Eru "sjálfhlaðandi" tengiltvinnbílar toppurinn?

Öfugsnúin viðbrögð kaupenda svonefndra "sjálfhlaðandi bíla" tekur á sig margar skondnar myndir, sem þó geta haft slæmar afleiðingar. Mitsubishi Outlander PHEV

Látum vera þótt venjulegir hybrid-bílar, sem ekki þarf að kaupa rafmagn á (af því að það er ekki hægt)  séu sagðir sjálfhlaðandi, ef aðeins væri nefnt samtímis, að 100 prósent orkunnar, sem þeir ganga fyrir, er fengin úr bensíni. 

Verra er, þegar útkoman verður sú, að fólk kaupi tengiltvinnbíl en aka þeim síðan nær eingöngu fyrir orkuna af bensínvélinni í þeim. Þá er eins gott að kaupa bara dísilbíl. 

En það er afar algengt að þessum PHEV-bílum er ekið nær eingöngu fyrir bensíni, ef marka má ummæli margra eigenda slíkra bíla, þar sem þeir hafa engar áhyggjur af því þótt þeir fái ekki nýlega lögbundna aðstöðu til að hlaða slíka bíla heimavið, því að þá heyrir maður setningar eins og þessa í dæmigerðum orðaskiptum: 

"Það skiptir mig engu máli þótt ég geti ekki eða nenni ekki að hlaða rafhlöðuna í bílnum, því að hann er sjálfhlaðinn og sér sjálfur um að hlaða rafmagni inn á rafhlöðuna."

"Og hvað eyðir hann miklu bensíni við þetta?" er þá eðlilega spurt. 

"Hann er að vísu ferlega eyðslufrekur, enda svo þungur, og ferðirnar svo stuttar, að hann nær aldrei að hlaða rafhlöðuna, af því að hann verður að skaffa allt aflið við aksturinn með því að láta bensínvélina bæði skila bílnum áfram og hlaða rafhlöðuna. En það þýðir oftast, af því að maður vill láta bílinn komast eitthvað áfram, að eyðslan verður 15 lítrar á hundraðið eða meira."

"En á ferðalögum út á land?"

"Þá er það enn verra, af því að þá verður maður að nýta bensínvélina nær eingöngu."  

Það er ekki að undra þótt eyðslan sé mikil á algengasta tengiltvinnbílnum, því að hann er næstum tvö tonn.  

Flestir eigendur þeirra bíla segjast vera að sýna hve umhverfisvænir þeir séu í keyrslu eins og lýst er hér að ofan, og ekki skemmi fyrir ímyndinni að stöðutáknið skuli vera rafjeppi. 

Þó þarf ekki annað en að líta snöggt á flesta þessa bíla á ferð, að bæði skaga framendar þeirra svo langt fram, og veghæðin er svo lítil, að skilgreiningin "jeppi" er víðsfjarri þeim, að ekki sé nú talað um það, að langflestir þessara "jeppa" hafa aðeins drif á framhjólum.  


mbl.is Snúa aftur hljóðlausir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Hybird bilarnir hlaða inn a sig rafmagni við að bremsa eða hægja a ser, svo að það er ekki rett að þeir noti alla hreifiorkuna fra eldsneyti 

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 28.7.2020 kl. 09:01

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rangt. Þeir fengu alla orkuna til þess að komast í þá aðstöðu að hægja á sér eða fara niður brekku úr bensíninu eingöngu. 

Nema þú getir sagt mér, hvernig rafmagnið komst á annan hátt inn í bíl með enga innstungu. 

Ómar Ragnarsson, 29.7.2020 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband