
Leitun er að bæjarfélagi á borð við Garðabæ, þar sem jafn stór hluti byggilegs svæðis hefur verið friðlýst.
Viðstaddir fóru í göngu frá Heiðmerkurvegi að eldstöðinni og á þeirri göngu mátti heyra og sjá margt merkilegt og skemmtilegt.
Eitt af því var þegar einn göngumanna minnti á það hvernig Guðmundur biskup hinn góði á Hólum ferðaðist um og vígði merka staði, svo sem Drangey.
Nú tíðkuðust athafnir, sem væru að mörgu leyti hliðstæðar, að friðlýsa merk náttúruverðmæti, og enn héti sá Guðmundur, sem ferðaðist um til þeirra verka.
Athugasemdir
Hann er orðinn mikilvirkari en Gvendur Góði sem fór um og vígði Heiðnaberg og fleiri staði. Þær athafnir gleymdust og svo verður væntanlega um þetta friðunarflipp þessa strumps sem enginn kaus til að vera ráðherra.
Halldór Jónsson, 26.6.2020 kl. 11:02
Þú telur þá að enginn hafi kosið Markús Örn Antonsson sem borgarstjóra þau ár sem hann var það? Og enginn hafi kosið Gerald Ford sem forseta Bandaríkjanna 1973?
Ómar Ragnarsson, 26.6.2020 kl. 12:51
Það er reyndar misminni hjá háttvirtum Halldóri að Gvendur hafi vígt Heiðnaberg. Heiðnaberg heitir Heiðnaberg af því það var ekki vígt.
Og bara til upplýsingar; enginn ráðherra hefur verið kosinn í almennum kosningum á Íslandi, þannig að Guðmundur er í ágætum félagsskap hvað það varðar.
Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 26.6.2020 kl. 12:51
"Friðunarflippin" núna eru til dæmis friðun Geysis, sem þú segist vona að gleymist.
Ómar Ragnarsson, 26.6.2020 kl. 12:55
Halldór er orðinn illa elliær...Fer versnandi með hverjum "skrifum".
Kallanginn....
Már Elíson, 26.6.2020 kl. 15:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.