Aftur á bak um 90 ár. Það sjá erlendir flugmenn.

Ýmsar lögfræðilegar vangaveltur má lesa í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um þá ráðstöfun Icelandair á minnisverðum föstudegi um daginn að segja öllum flugfreyjum félagsins upp og ráða flugmenn og síðar einhverja aðra í þeirra störf. 

Meðal annars er bent á meginreglur í lögum, svo sem lögum um félagafrelsi, sem leyfa eigendum fyrirtækja að ráða eða segja upp starfsfólki og leyfa launþegum að stofna verkalýðsfélög og að aðgerðir Icelandair hafi verið fullkomlega löglegar. 

Hvað snerti vinnulöggjöfina; lög um verkföll vinnudeilur, segja þessir menn, að þau eigi ekki við af því að þau séu löngu orðin úrelt. 

Samt hefur í meginatriðum verið samstaða öll þessi 82 ár að fara eftir þessum lögum, meðal annars með því að láta Félagsdóm skera úr um ágreiningsefni. 

 

Sé svo, að lögin séu orðin úrelt, er gott að horfa til tímans fyrir setningu þessara laga 1938, þegar atvinnurekendur gátu hótað þeim starfsmönnum brottrekstri úr starfi, sem voru í forsvari fyrir verkalýðsfélög eða létu til sína taka á annan hátt í orðum og gerðum. 

Afleiðingar þessa ástands komu meðal annars fram í forystu Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík þar sem Héðinn Valdimarsson gengdi lengst allra formannsstarfi á árunum 1922-1941.

Það var ekki að ástæðulausu að Héðinn valdist til þessarar forystu, því að vegna þess að Héðinn var ekki aðeins skeleggur forystumaður í verkalýðsbaráttunni heldur var hann menntaður hagfræðingur, Alþingismaður frá 1927, stofnandi Tóbaksverslunar Íslands og Olíuverslunar Íslands og var því efnaður maður sem ekki var hægt að beita efnahagslegum hótunum. 

Héðinn var því maður, sem atvinnurekendur gátu ekki haft áhrif á með hótunum um að gera hann atvinnulausan og tekjulausan eins og hægt hefði verið, hefði hann verið venjulegur verkamaður. 

Og í ljósi þessa var sett inn sérstakt ákvæði í lögin um vinnumarkaðinn 1938, sem gerði hótanir um atvinnu- og tekjumissi ólöglegar og það er ekkert, sem hefur gert þetta ákvæði og fleiri ákvæði um verkföll og vinnudeilur jafn viðeigandi og þegar það var sett fyrir 82 árum. 

Það er fróðlegt að sjá hvaða augum erlendir flugmenn líta á þetta mál þegar þeir taka ákveðið málstað flugfreyja.  

 


mbl.is Evrópskir flugmenn fordæma íslenska kollega sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband