21.7.2020 | 08:27
Æpandi mótsagnir í lífeyrismálum.
Hver skilur þessar fréttir af lífeyrissjóðum landsmanna? Þessa dagana snúast þær öðrum þræði um sífellda ásókn í það að þeir "bjargi" þessu fyrirtæki eða hinu á sama tíma sem frétt dagsins er af því að þeim sé að verða um megn að "fjármagna lífeyrisskuldbindingar sínar."
Átökin um þessa sjóði eru skiljanleg þegar þess er gætt að stærð þeirra nálgast að verða tvöföld þjóðarramleiðsla. Þess vegna er þetta gríðarlega fjármagn ásælst til alls konar nota, framkvæmda eða kaupa á fyrirtækjum í gjaldþrotahættu.
En á sama tíma er árum saman seilst í það að skerða réttindi lífeyrisþeganna til sjálfsbjargar með svonefndri tekjutengdri skattpíningu sem getur falist í því að leggja skatt á tekjur, sem eru langt fyrir neðan allt velsæmi.
Maður hélt að aðalhlutverk þessara sjóða væri að greiða lífeyri þeim, sem eiga þá, það er að segja lífeyrisþegana sjálfa, sem stóðu í þeirri trú að þeir væru að leggja hluta af tekjum sínum í sjóð til elliáranna.
En þurfa nú meira að segja að fara með mál sín fyrir erlenda dómsstóla til að fá margra ára ranglæti hnekkt.
Vandi sem ekki mun hverfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eina lífeyrissjóðnum sem er að verða um megn að fjármagna lífeyrisskuldbindingar sínar er B deild lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna. En sá sjóður er eignalaus, sækir allar útgreiðslur í ríkissjóð og hefur ætíð verið í þessari stöðu. Aðrir lífeyrissjóðir sækja útgreiðslur í arð af eignasafni og lánveitingum og eiga ekki í neinum vandræðum.
Skattlagning ríkisins á tekjum tengist lífeyrissjóðunum ekkert. Og hvað er fyrir neðan allt velsæmi er bara persónulegt mat. Tekjutengingar bóta eru svo vegna þess að fátækrabætur (sem heita víst fínna nafni til að stuða engan) Tryggingastofnunar eru ætlaðar þeim sem litlar eða engar tekjur hafa annars í ellinni.
Lífeyrisþegar eiga lífeyrissjóðina eins og þeir eiga landið og miðin, loftið sem þeir anda og sólina sem skín. Þeir gefa ekki eign í þeim upp til skatts, geta ekkert selt og við andlát er enginn eignarhluti sem erfist. Eignin er huglæg og hvergi skjalfest.
Lífeyrisþegar voru ekki að leggja hluta af tekjum sínum í sjóð til elliáranna. Þeir voru að kaupa tryggingu fyrir vissri greiðslu eftir starfslok, hvort sem það er vegna elli eða örorku.
Þó einhver kjósi að fara með mál fyrir dómstóla þá segir það ekki að hann eigi réttmæta kröfu og vinni málið, jafnvel þó það séu erlendir dómstólar.
Vagn (IP-tala skráð) 21.7.2020 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.