30.6.2020 | 18:09
Falleg athöfn. Íslensk lög: Ekki orð um hvernig vegir eigi að vera. Týpisk vegöxl.
Það var falleg og fjölmenn athöfn, sem fór fram í porti Vegagerðarinnar í dag.
Þetta stóra port var þéttskipað af fólki og vélfákum, smáum og stórum.
Þetta var samstöðufundur og minningarathöfn í senn og vel að honum staðið.
Fallinna félaga í röðum véhjólafólks var minnst og hugurinn hjá aðstandendum, sem urðu fyrir miklum missi.
Á leiðinni heim eftir Vesturlandsvegi kom setningin "við verðum að geta treyst vegunum" í hugann þegar ekið var eftir vegöxl á léttbifhjóli, sem virðist í fyrstu vera á mörkum þess að vera fær, vegna ójafna, rusls og malar á henni.
En þegar Grafarholt nálgast, bregður manni í brún: Vegöxlin mjókkar og virðist bæði grófari og eldri, og strax þar á eftir, nokkrum bíllengdum síðar, hverfur malbiksruddinn alveg og við tekur gróf möl, sem er það laus í sér, að hætta er á að missa stjórn á hjólinu og falla jafnvel af því, hugsanlega falla fyrir bíl á brautinni.
Eins og venjulega er enga aðvörun að sjá fyrirfram.
Vegaxlir gegna mikilvægu öryggishlutverki fyrir farartæki af öllum gerðum og þarf ekki að rökstyðja það. Þær þurfa ekki að vera það breiðar að það eigi að vanrækja að útbúa þær sæmilega svo að örugg not verði af þeim.
Í þungri umferð á þessum vegarkafla á álagstímum þar sem bílaröðin er jafnvel nokkrir kílómetrar á lengd, getur hver vélhjólamaður, sem nýtir sér vegöxl, gefið eftir sem svarar einu auðu svæði fyrir einkabíl í röðinni og þannig liðkað fyrir umferðinni í heild.
En, eins og sést á þessari mynd, sem er tekin þegar umferð er minni, endar þessi vegöxl skyndilega, án nokkurrar viðvörunar.
Er að vísu greinilega afgangsstærð allan aðdragandann varðandi lélegan frágang og rusl og möl á henni.
En síðan snarversnar málið skyndilega.
Malbiksleifar framundan og þar á eftir eingöngu gróf möl, sem getur orðið til þess að sá, sem þar er, missi stjórn á farartæki sínu og falli jafnvel til jarðar, allt eins undir einhvern bílinn.
Í gær var sú spurning lögð fyrir Ólaf Kr. Guðmundsson, sem hefur kynnt sér rækilega gerð vegamannvirkja í áratugi, hvað reglur giltu í íslenskum lögum um vegaxlir.
Svarið var stutt og einfalt: "Engar."
Sem sagt: Vegagerðin ríki í ríkinu. Engin furða að hún ætli að rannsaka sig sjálf.
Svo mikil óreiða ríkir hvað varðar frágang á vegöxlum, að það er hvergi hægt að treysta neinu, - ekki einu sinni hægt að treysta því að þær séu í ólagi.
Þær geta verið breiðar og sléttar og síðan allt í einu breyst í það að vera röð skorninga, lausamalar og rusls eða jafnvel horfið jafn skyndilega og þær birtust.
Hvergi sjást aðvörunarmerkingar, þannig að gervallt íslenska vegakerfið er þannig, að aldrei er neinu að treysta. "Við verðum að geta treyst vegunum," en getum það því miður ekki.
Við verðum að geta treyst vegunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.